Brothættar byggðir, vonarstjarna í byggðamálum?
Höfundur: Sigríður K. Þorgrímsdóttir,
Hvernig er hægt að snúa við neikvæðri byggðaþróun? Líklega er þetta grundvallarspurning í byggðamálum, spurning sem við sem störfum á þessu sviði heyrum gjarnan. Við starfsmenn Byggðastofnunar veltum henni nánast daglega fyrir okkur. Spurningin sú hvílir til dæmis á aðþrengdum íbúum byggðarlaga sem eiga undir högg að sækja vegna langvarandi fólksfækkunar og erfiðleika í atvinnulífi og vegna þátta eins samdráttar í þjónustu og verðfalls húseigna.
Ef við þekktum eitt einhlítt svar gætum við ef til vill einbeitt okkur að því, en væntanlega eru mörg og flókin svör. Liggur lausnin hjá stjórnvöldum – er hægt að stöðva fólksflótta með aðgerðum ríkisins? Það hafa Norðmenn til dæmis reynt með aðgerðum eins og skattaívilnunum til þeirra sem vilja flytja í fámennari byggðarlög eða hefja þar atvinnustarfsemi. Norðmenn telja sjálfir að þessi aðferð virki, að minnsta kosti að einhverju leyti. Um þessa leið hefur lengi verið rætt hér á landi, en fram til þessa hefur ekki verið pólitískur vilji til að feta þá slóð.
Eða liggur ábyrgðin hjá stoðkerfi atvinnulífsins, til dæmis Byggðastofnun og landshlutasamtökunum? Eða kannski hjá sveitarfélögunum og íbúunum sjálfum? Svo aftur sé vitnað til reynslu Norðmanna þá eiga þeir öflugt stoðkerfi til varnar byggðarlögum í vanda. Má til dæmis nefna áætlun sem þeir kalla „Regional omstilling“, sem mætti þýða lauslega sem endurstillingu eða nýtt fyrirkomulag. Áætlunin er í samstarfi byggðamálaráðuneytisins, norsku nýsköpunarmiðstöðvarinnar, fylkjanna og sveitarfélaganna og er hugsuð sem viðbrögð við krísu, til dæmis vegna áfalla í atvinnulífi með fækkun starfa sem afleiðingu. Unnið er í áfangaskiptu verklagi í allt að sex ár og eftirfylgnin á að liggja ljós fyrir sem og að ábyrgð færist frá hinu opinbera til heimabyggðar. Miklir fjármunir fylgja verkefninu.
Getum lært af verklagi Norðmanna
Þó svo við sem störfum innan íslensks stoðkerfis í byggðaþróun og atvinnulífi getum ef til vill ekki fetað í slóð Norðmanna hvað fjármuni varðar, þá teljum við okkur geta lært af verklagi þeirra. Það höfum við á Byggðastofnun gert í verkefni eða verkáætlun sem við nefnum Brothættar byggðir og ég ætla að lýsa hér nánar. Vert er þó að taka fram að verkefnið er ekki frá upphafi sniðið að norskri fyrirmynd, heldur varð upphaflega til sem hugmynd í samræðum stjórnenda stofnunarinnar við hagsmunaaðila á Raufarhöfn árið 2012.
Byggðastofnun hafði í framhaldinu frumkvæði að tilraunaverkefni með það að markmiði að leita lausna á bráðum vanda Raufarhafnar, vanda sem átti rætur að rekja til sölu aflaheimilda og lokun SR-Mjöls upp úr síðustu aldamótum og sem birtst í langvarandi og alvarlegri fólksfækkun. Verkefnið á Raufarhöfn var hugsað sem fyrirmynd sem hægt yrði að nota þar sem samfélög stæðu frammi fyrir erfiðleikum vegna fækkunar íbúa, áföllum í atvinnulífi eða annarri ógn. Árið 2013 var ákveðið að verkefnið skyldi auk Raufarhafnar ná til Bíldudals, Skaftárhrepps og Breiðdalshrepps og tveimur árum síðar var þremur byggðarlögum bætt við, en það voru Hrísey, Grímsey og Öxarfjarðarhérað.
Leitast við að leiða fram vilja og skoðanir íbúa
Í Brothættum byggðum er leitast við að leiða fram vilja og skoðanir íbúa og greina mögulegar lausnir á þeirra forsendum, í samvinnu við ríkið, landshlutasamtök, atvinnuþróunarfélög, viðkomandi sveitarfélög og aðra sem láta sig framtíð byggðarlaganna varða. Verkefnið er hugsað frá grasrótinni, fremur en ofan frá, að íbúar leggi sjálfir línurnar til úrlausna í stað þess að utanaðkomandi sérfræðingar segi þeim hvað gera skuli. Þeir eiga hins vegar að veita íbúunum þann styrk og stuðning sem þeim er unnt, svo árangur fáist af verkefninu.
Þau sjö byggðarlög sem verkefnið hefur tekið til frá upphafi eiga það sameiginlegt að þar hefur verið mikil fólksfækkun, ekki síst í yngri aldurshópum, sem þýðir fá börn á skólaaldri og hækkandi meðalaldur. Gjarnan eru byggðarlögin langt frá fjölmennum vinnusóknarsvæðum (stærra þéttbýli), atvinnulíf er einhæft og þjónusta af skornum skammti, skortur er á íbúðarhúsnæði, sérstaklega á leigumarkaði. Mörg byggðarlaganna liggja nokkuð langt frá höfuðborginni.
Í þátttökubyggðarlögum Brothættra byggða er skipuð verkefnisstjórn sem í sitja fulltrúar Byggðastofnunar, landshlutasamtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunarfélaga eftir því sem við á, viðkomandi sveitarfélags og íbúa byggðarlagsins. Haldið er tveggja daga íbúaþing þar sem rætt er um stöðu byggðarinnar og leiðir til úrlausna. Framhaldið byggir á stöðugreiningu ásamt niðurstöðum íbúaþingsins og markmiðssetningu og verkefnum sem sett eru fram í samhengi við markmiðin. Ráðnir eru verkefnisstjórar til að fylgja markmiðum og verkefnum eftir í samstarfi við verkefnisstjórn og heimamenn. Gert er ráð fyrir að verkefnisstjórarnir sinni þátttökubyggðarlögum á tilteknu svæði/landshluta og því mögulegt að einn og sami verkefnisstjóri starfi fyrir fleiri en eitt byggðarlag.
Verkferli Brothættra byggða er skipt í fjóra áfanga og getur ferlið tekið allt að fimm ár fyrir hvert byggðarlag. Íbúaþingið er veigamikill hluti verkefnisins þar sem grunnur að stefnumótun er lagður. Meginmarkmið Brothættra byggða er að stöðva viðvarandi fólksfækkun í smærri byggðakjörnum og sveitum landsins. Þeim vinnuaðferðum sem er beitt er ætlað að stuðla að valdeflingu og það birtist m.a. í fyrirkomulagi funda og í ferlinu í heild sinni. Undirmarkmið eru eftirfarandi:
- Að auka viðnámsþrótt brothættra byggðarlaga gegn hnignun svo sem fólksfækkun, skekktri aldursdreifingu og áföllum í atvinnulífi.
- Að virkja frumkvæði íbúa og samtakamátt og auka vitund þeirra um eigin þátt í þróun samfélagsins.
- Að gefa íbúum kost á að taka þátt í forgangsröðun málefna.
- Að stilla saman strengi ríkis, sveitarfélags, opinberra stofnana, atvinnulífs og íbúa í ákvörðunum sem varða viðkomandi byggðarlag.
- Að nýta verkefnið til að vekja athygli á viðfangsefnum sem eiga við í fleiri en einu byggðarlagi og leita lausna á þeim í samstarfi við stjórnvöld og aðra hagsmunaaðila.
Mat á árangri Brothættra byggða
Árin 2014-2015 fór fram mat á árangri Brothættra byggða á vegum atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis. Á grundvelli reynslu af verkefninu fyrstu árin, ofangreindrar matsvinnu og kynnisferðar til Noregs árið 2014 var verkefnið endurmótað og sett upp í áfanga eins og fyrr greinir. Byggðastofnun metur einnig árangur verkefnisins árlega í samstarfi við verkefnisstjórnir í hverju byggðarlagi. Meðal gagnlegra ábendinga eftir fyrstu tvö árin var að lengja þyrfti verkefnistímann, að bæta eftirfylgni, styrkja samstarfið og ekki síst að auka samtal við aðrar ríkisstofnanir og stjórnvöld. Var brugðist við þessu með að setja fram verkefnislýsingu að norskri fyrirmynd, ráða verkefnisstjóra, lengja verkefnistímann og kynna verkefnið reglubundið fyrir stýrihópi Stjórnarráðsins og auka samstarfið við ráðuneytið, áður atvinnu- og nýsköpunarráðuneyti, nú samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.
Vel hefur tekist að virkja heimamenn og efla samstöðu þeirra að okkar mati og þeirra sem lagt hafa mat á verkefnið. Aðrir árangursríkir þættir sem tengjast verkefninu Brothættar byggðir er aflamark sem Byggðastofnun úthlutar til sjávarbyggða í erfiðleikum og hefur nýst sumum þessara byggðarlaga vel. Orkustofnun/Orkusetur hefur úthlutað styrkjum til orkusparandi aðgerða í íbúðarhúsum. Þá má nefna styrki sem veittir eru árlega til frumkvæðisverkefna á öllum svæðunum. Alls hafa hátt í 120 verkefni hlotið styrki sem nemur um 100 m.kr., en vert að geta þess að úthlutun ársins 2017 er ekki að fullu lokið.
Ekki er ætlunin að halda því fram að með verkefninu Brothættum byggðum sé allur byggðavandi leystur. Langtímaáhrif þessa verkefnis eru óljós enn sem komið er. Sá þáttur verkefnisins sem kannski er hvað styst á veg kominn er samtalið við ríkisvaldið. Sú vinna er þó hafin og við vonumst til að hún skili árangri.
Mikilvægt að ríki og stofnanir þess leggist á árar með íbúum brothættra byggða
Við heyrum þau viðhorf í starfi okkar að ríkisvaldið hafi lítinn áhuga á högum fólks í veikum byggðarlögum og óneitanlega eru dæmi um að teknar séu ákvarðanir sem varða þátttökubyggðarlög Brothættra byggða þvert á það sem verið er að vinna að í því verkefni. Sameiginleg málefni allra byggðarlaganna snerta innviði svo sem samgöngur, raforkumál og fjarskipti. Þá má einnig nefna húsnæðismál, heilbrigðis- og menntamál. Þetta eru flest stórir og fjárfrekir málaflokkar og þungt undir fæti að ná samtali og samstöðu um þá og þá einkum að fámenn og brothætt byggðarlög njóti forgangs. En ekkert er ómögulegt og allt eru þetta mannanna verk. Það er mikilvægt að ríki og stofnanir þess leggist á árar með íbúum brothættra byggða og auki þannig líkur á að viðspyrna náist á þeim fjórum til fimm árum sem verkefnið stendur í hverju byggðarlagi. Stýrihópur Stjórnarráðsins gegnir lykilhlutverki við að samræma sjónarmið og aðgerðir með tilliti til verkefnisáætlunar hvers byggðarlags.
Tæki stjórnvalda til hjálpar í byggðarlögum
Frá upphafi var stefnan sú að verkefnið Brothættar byggðir yrði tæki stjórnvalda til hjálpar í byggðarlögum sem búa við langvarandi fólksfækkun og aðra vá. Engir fjármunir voru til verkefnisins til að byrja með en það hefur breyst. Vonir standa til að með nýrri byggðaáætlun megi tryggja fjárhagsgrundvöll verkefnisins til nokkurra ára þannig að gera megi samninga í einstökum byggðarlögum um áfangaskipt verkefni til allt að fimm ára samkvæmt verkefnislýsingu.
Á heimasíðu stofnunarinnar www.byggdastofnun.is er að finna verkefnislýsingu og viðauka við hana, en þar má finna útlínur að starfinu. Við lítum á það sem lifandi skjal, eitthvað sem þarfnast aðlögunar og breytinga út frá reynslu og ábendingum. Fyrst og síðast viljum við halda í þá hugsjón að verkefnið Brothættar byggðir taki mið af skoðunum heimamanna í þeim byggðarlögum sem taka þátt í því og að það sé unnið í víðtæku samstarfi allra þeirra sem koma að málefnum viðkomandi byggðarlaga, hvort heldur eru íbúar, atvinnulíf eða hið opinbera.
Sigríður K. Þorgrímsdóttir,
annar tveggja verkefnisstjóra Brothættra byggða og starfsmaður á þróunarsviði Byggðastofnunar.