Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Erfitt að skilja
Mynd / BBL
Skoðun 14. febrúar 2017

Erfitt að skilja

Höfundur: Hörður Kristjánsson
Það verður að segjast eins og er að það er stundum erfitt að skilja hvernig menn ætla sér að reka þetta þjóðfélag. 
 
Forgangsröðun er mjög svo ofnotað tískuorð pólitíkusa og eitt er víst að forgangsmál sumra alþingismanna virðast vera ansi undarleg. Allir þykjast sammála um að það vanti gríðarlega mikla fjármuni til að reka heilbrigðis- og tryggingakerfið. Það er samt eitthvað mikið að í allri þeirri háværu umræðu.
 
Lítið heyrist t.d. talað um hvort ekki sé hægt að reka einn hluta heilbrigðiskerfisins, þ.e. Landspítalann, á skilvirkari hátt en gert er. Langir biðlistar eru sagðir viðvarandi vandamál og forstjórinn er duglegur við að fá fjölmiðla til að birta myndir af löngum göngum, þéttsetnum, eða öllu heldur þéttlegnum af sjúklingum. Hátt er hrópað á nýjar byggingar með enn lengri göngum, en enginn talar um hvort hann verði í raun skilvirkari og léttari í rekstri en sá gamli.
 
Ekki er heldur haft hátt um hversu margt fagfólk þarf til að manna alla þá ganga sem byggja á og hvað slíkt kostar. Svo ekki sé talað um hvernig leysa á aðgengisvandann að spítalanum sem staðsettur er í yfirfullum bílabotnlanga á nesi sem hefur fáar útgönguleiðir sem allar eru yfirfullar af bifreiðum lungann úr deginum.  
 
Umferðarvandi höfuðborgarinnar er athyglisverður í ljósi þess að Íslendingar hafa sótt það fast að fá fleiri ferðamenn til að heimsækja landið. Því hljóta samgöngur og vegakerfið að eiga að vera í forgangi ef dæmið á að ganga upp. Talað er um að bíleigendur séu nú þegar að greiða um 70 þúsund milljónir á ári í alls konar gjöld til ríkisins sem upphaflega voru öll eyrnamerkt vegagerð. Aðeins brot af þessu hefur verið nýtt til vegagerðar og viðhalds vegakerfisins. Það hlýtur að vera krafa greiðenda að peningarnir séu notaðir eins og upphaflega var ætlast til. 
 
Í samanburði við önnur ferðamannalönd eru Íslendingar hreinir molbúar. Vegakerfið er allt meira og minna að grotna niður. Brotið slitlag, rásir í vegi, einbreiðar brýr og fleira og fleira hafa leitt til ótölulegs fjölda óafsakanlegra slysa. Þessi slys hafa kostað spítalavist og mannslíf og þau auka líka álag á heilbrigðiskerfið til mikilla muna. Af hverju í fjáranum slá menn þá ekki tvær flugur í einu höggi og byrja á að leysa vandann þar sem uppruninn er og létta um leið álaginu af sjúkrastofnunum? 
 
Hægt er að nefna fjölmörg dæmi til samanburðar. Eitt þeirra þekkja margir Íslendingar mjög vel. Það er spænska eyjan Gran Canaria sem er með tæplega 850 þúsund íbúa. Í höfuðborginni Las Palmas búa rúmlega 380.000 manns. Til þessarar eyju komu vel yfir 6 milljónir ferðamanna í fyrra og um tvöfalt fleiri fóru þar um eina flugvöll eyjunnar, flestir vegna tengiflugs. Það væri útilokað fyrir eyjarskeggja að taka við öllum þessum ferðamönnum ef vegakerfið væri ekki í fullkomnu lagi. 
 
Las Palmas státar af gömlum og merkum byggingum með mjög þéttum byggðakjarna. Þar  mun eldri og þéttari kjarni en í Reykjavík. Samt gátu menn leyst umferðarmálin til og frá borginni með glæsibrag. Þar skynjuðu ráðamenn að eina leiðin var að gera öflugar hraðbrautir með tengingum inn í borgina með slaufum og fjölda jarðganga. Þess vegna sér maður gríðarmikla umferð á aðalleiðum í gegnum borgina aldrei tefjast vegna umferðaljósa. Það er þveröfugt við Reykjavík, sem er ekki einu sinni hálfdrættingur hvað íbúafjölda varðar. Samt virðist ekkert eiga að gera hér til að leysa málin. Margs konar gæluverkefni, sem helst eru til þess fallin að auka á vandann, eins og þrengingar gatna, eru greinilega miklu framar í hinni fínu forgangsröð. 
Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...