Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Varúð – tollar!
Mynd / Odd Stefan
Af vettvangi Bændasamtakana 25. maí 2023

Varúð – tollar!

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands

Það er nú svo að öll ríki heims leggja einhvers konar gjöld á innfluttar vörur, þ.m.t. tolla.

Gunnar Þorgeirsson

Til að greiða fyrir viðskiptum hafa langflest ríki samstarf um tollflokkun og beita samræmdri tollskrá, sem í grófum dráttum má skipta í landbúnaðarvörur annars vegar og iðnaðarvörur hins vegar. Tilgangur álagningar tolla á innfluttar vörur er almennt séð tvíþættur. Annars vegar að afla tekna fyrir ríkissjóð og hins vegar til að vernda viðkvæma innlenda framleiðslu fyrir innflutningi. Í umfjöllun um tolla sem finna má í skýrslu um úttekt á hagsmunum Íslands á landbúnaðarsamningi Íslands og Evrópusambandsins, frá 2020, kemur fram að í fyrri tíð gegndu tollar veigamiklu tekjuöflunarhlutverki fyrir ríkissjóð. Innbyrðis hlutdeild tolla í heildartekjum ríkissjóðs hefur aftur á móti farið lækkandi.

Árið 1986 voru tollar 8% af skatttekjum ríkissjóðs, 3% árið 1996 og 1% árið 2006. Árið 2019 var hlutfallið komið niður í 0,49%. Hlutfallið nú stendur í 0,5%. Gjaldtaka í formi tolla hefur verið á undanhaldi og er tollur á landbúnaðarvörur þar hvergi undanskilinn, þrátt fyrir að vera hluti af opinberri stefnu stjórnvalda gagnvart innlendum landbúnaði og stuðningi við hann.

Bitlaus tollvernd og aukinn innflutningur

Innflutningur hefur aukist töluvert á undanförnum áratug, umfram mannfjöldaaukningu, og er þá eðlilegt að velta fyrir sér áhrifum sem breytt tollaumhverfi hefur haft á þá þróun. Með gildistöku núgildandi viðskiptasamnings við Evrópusambandið árið 2018 hafa stærðir tollkvóta til innflutnings frá Evrópusambandinu aukist úr rúmlega 700 tonnum í yfir 3.500 tonn. Við þetta aukna framboð af tollkvótum lækkaði verð á þeim með tilheyrandi lækkun á meðaltolli þeirra vara sem innifaldir eru í kvótunum.

Oft hefur verið talað um að kjötinnflutningur sé notaður til að bregðast við aukinni eftirspurn tengdri fólksfjölgun og sveiflum í ferðamannafjölda og þar með gefið í skyn að eftirspurn eftir innlendum vörum sé vaxandi og að í raun sé framboðsvandi, ekki eftirspurnar-. Með öðrum orðum, vegna langs framleiðsluferils neyðast söluaðilar til að stoppa í götin milli framboðs og eftirspurnar með innflutningi. Gögnin sýna hins vegar annað. Innflutningur er farinn að kroppa af sölunni á íslensku kjöti og framleiðsla þess dregist saman ár hvert frá 2018. Kjötframleiðsla dróst saman um 2.000 tonn frá 2018 til 2022 sem gerir rúmlega 6% samdrátt. Framleiðsla á mann (íbúafjöldi og ferðamannafjöldi á hverri stundu) dróst saman um 11% á árunum 2018–2022 og rétt tæplega 16% yfir tímabilið 2012–2022.

Af kjötframboði á Íslandi er erlent kjöt og kjötvörur nú með 24% markaðshlutdeild og hefur hún rúmlega þrefaldast frá árinu 2012. Innflutningur á mann hefur margfaldast um 3,4 frá árinu 2012.

Ekki aftur snúið með grænmetið

Einstakir aðilar í pólitíkinni og frá hagsmunasamtökum innflytjenda og verslunar tala fyrir niðurfellingu tolla og aukningu styrkja í landbúnaði. Það er nú samt svo að jafnvel hörðustu frjálshyggjumenn í grunninn eru á því að halda eigi í tollvernd á íslenskri landbúnaðarframleiðslu gagngert, m.a. til að tryggja fæðuöryggi.

Eftir sem áður hefur sú umræða farið mikinn þar sem lagt er til að farin sé sú leið í stuðningi við landbúnað eins og gert var í garðyrkjunni á árunum 2012 en þá var ákveðið að leggja til beingreiðslur í framleiðslu á gúrkum, tómötum og papriku og samhliða því að fella niður tolla af áðurnefndum afurðum. Með þessu tók framleiðslan við sér að hluta en hver hefur þróunin verið? Framleiðslan á mann hefur minnkað. Með niðurgreiðslunum voru settir ákveðnir fjármunir inn í greinina sem hefur ekki fylgt því magni sem framleitt er og enginn hvati í kerfinu er til staðar sem hvetur til aukinnar framleiðslu, þvert á móti. Það er mikilvægt að stuðningur fylgi auknu framleiðslumagni svo hvatar til aukinnar framleiðslu séu til staðar. Líkt og staðan er í dag og horfur til framtíðar, þá er verið að framleiða einungis u.þ.b. 45% af því grænmeti sem við neytum, hvernig getum við gert betur? Mikilvægt er að standa vörð um þá tollvernd sem er þó til staðar í einstaka tegundum grænmetis og það helst í útiræktuðu grænmeti.

Tollar eru hluti af starfsskilyrðum landbúnaðarins

Í rammasamningi búvörusamninga sem endurskoðaður var árið 2021 segir m.a. eftirfarandi í 10. gr.:

„Tollvernd er hluti af starfsskilyrðum landbúnaðarins. Aðilar eru sammála um að þróun tollverndar þarfnist áframhaldandi skoðunar í kjölfar nýlegrar skýrslu sem unnin var fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Þá eru samningsaðilar sammála um að forsendur fyrir tollasamningi Íslands og ESB sem tók gildi í maí 2018 eru breyttar, sérstaklega hvað varða útflutningstækifæri. Utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra hefur þegar óskað eftir endurskoðun samningsins.“

Þá segir í grein 13.1 í samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar frá árinu 2016:

„Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mun beita sér fyrir breytingu á tollalögum til að breyta magntollum á mjólkur- og undarrennudufti og ostum til sama raunverðs og gilti í júní 1995.“

Einnig segir í 11. gr. í samningi um breytingar á samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða frá árin 2019 um tollvernd:

„Ef breytingar verða gerðar á forsendum samningsins varðandi tollvernd, geta samningsaðilar óskar eftir viðræðum um endurskoðun þeirra atriða við endurskoða þessa samnings 2023.“

Af þessu má ljóst vera að stjórnvöld hafa undirgengist það skilyrði að tollvernd sé hluti af starfsskilyrðum landbúnaðarins og því hafi breytingar á tollum landbúnaðarafurða bein áhrif á búvörusamninga.

Ein meginforsenda þess að hægt sé að byggja upp íslenska framleiðslu er að þeir sem hana stunda geti starfað við eðlilegt rekstrarumhverfi og horft til framtíðar. Til að íslenskur landbúnaður blómstri liggur framtíðin ekki í því að fella niður tollvernd og hugsa svo.

Skylt efni: tollvernd

Hraunflóðavarnir og þekking
Lesendarýni 16. júlí 2024

Hraunflóðavarnir og þekking

Nú eru í gangi umfangsmiklir jarðeldar á Reykjanesskaga, hafa þegar verið í gang...

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti
Lesendarýni 5. júlí 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti

Í síðasta eintaki af Bbl. birtist grein um það hvernig öldusveigjan umhverfis Ve...

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra
Lesendarýni 2. júlí 2024

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra

Velferð dýra er ófrávíkjanleg krafa siðmenntaðs samfélags, hvort sem um ræðir gæ...

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn
Lesendarýni 24. júní 2024

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn

Fyrir röskum þremur árum ritaði greinarhöfundur þrjár greinar um landbúnað og sa...

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda
Lesendarýni 21. júní 2024

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda

Ágætu bændur. Í Bændablaðinu þann 16. maí sl. reifaði ég í bréfi til ykkar áhygg...

Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þræt...

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna
Lesendarýni 21. júní 2024

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí. Mikil veiði hefur verið enda mikið af f...

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki
Lesendarýni 20. júní 2024

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki

Tandrabretti ehf. hefur undanfarin ár unnið að uppbyggingu á viðarperluframleiðs...