Fráfarandi stjórn Hampfélagsins fer yfir farinn veg
Á aðalfundi Hampfélagsins þann 28. maí sl. komu sex nýir einstaklingar inn í stjórn sem nú er skipuð sjö stjórnarmönnum í stað fjögurra.
Sigurður Hólmar Jóhannesson, sem hefur verið formaður frá stofnun, Oddný Anna Björnsdóttir og Logi Unnarson Jónsson gáfu ekki kost á sér til áfram- haldandi stjórnarsetu því þau töldu mikilvægt, eftir tæplega fjögurra ára baráttu, að nýtt fólk með nýjar hugmyndir og eldmóð kæmist að og tæki næstu skref.
Þórunn Þórs Jónsdóttir, sem hefur verið varaformaður frá stofnun, mun halda áfram í nýrri stjórn og bæði Sigurður og Oddný verða nýrri stjórn innan handar í nýstofnuðu ráðgjafaráði Hampfélagsins. Ný stjórn mun funda á næstunni og skipta með sér verkum.
Hampfélagið hefur verið óþreytandi við að fræða þjóðina um notagildi hampsins, bæði í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum, fundum með stjórnmála- og embættismönnum og fulltrúum félagasamtaka, en einnig með stuðningi við gerð heimildarmyndarinnar Græna Byltingin – hampur á Íslandi; að ógleymdri ráðstefnunni Hampur til framtíðar, haustið 2019, sem var einstaklega vel sótt og má segja að hafi hleypt félaginu formlega af stokkunum.
Stærstu sigrarnir voru þegar reglugerð var breytt vorið 2020 og svo lögum 2021 sem tók af allan vafa að löglegt væri að flytja inn hampfræ af sáðvörulista ESB á sama hátt og önnur lögleg fræ sem skilgreind eru sem sáðvara, rækta hamp án sérstaks leyfis og vinna úr honum. CBD hefur verið mikið í fjölmiðlum síðustu árin en lagaleg staða kannabínóða sem matvöru er enn óljós. Matvælaráðuneytið vill ekki taka afstöðu til málsins fyrr en ESB hefur gefið út sinn úrskurð sem er bagalegt, því á meðan eru stofnanir ekki með fulla vissu og leiðbeiningar um það hvernig þau eigi að vinna. Sú staða er að valda því að innflutningur á löglegum vörum er stöðvaður og stofnanir eins og Matvælastofnun, Tollurinn og Lögreglan taka handahófskenndar ákvarðanir í hvert skipti, sem skaðar bæði fyrirtæki og einstaklinga.
Í dag er þó fjölbreytt úrval hampvara, bæði innlendra og erlendra selt í verslunum hér á landi. Íslenskt hampte, heil hampblóm, húðsmyrsl og fleira er sem dæmi selt í tugum matvöru- og sérvöruverslana og innfluttar vörur í enn fleiri.
Hampfélagið hefur svarað óteljandi fyrirspurnum sem koma í gegnum Facebook-síðuna og aðra miðla og leitast við að beina fólki í réttar áttir; ekki síst frá nemendum á öllum skólastigum og þeim jafnvel útvegaðar afurðir hampsins til að gera tilraunir með.
Hampfræðsla hefur verið hluti af námi nokkurra skóla, þ.m.t. Hallormsstaðaskóla sem hefur nú verið með námskeið Pálma í Gautavík, Sjálfbærnilausnir úr iðnaðarhampi, í fjóra vetur. En betur má ef duga skal, því ef hampur á að verða sjálfsagður hluti af fjölbreyttum iðnaði hér á landi þarf menntakerfið að taka hann upp á sína arma.
Facebook-síða Hampfélagsins er mikilvægur vettvangur til að halda áhugamönnum um hampinn upplýstum um gang mála og hópur Hampfélagsins, Hampræktendur og markaðstorg, mikilvægur samskiptavettvangur.
Það markverðasta sem hefur gerst hér á landi síðastliðið hálft annað ár er eftirfarandi:
- Hampurinn prýddi bakgrunninn í hinum geysivinsæla skemmtiþætti Það er kominn Helgi á RÚV í Covidinu.
- Lúdika arkitektar upplýstu í fjölmiðlum að til stæði að reisa tilraunahús úr hampsteypu úr íslenskum hampi, í samvinnu við Hampfélagið. Kastljós fjallaði um verkefnið í nóvember og mun fylgja því eftir þar til húsið hefur verið byggt.
- Bókin Illgresi andskotans eftir Þorstein Úlfar Björnsson kom út, en hún fjallar um nytjaplöntuna hamp í sinni víðustu mynd.
- Félagið Hampfirma ehf. upplýsir í fjölmiðlum að þau hyggist byggja fyrsta hampsteypuhúsið á Íslandi.
- Hjónin Pálmi og Oddný á bænum Gautavík í Berufirði, Geislar Gautavík ehf., fengu viðurkenningu og verðlaun frá Verðlaunasjóði iðnaðarins fyrir frumkvöðlastarf á sviði iðnaðar vegna tilraunaræktunar á iðnaðarhampi og úrvinnslu vara úr honum, sem voru veitt af formanni Samtaka iðnaðarins í Húsi atvinnulífsins.
- Ræktun iðnaðarhamps fimm- faldaðist milli ársins 2020 (30 ha) og 2021 (150 ha) en dróst eilítið saman árið 2022. Enn vantar tölur fyrir árið í ár. Samdrátturinn var viðbúinn enda komu margir sem fóru af stað 2021 uppskerunni ekki í not og/eða verð, þar sem tækjabúnaður og markaður var ekki orðinn nægilega þróaður.
- Hjónin Sigríður og Bergsteinn á bænum Hrúti í Ásahreppi gáfu almenningi færi á að koma og tína hampblóm af akrinum þeirra gegn greiðslu sem var nýlunda hér á landi og kom töluverður hópur fólks til að tína.
- Lúdika arkitektastofa, í samstarfi við Hampfélagið, stóð fyrir vinnustofum um hampsteypugerð rétt fyrir utan Selfoss. Uppselt og biðlisti var á bæði námskeiðin sem voru afar vel heppnuð.
- Hampfélagið varð meðlimur í European Industrial Hemp Association (EIHA) og einn stofnfélaga fyrsta Alþjóða- sambands hampfélaga í gegnum EIHA.
- Iðnaðarhampur stöðvaður í tolli og fór þá Hampfélagið, ásamt Hauki Erni lögmanni og Gunnari Sigurðssyni frá Samtökum iðnaðarins, á fund með sérfræðingum matvælaráðuneytisins til að fá það á hreint að hrár hampur væri löglegur til innflutnings. Sá fundur varð til þess að MAST samþykkti að leyfa
innflutning á hráum hampi. - Frumkvöðlaverkefnið Bio-Building fékk styrk frá Íslandsbanka. Verkefnið snýst um að þróa aðferðir til að nota innlent ræktaðan iðnaðarhamp og nýta hann sem byggingarefni aðlagað að íslensku loftslagi og aðstæðum og stuðla þannig að sjálfbærum og umhverfisvænum byggingariðnaði.
- Fyrsti þáttur Hampkastsins, umræðuþáttaraðar Hampfélagsins í hljóði og mynd, fór í loftið í byrjun desember, en þættirnir eru nú orðnir sjö talsins. Gunnar Dan Wiium skrifar frétt um hvern þátt
sem er birt á vef Mannlífs. - Heimildarmyndin Græna Byltingin - Hampur á Íslandi sem framleidd var af Hókus Fókus Iceland ehf. í samvinnu við Hampfélagið kom út; sýnd í Sjónvarpi Símans Premium. Myndin fjallar um fyrstu löglegu skrefin í ræktun á iðnaðarhampi
hér á landi. - Þingmaðurinn Ásmundur Friðriksson mælir aftur fyrir þingsályktunartillögu um þróunaráætlun og tilraunaverkefni fyrir ræktun lyfjahamps og notkun kannabislyfja í lækningaskyni. Hampfélagið sendi inn umsögn um málið.
- Tollurinn fer aftur að stöðva sendingar á hráum hampi og einnig á CBD olíum sem eru fluttar inn sem húðvörur. Unnið er að því að fá rétta aðila að borðinu til að lausn náist sem fyrst.
Við teljum okkur hafa sýnt fram á að hampurinn sé góð viðbót við aðrar iðngreinar og mikilvægur hlekkur í að stuðla að aukinni sjálf- bærni hér á landi. En til að það verði fjárhagslega hagkvæmt að stunda hampræktun þarf til dæmis stórvirkar vinnsluvélar þar sem bændur geta farið með uppskeruna til vinnslu.
Viðurkenning Verðlaunasjóðs iðnaðarins gaf væntingar um að iðnaðurinn væri búinn að opna augum fyrir notagildi hampsins og þeim tækifærum sem felast í nýtingu hans, enda sagði m.a. í tilkynningu: „Stjórn sjóðsins vill með þessu vali beina sjónum að þeim tækifærum sem geta fylgt hampframleiðslu á Íslandi þar sem jákvæðir eiginleikar nytjaplöntunnar geta meðal annars gagnast í byggingariðnaði, matvælaframleiðslu og húsgagnaframleiðslu.“
Við trúum því að framtíðin sé björt fyrir hampræktun og hampiðnað á Íslandi, en það þarf sannarlega að halda stjórnvöldum og stofnunum við efnið og stöðugt minna bæði almenning og forsvarsmenn fyrirtækja á mikilvægi hampsins fyrir sjálfbæra framtíð.