Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Alvarleg aðför að eignarrétti, landbúnaði og byggðafestu
Lesendarýni 8. mars 2024

Alvarleg aðför að eignarrétti, landbúnaði og byggðafestu

Höfundur: Ásmundur Friðriksson, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Njáll Trausti Friðbertsson, Teitur Björn Einarsson og Vilhjálmur Árnason, þingmenn Sjálfstæðisflokksins

Reglugerðardrög um sjálfbæra landnýtingu sem lokið hafa umsagnarferli í samráðsgátt ganga allt of langt og hæpið er að til staðar sé lagastoð til þess að setja eins íþyngjandi kröfur á bændur og sveitarfélög líkt og áform eru um.

Þá virðist ríkisstofnunin Land og skógur hafa skrifað reglugerðina, eiga að framfylgja henni og hafa eftirlit sömuleiðis. Það er ekki góður bragur af því þegar sami aðilinn situr í öllum sætunum við borðið.

Það er margt furðulegt í reglugerðardrögunum. Land er t.a.m. ekki talið beitarhæft fyrir búfé ef brekkur eru yfir 30° halla, fjall fer yfir 600 metra í hæð eða undir 20% lands séu þakin gróðri. Margir bændur búa við og hafa beitt lönd í áratugi ef ekki árhundruð með góðum árangri þrátt fyrir að eitt eða fleiri þessara ákvæða eigi við. Í þessu samhengi er ágætt að hafa í huga að áætlað er að hver kílómetri af lagningu girðinga kosti um 5 milljónir króna. Er ætlun ráðherra að leggja þann kostnað á bændur eða ætlar hún að punga út nokkrum milljörðum til þess að hægt sé að uppfylla þær óraunhæfu kröfur sem hún vill gera til bænda? Það teljum við ekki góða nýtingu á skattfé.

Þá er ósvöruð spurningin um hvernig ráðherra ætlar að beisla veðrið, hvern á að skattleggja og skikka til uppbyggingu lands þegar hiti verður lægri en -10 gráður eða vindur hærri en 20m/s? Fær Veðurstofan það hlutverk? Það vekur jafnframt athygli að í reglugerðardrögunum eru engar fyrirbyggjandi aðgerðir hugsaðar vegna villtra beitardýra sem róma um landið. Verður Land og skógur með sérstakt eftirlit með þeim eða á e.t.v. að fella öll hreindýr, álftir og gæsir til þess að verja landið?

Að fara vel með land og bæta ástand þess jafnt og þétt er eitt af grunnstefum landbúnaðar. Bændur eru og hafa verið helstu vörslumenn lands um langt skeið. Það er beinlínis hvati ábúenda að tryggja sjálfbæra landnýtingu á landi sínu. Bændur sem ekki tryggja sjálfbæra landnýtingu munu ekki geta ræktað land sitt og haft af því tekjur. Það er í besta falli sóun á skattfé og í versta falli misnotkun þess að hafa íþyngjandi eftirlit frá ríkinu, líkt og birtist í umræddum drögum, til þess að þau skilyrði séu uppfyllt. Það mætti líkja því við að ríkið færi að hafa eftirlit með því að fólk nærðist eða fengi nægan nætursvefn. Óhætt er að treysta bændum til að stunda áfram sjálfbæra landnýtingu án íþyngjandi krafna og eftirlits enda geta þeir án þess ekki stundað búskap, líkt og án matar og svefns til langs tíma getum við mennirnir ekki lifað. Í þokkabót verður matið huglægt og ógerningur að tryggja jafnræði og sömu viðmið um land allt.

Það er augljóst að hér er alvarleg aðför að eignarrétti, landbúnaði og byggðafestu í landinu. Landbúnaður er lykilþáttur í þjóðaröryggi auk þess að vera einn helsti menningararfur landsins. Margir umsagnaraðilar benda á að líklega skorti ráðherra lagastoð fyrir því að skrifa undir reglugerðina óbreytta og að hún gangi á eignarrétt og atvinnufrelsi bænda, sem varið er í stjórnarskrá. Kostnaður hefur ekki verið metinn en milljarðarnir munu safnast hratt upp og ekkert er tekið fram hver skal bera þann kostnað. Í því tilliti ber að minna á að í 129. gr. sveitarstjórnarlaga kemur skýrt fram að kostnaðarmeta verði stjórnvaldsfyrirmæli sem gætu haft áhrif á sveitarfélög.

Hér hefur verið tæpt á nokkrum óásættanlegum atriðum í tengslum við reglugerðardrögin en hægt væri að skrifa margar blaðsíður um málið. Að öllu þessu virtu er það með öllu óásættanlegt að þessi reglugerð verði undirrituð óbreytt. Enn fremur er augljóst að endurskoða verður reglugerðarheimildina og önnur viðeigandi ákvæði í lögum um landgræðslu, nr. 155/2018, og afmarka skýrt í lögunum orðskýringar og viðmiðanir sem leggja á til grundvallar. Jafn víðtækt framsal löggjafans til ráðherra, eins og reglugerðardrögin bera með sér, gengur einfaldlega ekki upp.

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti
Lesendarýni 5. júlí 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti

Í síðasta eintaki af Bbl. birtist grein um það hvernig öldusveigjan umhverfis Ve...

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra
Lesendarýni 2. júlí 2024

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra

Velferð dýra er ófrávíkjanleg krafa siðmenntaðs samfélags, hvort sem um ræðir gæ...

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn
Lesendarýni 24. júní 2024

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn

Fyrir röskum þremur árum ritaði greinarhöfundur þrjár greinar um landbúnað og sa...

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda
Lesendarýni 21. júní 2024

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda

Ágætu bændur. Í Bændablaðinu þann 16. maí sl. reifaði ég í bréfi til ykkar áhygg...

Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þræt...

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna
Lesendarýni 21. júní 2024

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí. Mikil veiði hefur verið enda mikið af f...

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki
Lesendarýni 20. júní 2024

Kynding með viðarperlum úr íslensku lerki

Tandrabretti ehf. hefur undanfarin ár unnið að uppbyggingu á viðarperluframleiðs...

Og svo kom vorið
Lesendarýni 18. júní 2024

Og svo kom vorið

Nú í byrjun júnímánaðar fengu landsmenn yfir sig sannkallað vetrarveður sem varð...