Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Hestar í höfuðborginni
Skoðun 5. júlí 2018

Hestar í höfuðborginni

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson

Hestamannafélagið Fákur heldur nú Landsmót hestamanna  á svæði sínu í Víðidal í austurhluta Reykjavíkur og allt bendir til að þetta mót verði hið glæsilegasta. Mótið hófst á sunnudag með forkeppni í barna- og unglingaflokkum. Þann dag var frítt inn á svæðið og mikið af skemmtilegum hlutum í boði fyrir yngstu kynslóðina.

Allt er þetta mikilvægt, bæði til að gefa öllum aðstandendum tækifæri á að fylgjast með sínu fólki og að gefa áhugasömu fólki kost á að kynna sér hvað fer fram á svona viðburði. Það er mikilvægt fyrir okkur að fá annað slagið tækifæri til að tengja betur saman lífsviðurværi og áhugamál okkar sem lifum í sveitinni og þeirra sem búa í þéttbýlinu.

Víða hafa byggst upp öflug hrossaræktarbú

Hrossaræktin er nátengd íslenskum landbúnaði og hefur verið aðalbúgrein, aukabúgrein eða hliðarbúgrein á mörgum íslenskum búum í gegnum tíðina. Margir þekkja það að hafa fyrst komist á hestbak í sveitinni.

Það er ánægjuleg þróun að víða hafa byggst upp öflug hrossaræktarbú sem hafa verið leiðandi í ræktun, tamningu og þjálfun á íslenska hestinum og hafa jafnframt náð góðum árangri í sölu lífhrossa hér á landi og um allan heim.  Hrossaræktin sem búgrein er mikilvæg innan Bændasamtakanna því hún styður við gríðarlega margar aðrar búgreinar, auk þess sem hrossarækt og hestamennska hafa skipað stóran sess við að kynna Ísland á erlendum vettvangi.

Ótvíræð mikilvægi hrossaræktarinnar

Mikilvægi hrossaræktarinnar er ótvírætt og hagræn áhrif greinarinnar margslungin. Þó útflutningur á hrossum hafi oft verið meiri en nú, má færa rök fyrir því að gjaldeyrissköpun hrossaræktarinnar sé mikil.

Hingað til lands koma yfir tvær milljónir ferðamanna á ári, margir hverjir í þeim erindagjörðum að eiga stefnumót við íslenska hestinn.Ýmsir viðburðir og afþreying tengd íslenska hestinum eru aðdráttarafl og skapa miklar tekjur. Minjagripir með vísunum í íslenska hestinn eru fjölmargir og þar væri jafnvel hægt að ná enn meiri árangri með hugmyndaauðgi og útsjónarsemi.

Við nýtum landsins gæði og þurfum að gæta þess að fara vel með það sem okkur er treyst fyrir. Á síðustu misserum hefur umræða aukist um neikvæðar hliðar aukinnar umferðar ferðafólks um landið.

Hrossaræktendur og aðrir sem starfa í tengslum við íslenska hestinn þurfa að vera virkir þátttakendur í þeirri umræðu og halda sínum sjónarmiðum á lofti. Verndun landsins og virðing fyrir náttúrunni þarf að fara saman við hófsama nýtingu. Það á við um ferðaþjónustuna líkt og landbúnaðinn.

Venjan er að margir erlendir gestir sæki einnig landsmótin hverju sinni.  Íslandshestaheimurinn er gríðarstór og það er mikill áhugi á hestinum okkar á heimsvísu. Með einföldun mætti skipta áhugamönnum um íslenska hestinn í tvo hópa. Þeir sem hafa komið til Íslands og þeir sem eiga eftir að koma til Íslands. Margir hverjir eru búnir að koma oft til landsins og sumir árlegir gestir.  Allt þetta fólk hefur mikinn áhuga á landinu okkar og menningu okkar.  

Mjög sterk tengsl við ferðaþjónustuna

Hestamennskan, eins og landbúnaðurinn allur, hefur því mjög sterk tengsl við ferðaþjónustuna á Íslandi.  Glæsilegur vöxtur í ferðaþjónustu hefur komið okkur öllum til góða. Við megum aldrei gleyma því að upplifun ferðamanna er samspil okkar allra. Þar skipar landbúnaðurinn veigamikinn sess.  

Ferðaþjónusta og landbúnaður eiga mikla samleið og hagsmunir greinanna eru samofnir. Ásýnd sveitanna skapar það menningarlandslag sem ferðamenn berja augum á ferðum sínum um landið. Íslenskur matur er ríkur þáttur af upplifun þeirra sem um landið fara.

Uppskeruhátíð ræktenda og knapa

Það er alltaf tilhlökkunarefni þegar kemur að Landsmóti hestamanna. Hér gefst færi á því að berja augum þá gæðinga og kynbótahross sem skara fram úr. Mótið er uppskeruhátíð bæði ræktenda og knapa. Þeir fyrrnefndu fá tækifæri til að meta árangur kynbótastarfs liðanna ára og þeir síðarnefndu koma með hross til dóms þar sem lagt er mat á tamningu og þjálfun undangenginna missera.

Allflestir hafa skoðun á kosti og göllum þeirra landsmótsstaða sem valdir hafa verið á  tveggja ára fresti gegnum tíðina. Sú umræða er yfirleitt hressileg en samkoman er alltaf vel sótt og hestakostur glæsilegur. Hver landsmótsstaður hefur ávallt sinn sjarma.

Það að staðsetja landsmót í höfuðstaðnum gefur okkur alltaf færi á að gera eitthvað sem við ekki myndum gera í sveitinni á meðan sveitin gefur okkur færi á allt öðrum áherslum.

Sem ungur maður í Árbænum þekkti ég það að halda hross í Víðidalnum, það var gott samfélag. Þar fann ég að sveitin og borgin mættust. Það gerist líka núna í vikunni með landsmóti hestamanna. Gleðilega hátíð.

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...