Framtíðin er okkar
Sú staðreynd að framtíð landbúnaðar á Íslandi standi á krossgötum virðist æ fleirum ljós og síðustu misseri hefur orðið áskynja dýpri skilnings á því hversu stórar áskoranirnar eru í raun og veru þrátt fyrir öll þau tækifæri sem við okkur blasa svo augljóslega.
Það er ánægjulegt að finna um leið í slíkum aðstæðum að rödd ungra bænda hafi mikinn og sterkan hljómgrunn í þjóðfélaginu. Við höfum virkilega fundið fyrir því og upplifað sterkt í framlínu Samtaka ungra bænda eftir að við blésum til baráttufundar í Salnum í Kópavogi í októberlok. Sá stuðningur og þær aðgerðir vegna fjárhagsvanda bænda sem stjórnvöld hafa nú kynnt bera með sér að rík áhersla sé lögð á að leiðrétta stöðu ungra bænda og þeirra sem hafa fjárfest til að stunda landbúnað til lengri framtíðar sem glæðir von okkar og kraft.
Stuðningur við baráttuna um laun fyrir lífi ungra bænda og íslenskra sveita er á breiðum grunni og viðtökurnar hafa raunar verið talsvert meiri og dýpri en jafnvel var búist við þegar ákveðið var að boða til fundar sem þessa. Fundargestir í Salnum í Kópavogi voru hátt í 300 talsins, 500 horfðu í streymi í rauntíma en nú hafa nokkur þúsund manns horft á upptöku fundarins.
Því að auki fjölluðu fjölmiðlar talsvert um fundinn fyrir og eftir hann. Og sannarlega var hraustlega tekið undir vel rökstudda kröfu okkar um „Laun fyrir lífi – ungra bænda og íslenskra sveita“. Við skoruðum á stjórnvöld að opna augu sín og leggja við hlustir og í þeim efnum virðumst við hafa haft erindi sem erfiði.
Aflvakinn ungur og heiðarlegur
Á þeim nótum langar mig þó sérstaklega að þakka þeim sem komu að tilurð baráttufundar okkar í Salnum í október. Í fyrsta lagi má nefna að hugmyndin um að halda slíkan fund kom raunar frá landbúnaðarráðherranum fyrr- verandi og dyggum stuðnings- manni landbúnaðar, honum Guðna Ágústssyni. Hann gaf sig á tal við stjórn Samtaka ungra bænda á þeim tímapunkti þar sem hún spurði sig sjálf hvað væri til ráða í þeirri mjög svo döpru stöðu margra ungra bænda og ómöguleikanum sem blasti við verðandi bændum. Hann reyndist verða mikill drifkraftur í því að koma fundinum á laggirnar en með það að leiðarljósi; að þó hann gæti titlað sig sem leyndan guðföður framtaksins þá væri mikilvægt að framtíðarsýn unga fólksins yrði ráðandi aflvaki í baráttunni fyrir kjörum og lífi bænda til framtíðar.
Það varð svo sannarlega þannig með virkilega frambærilegum og heiðarlegum erindum þeirra sem komu fram á fundinum sem eiga miklar þakkir skildar.
Þar áttu ungir bændur frábæra fulltrúa sem tóku með vönduðum hætti til máls og margir þeirra rötuðu einnig í fín fréttaviðtöl í tengslum við erindi sín. Auk mín komu úr okkar röðum þau Axel Sæland, formaður garðyrkjudeildar BÍ, frá Espiflöt, Reykholti, Ísak Jökulsson, úr stjórn SUB, frá Ósabakka, Skeiða- og Gnúpverjahreppi, Jón Helgi Helgason, frá Þórustöðum, Eyjafirði, Sigríður Ólafsdóttir, ráðunautur og bóndi frá Víðidalstungu, V-Húna- vatnssýslu, Stefán Geirsson, frá Gerðum, Flóahreppi, Þórólfur Ómar Óskarsson, frá Grænuhlíð, Eyjafirði og Þuríður Lillý Sigurðardóttir, frá Sléttu, Reyðarfirði.
Fundarstjóri var Bjarni Rúnarsson, frá Reykjum, Skeiða- og Gnúp- verjahreppi. Í salnum voru svo áhugasamir gestir sem fjölmargir lögðu orð í belg og glæddu hann þannig lífi í pallborðunum sem voru tvískipt, um miðbik fundar og í lokin. Auk þess voru á fundinum þrjú erindi gestafyrirlesara. Ragnar Árnason hagfræðingur forfallaðist að vísu vegna veikinda á elleftu stundu en Ingibjörg Davíðsdóttir, sendiherra og aflvaki íslensks fæðuklasa, flutti prýðilegt erindi og Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í landbúnaði, lagði fundinum til afar fróðlegt efni um samanburð við opinberan stuðning við landbúnað í nágrannalöndum okkar.
Rannsóknarvinnan sem þar lá að baki var augljóslega mikil. Í henni mátti glögglega sjá að framleiðsla matvæla í landbúnaðargeiranum fær tæplega þrifist í heiminum án verulegs fjárhagslegs opinbers stuðnings frá neytendum þeirra. Ísland er þar vissulega engin undantekning en við skerum okkur heldur alls ekki úr í alþjóðlegum samanburði. Landbúnaður er einfaldlega grundvöllur fæðuöflunar og fæðuöryggis fólks um allan heim.
Með von í brjósti
Áheyrnin og viðbrögðin í kjölfar þessa hafa veitt okkur von um að við stjórnvölinn séu upp til hópa ágætt fólk sem muni beita sér fyrir bjartari framtíð íslensks landbúnaðar, enda sé margt bjart í henni nú þegar. En áfram munum við þurfa að láta rödd okkar heyrast, rödd okkar ungra bænda sem og þeirra eldri.
Við höfum nú séð skref í rétta átt en þau næstu verða ekki tekin af sjálfu sér og þar þarf sem allra flestar hendur á plóginn.
Að baki þessum undirtektum um að styrkja þurfi stoðir landbúnaðar á Íslandi liggja margar ástæður. Málefnið er mörgum hugleikið en er þó fjarri því að vera nýtt af nálinni. Til langs tíma hefur verið bent á margt sem betur mætti fara, til að mynda varðandi stuðning við landbúnað, og vandamálin hafa verið viðurkennd að einhverju leyti með skammtímalausnum stjórnvalda. En við skammtímalausnirnar hefur of oft verið staldrað og ekki hugað nægilega að framtíð landbúnaðar.
Hver getur fundið sínar ástæður fyrir því að það sé mikilvægt að efla íslenskan landbúnað. Einum þykir það hreinlega þjóðhagslega mikilvægt og raunar öryggismál, öðrum þykir það órjúfanlegur hluti af menningu okkar og ásýnd landsins að byggð sé dreifð og sterk um landið á meðan þriðja gæti þótt það vera mikilvægt framlag okkar til umhverfismála að framleiða matvælin okkar sjálf með eins sjálfbærum hætti og hægt er.
Stefnum þurfa að fylgja leiðir
Við Íslendingar höfum þó sett okkur landbúnaðarstefnu og matvælastefnu sem ramma nokkuð vel inn hvert skal haldið og eru þær í eðli sínu framsýnar og taka á mörgum þeim áskorunum sem blasa við okkur sem mannkyni í heimi þar sem við þurfum að sýna aukna ábyrgð á því hvernig við til að mynda framleiðum matvæli. Enda er í þessum stefnum komið inn á styrkleika okkar og tækifæri á svo ótal mörgum sviðum.
Það ástand sem blasir þó orðið við okkur í dag einkennist víða af langri bið. Tímabili þar sem bændur hafa haldið að sér höndum einfaldlega vegna þess að skilaboðin um að við ætlum virkilega að halda í öflugan landbúnað til framtíðar og raunverulegar aðgerðir þar að lútandi hafa ekki verið til staðar, jafnvel þótt stefnurnar og markmiðin séu til. En ekki verður beðið endalaust og ljóst er að eftir því sem biðin lengist þá dragi úr viðnámsþrótti landbúnaðar á Íslandi með hnignun innviða og hættu á glötun þekkingar og mannauðs. Áherslur stjórnvalda á nýliðun, kynslóðaskipti bænda og eflingu til framtíðar verður því mikilvæg til að veita eldri bændum kraft til að halda lífi í búum sínum, halda áfram uppbyggingu og framþróun enda sé nær öruggt að ungt og áhugasamt fólk muni koma til með að taka við keflinu og það muni í raun geta það.
Við vitum vel að hverju við búum á Íslandi og erum stolt af því sem við gerum. Það er drifkrafturinn sem hefur haldið okkur bændum gangandi svo lengi, ánægjan við starf okkar. Enn fremur blasir svo greinilega við okkur sem lítum um heiminn og nánasta umhverfi að aðstæður hér með okkar afbragðs góðu náttúruauðlindir og framúrskarandi mannauð ætti ekkert að standa í vegi fyrir því að við getum haldið áfram á þeirri braut að framleiða ein þau bestu og hreinustu matvæli heims.
Tækifærin eru í höndum okkar
Það er því til heilmikils að vinna svo komandi kynslóðir geti notið góðs af því að landbúnaður blómstri á Íslandi enn betur um langa framtíð. Þar þurfum við unga fólkið að taka það til okkar að vera leiðandi í umræðunni á komandi misserum. Til þess þarf að koma hugmyndum og sjónarmiðum á framfæri og vera óhrædd við að stinga upp á nýjum lausnum eða áherslum. Það verður því mikið tækifæri fyrir ungt fólk sem hefur það að markmiði að gerast bændur eða unga bændur að taka þátt í málefnastarfi Samtaka ungra bænda (SUB) á næstu misserum. Um þessar mundir eru landshlutafélög ungra bænda að undirbúa málefni og fulltrúa á aðalfund SUB sem haldinn verður helgina 12.–14. janúar á Hótel Dyrhólaey í Mýrdalshrepp þar sem línurnar verða lagðar og árshátíð ungra bænda verður haldin sömuleiðis. Ég vil því eindregið hvetja alla þá sem ætla sér að vera hluti af framtíð íslensks landbúnaðar að taka virkan þátt, vera hluti af þeirri sterku rödd sem ungir bændur hafa svo sannarlega í dag og finna sig í félagsskap hver annars.
Að því sögðu vil ég óska bændum, ungum sem öldnum, og öðrum landsmönnum gleðilegrar hátíðar, friðar og farsældar á komandi ári.