Er vá fyrir dyrum? – Breytum við þá strandveiðunum?
Hér fer ekki opið bréf til forsætisráðherra en gott væri ef hún gæti, t.d. á síðum þessa blaðs, svarað spurningum sem eru hér í fyrirsögn. Nú boðar ráðherra að bætt skuli í markmið Íslands í loftslagsmálum, eins og við værum að ná þeim fyrri? Einhvers staðar var, við sama tilefni, haft eftir ráðherra að það væri ,, ... vá fyrir dyrum“.
Þótt orð séu til alls fyrst þá nást engin markmið án þess að eitthvað sé aðhafst. Það eru endalausir kostir í boði en þeir eru misjafnlega sársaukafullir fyrir fólk og samfélag. Sumt er samt hægt að gera með einu ,,pennastriki“ án þess að nokkur verði þess var nema ef helst væri í betri afkomu.
Strandveiðar, sem stundaðar hafa verið allt í kringum landið, eru sóðalegar þegar tekið er tillit til olíunotkunar.
Breytingarnar sem nauðsynlegar eru í þessu veiðikerfi snúast í grunninn um að taka, þegar kostur er, meiri afla í hverri sjóferð. Aðalheimskan í núverandi fyrirkomulagi er að þegar veiðimaðurinn hefur keyrt ,,um allan sjó“ til að finna fisk þá er hann skikkaður til að keyra í land þegar hann hefur náð 775 kg eða hefur verið ákveðið marga klukktíma utan hafnar. Svo má hann byrja sömu vitleysuna næsta dag.
,,VG leggur sérstaka áherslu á eflingu strandveiða.“ Þetta kom fram í stefnu VG um sjávarútvegsmál og sett í letur á aðalfundinum 2019 en líka, ,,Skipta þarf út jarðefnaeldsneyti“. Gott og vel, hvort tveggja hljómar fallega. Á þessum tímapunkti er ekki raunhæft að ætla til veiða án olíu. Það er hins vegar raunhæft að ná strandveiðipottinum með 60% minni olíunotkun en viðgengst í dag. Þetta er staðreynd sem undirritaður hefur þegar sýnt fram á m.v. tilteknar ,,eðlilegar“ aðstæður.
Þegar ,,efling strandveiða“ er sett inn í stefnuskrá, veit þá sá er það samþykkir hvað það þýðir? Hvernig á að efla strandveiðar? LS (,,Landssamband strandveiðimanna“) var eitt sinn með kröfu um 16 róðrardaga í mán. í stað 12. Í eldri grein um þessi mál er sýnt fram á að þessi dagafjölgun gæti þýtt, m.v. 600 báta, olíueyðslu upp á tæplega tvær milljónir lítra. Til viðbótar.
Nýkjörinn formaður LS gefur reyndar fyrirheit um breytingar í rétta átt þegar hann segir, enn einu sinni, ,,smábátaveiðar vera umhverfisvænar“. Breyting sú sem hér er boðuð mun færa smábátaútgerð nær þeirri fullyrðingu og því ekki ólíklegt að umræddur formaður taki þessari tillögu opnum örmum en í stuttu máli er hún á þennan veg:
Hámarksafli verði fyrir hvern bát í hverjum mánuði og ákvarðast það magn af fjölda þeirra sem sækja um í hverjum mánuði fyrir sig. Aflapottur deilt með bátafjölda. Hægt að sækja um minna magn því mönnum verður skylt að ná aflanum.
Er þetta flókið? Engar aðrar reglur. Ekkert hámark á dag. Engin tímamörk, menn geta algjörlega stjórnað eigin róðrarlagi. Þetta ofureftirlit, sem verið hefur með þessum flota, verður úr sögunni. Bátar eru eingöngu fastir í þessu kerfi þá mánuði sem valdir hafa verið.
Með þessu fyrirkomulagi fæst meira en gríðarlegur olíusparnaður því á sömu spýtunni hangir hærra fiskverð og betri umgengni um auðlindina með minna smáfiskadrápi og útrýmingu brottkasts á blóðguðum fiski.
Öll umræða um þetta veiðikerfi verður samt að hefjast á því til hvers þetta veiðikerfi er og fyrir hverja. Margir þeirra, sem á fundum LS hafa barist gegn tillögum af þessu tagi, sem eru alls ekki nýjar, telja sig eiga þetta veiðikerfi og að allar breytingar til hins betra verði til þess að fleiri komi inn í kerfið og það þykir þeim slæmt, þótt framkvæmdastjóri félagsins fagni fjölgun báta innan kerfisins.
Tilgangurinn, að mati undirritaðs, var að opna aflamarkskerfið til þess að styðja við tilverurétt þess um leið. Einhvers konar ,,allir fá að veiða“ hugsun.
Núna eru þetta ca 11.000 tonn sem við ættum að taka með sem hagkvæmustum hætti og reyna, ef vá er fyrir dyrum, að lágmarka kolefnissporið. Efling strandveiðanna getur því aðeins orðið með stærri veiðipotti. En hvar liggja þær heimildir á lausu? Í hafinu myndi einhver segja.
En innan aflamarksins liggja þær helst í byggðapottum.
Undirritaður hefur áður ritað um þessar leiðir og þá útlistað breytingarnar frekar og er auðvelt að leita uppi þau skrif ef vilji er fyrir hendi. Þetta ætti að duga sem ábending til þeirra sem láta sig þessi mál varða, eins og t.d. forsætisráðherra.
Skilaboðin eru skýr. Það er ekki rétt að strandveiðar séu ,,umhverfisvænar“ þegar olíu er sóað með þessum hætti og það má svo auðveldlega breyta fyrirkomulaginu svo allir njóti góðs af.