Innlendur landbúnaður jafnar sveiflur
Þó að kórónaveirufaraldurinn sé í rénun víða þá dregur lítið úr áhrifum á matvælaverð. Í upphafi faraldursins lækkaði verð á matvælum býsna skarpt, vegna þess að eftirspurnarhliðin hrundi – veitingastaðir lokuðust og ferðamenn hurfu. En síðan fyrir ári síðan hefur matvælaverð á heimsvísu farið hækkandi. Hækkunin hefur ekki verið meiri í áratug, en í kjölfar síðustu hækkana var mikill óstöðugleiki víða um lönd vegna hárra matarreikninga.
Ástæður hækkana eru flóknar, margt spilar saman, þurrkar í Brasilíu, hækkun flutningskostnaðar vegna Covid ásamt botnlausri eftirspurn í Kína eftir hvers kyns kornvöru. Kínverjar fjölga nú í svínahjörð sinni eftir að hún var skorin niður vegna afrísku svínapestarinnar sem hefur þau áhrif að toga upp verð á ýmsum kornvörum. Áhrifa þessa er þegar farið að gæta í kjarnfóðurverði hér á landi.
Sú spurning brennur á greinendum víða um heim hvort að alþjóðlegt verðbólguskot sé í uppsiglingu. Leiðari eftir leiðari í viðskiptablöðum snýst um þetta. Þar er horft til þess gífurlega magns peninga sem hefur verið prentaður frá því að faraldurinn hófst af stærstu seðlabönkum heims. Það væri grundvallarbreyting frá því umhverfi sem hefur verið í þróuðum hagkerfum síðustu þrjátíu ár, þar sem verðbólga hefur gott sem horfið. Ísland hefur vissulega ekki verið ónæmt fyrir verðbólgu en það liggur fyrir að raunvaxtastig á Íslandi hefur tekið stakkaskiptum á síðustu áratugum. Matvælaverð er hluti af þessari mynd og þróunin þar gefur fyrirheit um að verðhækkanir geti verið nokkrar.
Áhrif hækkunar matvælaverðs eru mikil í hinum fátækari löndum
Neytendur í hinum ríku löndum hafa lítið orðið varir við þessar verðhækkanir á landbúnaðarvörum. Hrávörukostnaðurinn er lítill hluti af verðinu á vörum, t.d. á Íslandi. En þær bitna aðallega á þeim þjóðum sem neyðast til þess að flytja inn stóran hluta matvæla.
Fyrir þær þjóðir er þetta grafalvarlegt mál, samtök um matvælaaðstoð hafa varað við áhrifum þessa á hungur í heiminum. En það hefur farið vaxandi í kófinu, fjöldi þeirra sem lifir við hungurmörk hefur tvöfaldast. Þá hafa fjölmörg ríki sett útflutningstakmarkanir á matvælum til þess að draga úr innlendum verðhækkunum. Nýlegasta dæmið um það er Rússland – sem hyggst halda áfram að takmarka útflutning á ýmsum landbúnaðarvörum og setja hámarksverð innanlands.
Innlendur landbúnaður jafnar sveiflur
Allt þetta rennir styrkari stoðum undir mikilvægi þess að hafa kröftugan innlendan landbúnað. Verðhækkanir á matvælum eru tengd kröftum sem engin ein þjóð hefur stjórn á, veðurfar, farsóttir og breytingar á eftirspurn. Með því að framleiða það sem hægt er sjálf aftengjumst við þessum óvissuvaldi og erum öruggari. Yfir þessi mál er farið ígrundað í vandaðri skýrslu Landbúnaðarháskólans um fæðuöryggi sem kom út í byrjun árs. Þar kemur fram að helstu sóknarfærin eru að efla innlenda kornframleiðslu.
Tækifærin liggja í því að koma á fót vinnslustöðvum fyrir kornvöru, þurrkstöðvum og geymslum. Ásamt því að hefja á nýjan leik skipulagt kynbótastarf á nytjajurtum hér á landi. Um árabil hefur verið hallæri í því að fjármagna kynbætur á nytjajurtum. Er það afar bagalegt þar sem að fátt er jafn öruggt að borgi sig eins og kynbætur í landbúnaði. Ef ekki verður breyting á verður ekki unnt að auka fæðuöryggi með aukinni innlendri rækt á kornvöru. Með markvissri sókn mætti á næstu árum og áratugum gera Suðurlandið sérstaklega að kornbelti Íslands, þar sem bleikir akrar væru til marks um kröftugan íslenskan landbúnað sem styður fæðuöryggi þjóðarinnar.