Bændur, búalið, ráðherrar og þingmenn, vaknið!
Heimsins brestur hjálparlið
hugur skerst af ergi.
Þegar mest ég þurfti við
þá voru flestir hvergi.
(Friðrik Jónsson)
Alvarleg staða blasir við í sveitum landsins. Það er eins og „flestir séu hvergi“. Ógnin núna er skortur á kjöti og mjólk. Og afurðaverði sem ekki stendur undir framleiðslunni. Innflutningur getur dauðrotað íslenska framleiðslu verði ekki gripið til aðgerða.
Mikill vandi steðjar að afkomu sauðfjárbænda, ekki mörg augljós bjargráð. Sem landbúnaðarráðherra stóð ég að mikilli hagræðingu í fækkun sláturhúsa og vinnslustöðva í mjólk. Einn bóndinn komst svo að orði: „Ég sker féð mitt frekar í fljótið en að fara í annað sláturhús.“ Hagræðingin í mjólkinni skilar milljörðum, og fækkun kúabúa í kjölfarið var sársaukafull en mikilvæg og bætti bæði kjör bænda og neytenda. Hagræðingin skilaði neytendum tveimur milljörðum árlega og bændum einum. Kúabúskapurinn hefur þróast í stærri og færri bú og sýnt er að nýju tæknivæddu fjósin eru farsælar einingar.
Staða landbúnaðarins er samt vond
Staða landbúnaðarins og afkoma bænda í öllum búgreinum er miklu verri en viðurkennt er. Kúabúin berjast í bökkum. Margir kjósa að hætta. Dýrt að byggja upp kúabú í hagkvæmustu stærð vegna þess hversu mikið fé er bundið í nútíma-kúabúum.
Kynslóðaskipti og sala bújarða innan fjölskyldu varla möguleg. Unga fjölskyldan færð í skuldahlekki og þrælabúðir bankanna, og eldra fólkið gengur ósátt frá ævistarfi. Nautabúskapurinn kæfður í fæðingu, nautkálfarnir skotnir að húsabaki. Svínakjötið og kjúklingurinn fluttur inn, þó eru þessar afurðir allar framleiddar undir öðrum og meiri gæðakröfum en gerist erlendis.
Stjórnmálamenn þögulir
Stjórnmálamennirnir segja fátt og margan grunar að hagsmunum bænda verði enn fórnað. Með enn frekari lækkun tolla í kjarasamningum og lengt skuli í tollaniðurfellingu við Úkraínu. Göfugt að hjálpa Úkraínu en það gerir ekki ríkisstjórn og Alþingi á kostnað landbúnaðarins og bænda.
Landbúnaðurinn stendur í sömu sporum og hann gerði um aldamótin síðustu og enn frekar eins og 1942 þegar Ingólfur Jónsson, síðar landbúnaðarráðherra, fór fyrir kjötverðlagsnefnd sem lagði til umbótatillögur fyrir bændastéttina, eða 100% hækkun á afurðaverði. Þá var í stríðinu mannflótti úr sveitunum og afurðaverðið lágt. Nú eru búskaparlok á bæjunum og niðurskurður, næg önnur atvinna. ,,Betra að vera á bótum en búa,“ segja dugnaðarbændur.
Stórt sláturhús á ,,Sláturvöllum“
Sauðfjárbændur geta hagrætt með batnandi samgöngum, fækkun sauðfjárbúa og ekki síst vegna hins, að slátrunin er mönnuð að miklu leyti um allt land með mannafla sem kemur úr fjarlægum heimsálfum. Er stórt tæknivætt sauðfjársláturhús lausnin? Það yrði staðsett á „Sláturvöllum“, en svo nefni ég staðarvalið sem bændurnir yrðu að koma sér saman um.
Allir Íslendingar vita að lambakjötið er eitt besta kjöt og mesta villibráð í veröld allri. Sauðfjárbúskapurinn er hryggjarstykkið í búsetunni hringinn í kringum landið. Enn fremur er mikil nýsköpun möguleg í sveitunum með ferðamönnunum. Hrossabúgarðar og ferðamannabýli eru til fyrirmyndar.
Það er eins og menn ekki skilji að framfarir ráðast af nýrri tækni og nýsköpun, þar ættu sveitirnar ekki að standa sjávarútveginum að baki. Um 90% af allri fæðu verða til hjá bændum. Vantar hugdirfsku og eða fjármagn? Búsældarlegar sveitir eru unaður ferðamannsins. Niðurníddar sveitir eru eins og krabbamein í ásýnd landsins. Því er spáð að erlendir ferðamenn verði fimm milljónir innan skamms. Verða matvælin bara flutt inn?
Að reikna og finna lausnir
Reiknimeistarar gætu reiknað hagræðinguna af því að koma upp sauðfjársláturhúsi af stærðinni 75-80% af öllu sauðfé sem færi þar í gegn. Nú gæti sláturhúsið verið sameign stóru afurðastöðvanna. Því skal ekki trúað að Samkeppniseftirlitið leggist gegn samvinnu um að slátra búfé?
Hins vegar er það mikilvægt að stjórnmálamenn og bændaforystan óski eftir viðræðum við Pál Gunnar Pálsson, bóndasoninn húnvetnska í Samkeppniseftirlitinu, ef sauðfjárbúskapurinn á ekki að leggjast af. Hverju myndi hagræðingin skila til sauðfjárbænda og neytenda? Yrðu það upphæðir af svipuðum toga og hagræðingin í mjólkurframleiðslunni sem skilar þremur milljörðum á ári? Eða kannski enn hærri upphæðir? Svo gætu auðvitað sláturhús eins og Seglbúðir og Fjallalamb starfað áfram við ákveðna sérstöðu.
Hitt reiknidæmið er, hvernig komum við í veg fyrir hrun landbúnaðarins? Hvaða aðgerðir þarf að fara í til að ungt fólk velji sér landbúnað sem sitt framtíðarstarf? Hvernig geta kynslóðaskipti átt sér stað? Hvernig getur unga fólkið staðið undir því að byggja upp?
Nýr bændaflokkur?
Það reynir á pólitíkina ef bændur taka sér svipuna í hönd. Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, spurði hvort hollenska aðferðin að stofna Bændaflokk yrði lausnin hér? Hótun formannsins fékk litla athygli fjölmiðla.
Guðrún Hulda Pálsdóttir ritstjóri minnir á í Bændablaðinu: „Íslensk landbúnaðarframleiðsla er lítil í sniðum og fyrst og fremst ætluð sem örugg fæðuöflun fyrir landið okkar. Í eðli sínu og umgjörð er hún ósamanburðarhæf við erlenda iðnaðarframleiðslu sem ætlað er að afkasta fyrir umfram þörf nærumhverfis.“
Einkaþyrlurnar kæfðu ræðurnar á Búnaðarþingi
Nú tröllríður loftlagsmanían umræðunni, mér er sagt að búnaðarþingsfulltrúarnir hafi vart heyrt mannsins mál fyrir einkaþyrlunum á Reykjavíkurflugvelli.
Íslenskir bændur bera enga ábyrgð á loftlagsvánni og Ísland er fremst allra landa og fyrirmynd heimsins með yfir 90% af endurnýjanlegri orku. Markmið ESB er víst að komast í 30%.
Þrír ráðherrar hafa verið bændur?
Bændurnir okkar búa við þá ánægjuvog að neytendur vilja að þeir framleiði fyrir sig matvælin; kjötið, mjólkina, mjólkurvörurnar og grænmetið. Á þessu þurfa ráðherrarnir að átta sig, því margir þeirra hafa málefni sveitanna á sinni könnu á einn eða annan hátt. Þrír ráðherrar í ríkisstjórninni hafa verið bændur, sá fjórði er skógarbóndi. Ríkisstjórnin ætti að halda vinnufund eina helgi, þar sem bændaforystan, sérfræðingar og reiknimeistarar færu yfir stöðuna.
Þetta er dauðans alvara
Eina leiðin er eins og 1942 að horfa beint fram á veginn, og marka landbúnaðinum og bændum umgjörð og aðstæður til að una glaðir við sitt.
Ísland er vel fallið til landbúnaðar. Öflugur landbúnaður er þýðingarmikill fyrir fæðuöryggi í heimi þar sem aðdráttarleiðir eru ótryggar og eins steðja ýmsar aðrar ógnir að.
Þróttmikill innlendur landbúnaður er veigamikill þáttur í ferðaþjónustu um landið allt og síðast en ekki síst hornsteinn í að varðveita menningu þjóðarinnar.