Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 mánaða.
Atvinnuvegur á traustum grunni
Lesendarýni 19. desember 2023

Atvinnuvegur á traustum grunni

Höfundur: Kristinn Hugason, samskiptastjóri Ísteka.

Hrossin hafa alla Íslandsbyggð haft sérstöðu á meðal búpenings landsins, ekkert húsdýranna stóð manninum nær en hesturinn nema ef vera skyldi hundurinn.

Kristinn Hugason.

Ísland hefði enda verið óbyggilegt án hestsins. Hann var reið- og trússhestur, burðar- og dráttardýr og akhestur, eftir að kerrur og vagnar komu þó ræst og leiðin síðan legið stöðugt upp á við. til sögunnar. Reiðmennska sem íþrótt var og ástunduð hjá ýmsum alla tíð. Þegar á nítjándu öldina leið öfluðu bændur sér og mikilla tekna með lífhrossaútflutningi. Um miðja tuttugustu öld ruddi véltæknin sér til rúms og var þá reiknað með að saga hestsins væri úti. Hefðbundinn útflutningur hrossa hrundi einnig. Framsýnir menn höfðu þó allnokkru fyrr byrjað að kynna hestinn sem reið- og sporthest úti í heimi og hesthneigt fólk sem flutt var á mölina fór og að stunda útreiðar. Hestamennska í þéttbýlinu jókst og varð almennari og úflutningur efldist að nýju en nú eingöngu sem reiðhrossamarkaður á breiðu verðbili. Íslenska hestinum var þar með borgið. Þetta er í raun eitt af glæsilegustu dæmum sem þekkjast um að gömlu landkyni í útrýmingarhættu sé fundið nýtt hlutverk og tilvist þess þar með borgið.

Á fyrrihluta síðustu aldar grasseruðu illvígar fjárpestir sem leiddu til niðurskurðar sauðfjár. Bændur í stóðsveitum, þar sem víða var mikil hefð að búa við fjölda hrossa, hleyptu upp stóðum sínum og fóru að framleiða folaldakjöt. Ísland er og þannig gert frá náttúrunnar hendi að hér er mikið víðlendi grasi vaxið, það hentar því afar vel fyrir beitarpening. Þetta allt opnaði síðar meir á möguleika til að starfrækja nýjan atvinnuveg innan hrossahaldsins, til hliðar við kjötframleiðsluna, sem eru nytjar á blóði úr fylfullum hryssum til að framleiða verðmætt frjósemishomón (PMSG/eCG).

Blóðnytjar og uppbygging öflugrar þekkingardrifinnar atvinnustarfsemi

Söfnun blóðs úr fylfullum hryssum hófst hér á landi seint á áttunda áratug síðustu aldar og hefur staðið yfir æ síðan og er fyrir löngu síðan orðin rótgróin afurðaframleiðslugrein innan íslensks landbúnaðar. Fyrst í stað var blóðið flutt út ómeðhöndlað til vinnslu erlendis. Síðar var farið að þróa starfsemina í átt að fullvinnslu en ýmsir byrjunarörðugleikar komu upp, hvoru tveggja af þekkingar- og rekstrarlegum toga. Úr því öllu hefur þó ræst og leiðin síðan legið stöðugt upp á við.

Fyrirtækið Ísteka ehf. var stofnað árið 1990 og hefur frá upphafi framleitt virka lyfjaefnið sem þarf til að fullvinna áðurnefnt frjósemishormón. Með hagnýtingu þess næst að bæta framleiðni og velferð búfjár og draga úr kolefnisfótspori í nútíma landbúnaði.

Hvað nánari útskýringu þessa og fjölmargs annars varðar skal vitnað til heimasíðu fyrirtækisins, www.isteka.is.

Ísteka er framsækið og þekkingardrifið fyrirtæki. Konur eru 52% starfsfólksins, þær skipa 33% stjórnar fyrirtækisins og 60% stjórnenda. Helmingur starfsfólks er háskólamenntaður, allt frá B.Sc.- gráðu upp í Ph.D. og af fjölmörgum þjóðernum. Allar tekjur fyrirtækisins eru í erlendum gjaldeyri og námu um 1,7 milljörðum íslenskra króna á árinu 2022 og eru vaxtarmöguleikarnir miklir.

Sjónarmið um velferð búfjár

Á síðustu árum hafa blóðnytjarnar mátt sæta harðri gagnrýni og haldið er fram að í þeim felist kerfisbundið dýraníð. Hvort tveggja bændur og fyrirtækið hefur þar verið haft að skotspæni. Þessu er mótmælt sem tilhæfulausum áburði. Staðreyndirnar tala enda sínu máli en hvergi í nokkurri annarri búgrein eru meiðsli fátíðari og afföll minni en í blóðnytjunum. Búgreinin er og undir miklu eftirliti og er þar stuðst við lög um velferð dýra, nr. 55/2013 og tilheyrandi reglugerðir settar við þau lög.

Í fyrstu grein dýravelferðarlaganna segir svo auk almennra ákvæða: „... Enn fremur er það markmið laganna að þau [dýrin] geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.“ Augljóst er að ekki er þetta ákvæði betur tryggt í nokkru búfjárhaldi en í blóðnytjunum. Þær fara fram á tólf vikna tímabili ár hvert, ekki er tekið blóð oftar en í átta skipti úr sömu hryssunni og alltaf framkvæmt af dýralæknum í samræmi við viðurkennt verklag. Samanlögð árleg dvöl hryssnanna við blóðtöku er að jafnaði um ein klukkustund. Í annan tíma lifa hryssurnar undir vökulu auga mannsins vissulega en óáreittar með öllu; nema hvað varðar aðgerðir þeim til góða eða mjög svo þóknanlegar, s.s. ormalyfsgjöf, hófhirðing, beit og útgjöf og svo vitanlega að vera hleypt til hests.

Staða búgreinarinnar og horfur

Staða blóðnytjanna sem búgreinar er góð; vaxtarmöguleikar í útflutningi afurðarinnar eru miklir og færir greinin nú þegar fleiri hundruð milljónir inn í hagkerfi sveitanna. Þetta gæti enn vaxið og þá án þess að knýja bændur til stórfjárfestinga með tilheyrandi vaxtabyrði og mögulegum skuldavanda. Nú eru þó blikur á lofti og af mannavöldum, þar eð matvælaráðherra ákvað öllum að óvörum að taka til greina áminningarbréf ESA frá 10. maí sl. og felldi úr gildi reglugerð um blóðtöku úr fylfullum hryssum, nr. 900/2022. Þess í stað setti ráðherra starfsemina undir reglugerð nr. 460/2017 um vernd dýra sem notuð eru í vísindaskyni og innleiddi þar með tilskipun 2010/63/EB. Skoðun Ísteka, studd m.a. lögfræðiálitum, er sú að reglugerðin eigi ekki við og að ráðherra hafi farið út fyrir valdsvið sitt. Hér er ekki um vísindastarf að ræða; blóðnytjarnar eru hrein og klár afurðaframleiðsla og úrvinnslan vissulega framkvæmd með gagnreyndum aðferðum hagnýtra vísinda sem eru síður en svo á tilraunastigi.

Ísteka fyrir sitt leyti og forysta Bændasamtaka Íslands, f.h. umbjóðenda sinna, hafa mótmælt þessum gjörningi matvælaráðherra sem ítarleg lögfræðiálit benda til að hafi verið rangur. Í þessu efni mætti og spyrja ríkisstjórnina og þingmenn ýmsa, sem mótmælt hafa svokallaðri gullhúðun EES- gerða, samanber fréttatilkynningu utanríkisráðuneytisins frá 13. október sl., hvað svona lagað sem mætti jafnvel kalla eitthvað enn meira en gullhúðun, eigi að fyrirstilla.

Leyfi Mast til handa Ísteka, til að framkvæma blóðtöku úr hryssum, gildir til 5. október 2025. Ísteka hefur tilkynnt yfirvöldum að fyrirtækið líti svo á að þrátt fyrir áðurnefnda breytingu á regluverki muni fyrirtækið vinna skv. gildandi leyfi og endurnýja það í fyllingu tímans reglum samkvæmt. Jafnframt hlýtur röng ákvörðun matvælaráðherra, sjá fyrr, að verða afturkölluð. Fyrirtækið áréttar hér með þá staðreynd að það hefur gilt leyfi til blóðtöku til og með 5. október 2025 og mun vinna samkvæmt því.

Nú líður að helgum tíðum. Ísteka þakkar árið sem er að líða og óskar lesendum öllum árs og friðar.

Kartaflan
Lesendarýni 16. júlí 2024

Kartaflan

Hvað vitum við um kartöfluna? Þessa nytjajurt sem heitir á fræðimáli Solanum tub...

Hraunflóðavarnir og þekking
Lesendarýni 16. júlí 2024

Hraunflóðavarnir og þekking

Nú eru í gangi umfangsmiklir jarðeldar á Reykjanesskaga, hafa þegar verið í gang...

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti
Lesendarýni 5. júlí 2024

Ekki lausn fyrir Landeyjahöfn - Síðari hluti

Í síðasta eintaki af Bbl. birtist grein um það hvernig öldusveigjan umhverfis Ve...

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra
Lesendarýni 2. júlí 2024

Dýravelferð og hugmyndafræði einnar heilsu: ábyrgð okkar allra

Velferð dýra er ófrávíkjanleg krafa siðmenntaðs samfélags, hvort sem um ræðir gæ...

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn
Lesendarýni 24. júní 2024

Framleiðsla og vinnsla búvara falla ekki undir EES-samninginn

Fyrir röskum þremur árum ritaði greinarhöfundur þrjár greinar um landbúnað og sa...

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda
Lesendarýni 21. júní 2024

Enn af undanþágum búvörulaga og stöðu bænda

Ágætu bændur. Í Bændablaðinu þann 16. maí sl. reifaði ég í bréfi til ykkar áhygg...

Af heimanautum og sæðinganautum
Lesendarýni 21. júní 2024

Af heimanautum og sæðinganautum

Mikil notkun heimanauta hefur um langa hríð verið eitt helsta umræðuefni og þræt...

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna
Lesendarýni 21. júní 2024

Réttindabarátta sjávarbyggða og strandveiðimanna

Strandveiðitímabilið hófst í byrjun maí. Mikil veiði hefur verið enda mikið af f...