Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Guðni Ágústsson.
Guðni Ágústsson.
Lesendarýni 16. mars 2021

Brotið á bændum

Höfundur: Guðni Ágústsson

Núverandi landbúnaðarráðherra lagði fyrir Alþingi frumvarp að lögum árið 2019 og fékk það samþykkt að Búnaðarstofa færðist í atvinnuvegaráðuneytið 1. janúar 2020. Í dag heyrir Búnaðarstofa, sem sjálfstæð starfseining, sögunni til því hún finnst hvergi innan ráðuneytis landbúnaðar.

Það er ljóst að í engu hefur verið farið eftir vilja löggjafar­samkomunnar, því í greinargerð atvinnuveganefndar Alþingis voru frómar óskir sem fylgdu Búnaðarstofu í hina nýju vist við vistaskiptin. Fyrirmæli Alþingis voru kýrskýr:

,,Atvinnuveganefnd Alþingis beinir því til ráðuneytisins í ljósi mikilvægi og umfangs þeirra verkefna sem Búnaðarstofa sinnir í dag við framkvæmd búvörusamninga, hagtölusöfnun og þróun tölvukerfa að ráðuneytið afmarki með skýrum hætti verkefni Búnaðarstofu innan ráðuneytisins.“

Verkefni Búnaðarstofu við að halda utan um verkefni í tengslum við búvörusamninga ríkis og bænda, má rekja um 80 ár aftur í tímann til samninga bænda við stjórnvöld, og ætíð var talið skynsamlegt og hagkvæmt að þessi starfsemi væri samstarfsverkefni stjórnvalda og bænda. Þá höfðu menn nefnilegt heyrt talað um tengslanet í stjórn-sýslu, sem er það heitasta í þeim fræðum í dag.

Það sem er alvarlegt við þennan gjörning ráðherra er að hér er illilega farið á svig við vandaða stjórnsýsluhætti í anda stjórnsýslulaga, helsta markmið með setningu stjórnsýslulaga var að tryggja sem best réttaröryggi manna í skiptum við hið opinbera. Með því að færa stjórnsýsluverkefni í tengslum við framkvæmd búvörusamninga undir ráðuneyti landbúnaðarmála þá er tekin kæruréttur af bændum á öllum stjórnvaldsákvörðunum. Kæruleiðin hefur verið tekin af bændum með innlimun Búnaðarstofu inn í ráðuneyti landbúnaðarráðherrans fyrir ári síðan.

Ef bændur telja á sér brotið af ráðherra við framkvæmd búvörusamninga, þá verða þeir að reka málið fyrir dómstólum með ærnum kostnaði. Hér er horfið mörg ár aftur til stjórnarhátta einveldisins.

Hæstaréttardómur sem staðfestir brotavilja

Hér skal rifjuð upp kæra af sama meiði um góða stjórnsýsluhætti sem staðfestir þennan brotavilja ráðuneytisins. Hér var mér bent á mál af þessum toga og birt er í dómasafni Hæstaréttar árið 1992, bls. 1377. Það hefur í sjálfu sér ekki verið mikið skrifað hér á landi um þessa óskráðu meginreglu og það er þá helst að vikið sé að henni í álitum eða skrifum Umboðsmanns Alþingis á liðnum árum. Læt fylgja hér með athugasemdir úr frumvarpi til stjórnsýslulaga þar sem fjallað var um hin nýju ákvæði þeirra laga um stjórnsýsluákæru.
Hrd. 1992: 1377/Hólagarður

…hafði sama ríkisstofnun á hendi rannsókn í söluskattsmáli sóknaraðila og uppkvaðningu úrskurðar á grundvelli þeirrar rannsóknar. Sóknaraðili fékk ekki komið fram endurskoðun á þeim efniságreiningi sem uppi er í málinu, hvorki með kæru til æðra stjórnvalds né í lögtaksmáli. Með þessu móti var mál hans leitt til lykta á einu stjórnsýslustigi. Þessi máls-meðferð var svo andstæð meginreglum stjórnsýsluréttar um rétt borgaranna til endurskoðunar á stjórnvaldsúrskurði fyrir æðra stjórnvaldi.

Bændaforystan sendir Umba kvörtun

Ójöfn staða samningsaðila búvörusamninga er öllum sýnileg. Þess vegna hafa Bændasamtök Íslands nú beint því til Umboðsmanns Alþingis að taka málið upp. Stjórn Bændasamtakanna færir fyrir því rök að framkvæmd búvörusamninga, hagtölusöfnun í landbúnaði og eftirlit með markmiðum búvörusamninga eigi ekki að liggja hjá sjálfstæðri stjórnsýslustofnun sem væri undir yfirstjórn annars samningsaðilans, heldur hjá sjálfstæðri stofnun er lúti sérstakri stjórn, þó hún heyri stjórnarfarslega undir landbúnaðarráðherra.

Búvörusamningar eru samstarfssamningar ríkis og bænda til að efla íslenskan landbúnað í þágu þjóðarhags m.a. til að tryggja fæðuöryggi Íslendinga á viðsjárverðum tímum. Hnökralaus framkvæmd búvörusamninga skiptir framleiðendur í landbúnaði, neytendur og stjórnvöld miklu máli.

Samstarfsaðilar að gerð búvörusamninga, stjórnvöld og bændur, þurfa að koma sér saman um hvar verkefni í tengslum við framkvæmd búvörusamninga liggja, þar sem hagsmunir fara saman. Það er þýðingarmikið að traust ríki milli samningsaðila um framkvæmd samninganna til að tryggja gegnsæi og að markmið samninganna náist, en ekki síður til að tryggja vandaða stjórnsýsluhætti.

Sigurður Ingi reyndi að verja Búnaðarstofu

Vísir að sjálfstæðri stjórnsýslustofnun í landbúnaði, Búnaðarstofu, varð til þegar stjórnsýsluverkefni í tengslum við framkvæmd búvörusamninga og hagtölusöfnun í landbúnaði voru flutt af Sigurði Inga Jóhannssyni, þáverandi landbúnaðarráðherra, til Matvælastofnunar árið 2016 og sett inn í sjálfstæða skrifstofu innan stofnunarinnar með lögum nr. 46/2015. Þar með var ábyrgð og framkvæmd á verkefnunum komin á sama stað. Vandinn við þann flutning var þó að verkefnin áttu litla samlegð með eftirlitsverkefnum MAST. Í nefndaráliti meirihluta atvinnunefndar með frumvarpinu dags. 11. júní 2015 segir svo um þetta (feitletrun höfundar).:

,,Nefndinni bárust efasemdir um að fela ætti Matvælastofnun umrædd verkefni þar sem þau eru einkum í ætt við þjónustu, framkvæmd búvörusamninga, áætlunargerð og söfnun talnaupplýsinga en ekki eftirlit sem er meginhlutverk stofnunarinnar. Með öðrum orðum var bent á að umrædd verkefni féllu ekki að þeim verkefnum sem stofnunin sinnir nú þegar. Meiri hlutinn tekur undir þessi sjónarmið og telur brýnt að verkefnin verði skýrt afmörkuð í sjálfstæðri einingu í skipulagi stofnunarinnar."

Allt vald er ráðherra nú gefið

Hér verður að gera bragarbót á án tafar. Í því sambandi má vísa til sjávarútvegsins, sem hefur Fiskistofu og Hafrannsóknastofnun. Ekkert slíkt er fyrir hendi fyrir landbúnað, því allt vald er ráðherra gefið.

Landbúnaðarráðherra lagði Framleiðni­sjóð landbúnaðarins niður um síðustu áramót, sem gegndi lykilhlutverki í nýsköpun og þróun íslensks landbúnaðar í 54 ár. Verkefni hans voru færð undir ráðuneytið, en ekki hvað!

Bændur á ykkur er brotið og háðulega farið með stjórnsýslu ríkisins hvað snýr að málefnum landbúnaðarins. Nú er nóg komið. Nú er það skylda forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, sem fer fyrir ríkisstjórninni að krefjast úrbóta í stjórnsýslumálefnum landbúnaðarins og bænda. Að tryggðir verði vandaðir stjórnsýsluhættir í anda lýðræðisríkis. Sjálfstæðisflokkurinn hefur flotið sofandi að feigðarósi með veikt ráðuneyti sem snýr að faglegum málefnum landbúnaðarins.

Hingað og ekki lengra, Bjarni Benediktsson, þinn flokkur á aðra og betri sögu gagnvart bændum. Sigurður Ingi Jóhannsson, nú reynir á þolrif þín og sögu flokks þíns. Þingmenn atvinnuveganefndar Alþingis, þið voruð sviknir og plataðir, ykkar tillögur að engu hafðar af landbúnaðarráðherra. Lögfróðir menn segja að Búnaðarstofa verði að vera sjálfstæð stofnun alls ekki síður en Fiskistofa. Endurreisn landbúnaðarráðuneytisins og lögborinna stofnana landbúnaðarins ásamt sterkri framtíðarsýn land­búnaðarins og bændastéttarinnar er fram undan. Verkefnin verður að kalla heim.

Guðni Ágústsson
Leshópar – Jafningjafræðsla
Lesendarýni 16. janúar 2025

Leshópar – Jafningjafræðsla

Ein yngsta grein landbúnaðar hér á landi er skógrækt. Bændur vítt og breitt um l...

Gervivísindi og fataleysi?
Lesendarýni 15. janúar 2025

Gervivísindi og fataleysi?

Lengi hef ég fylgst allnáið með þróun mála í fiskveiðum, stjórn þeirra, ráðgjöf ...

Strengdir þú nýársheit?
Lesendarýni 10. janúar 2025

Strengdir þú nýársheit?

Samkvæmt 4.000 ára gamalli hefð sem hófst í Babýlóníu, tíðkast í dag víða um hei...

Áhættumatslíkan sem metur fjölda strokulaxa í ám
Lesendarýni 8. janúar 2025

Áhættumatslíkan sem metur fjölda strokulaxa í ám

Síðastliðinn vetur vann Arev álitsgerð fyrir Landssamband veiðifélaga um gildand...

Loftslagsmál og orka
Lesendarýni 7. janúar 2025

Loftslagsmál og orka

Í Bændablaðinu þ. 7. nóvember er fjallað um áform um uppbyggingu vindmyllugarðs ...

Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns á sá það er meginland á næst
Lesendarýni 3. janúar 2025

Ef sker eða eyjar liggja fyrir landi manns á sá það er meginland á næst

Nú er að hefjast málsmeðferð á þjóðlendukröfum ríkisins í eyjar og sker. Þegar k...

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?
Lesendarýni 2. janúar 2025

Eru áhrif koltvísýrings á loftslagið ofmetin?

Viðurkennt er að koltvísýringur (CO2) getur fangað ákveðna tíðni varmaútgeisluna...

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð
Lesendarýni 2. janúar 2025

Sólarorka – fortíð, nútíð og framtíð

Geislar sólarinnar voru í aldaraðir nýttir til beinnar upphitunar híbýla. Elstu ...