Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Svavar Guðmundsson.
Svavar Guðmundsson.
Lesendarýni 6. júní 2024

Stórkostlegt hugvit fyrir blinda

Höfundur: Svavar Guðmundsson, sjónlífs- og sjávarútvegsfræðingur.

Það er í frumeðli mannsins að finna nýjar leiðir og lausnir til að einfalda og bæta líf sitt.

Þann 14.–17. maí sl. fór ég á stærstu blindratæknisýningu í heimi sem haldin var í Frankfurt í Þýskalandi, Sight City. Mér til leiðbeiningar og aðstoðar í ferðinni var sjónlífsfræðingurinn Kolbrún Hjörleifsdóttir, sem er allflestum fremri þegar kemur að gagnlegri leiðsögn. Áður hafði ég farið á tvær sambærilegar sýningar í London árið 2019 og 2022 en þær sýningar voru töluvert minni að umfangi en Sight City. Þessi sýning var á fjórum hæðum í ráðstefnuhöll þeirra Franfúrtara í sem mætti segja að væri á við ígildi tveggja keppnisvalla Laugardalshallarinnar. Þarna voru komnir saman þúsundir gesta alls staðar að úr heiminum ásamt fjölda leiðsöguhunda, stórkostleg og einstök upplifun fyrir alsjáandi að sjá slíka sjón. Sýningaraðilar voru rúmlega 200 talsins frá rúmlega 20 þjóðlöndum. Til upplýsandi fróðleiks sem ég las á heimasíðu sýningarinnar má geta þess að í Þýskalandi eru 500 þúsund manns taldir mjög sjónskertir og 150 þúsund manns lögblindir (<10% sjón) og blindir. Þar sem ég hef heimsótt nokkur blindrasamtök víða um heim, þá hefur mér verið tjáð af þeim að til sé nokkurs konar þumalputtaregla á Vesturlöndum að 75% þeirra sem eru lögblindir eru 70 ára og eldri í þeim löndum. Allt skipulag og aðgengi var í anda Þjóðverja, til mikillar fyrirmyndar.

Fyrir einungis nokkrum áratugum voru eingöngu til sem hjálpartæki fyrir blinda og sjónskerta, blindraletur, blindrastafur og stækkunargler en nú er landslagið gjörbreytt. Frá því ég prófaði fyrstu rafgleraugun árið 2017, sem mætti líkja við að ég hafi verið með heila loftskeytastöð á höfðinu, eru öll slík tæki orðin mun einfaldari í notkun og minni í sniðum. Margar af þessum græjum eru að verða á við venjuleg gleraugu að stærð með einföldum aukabúnaði sem geta svo sannarlega bætt lífsgæði þessa hóps til muna.

Í samráði við sjálfan mig ætla ég að gera mitt besta í að deila upplifun minni af brotabroti af því sem ég „sá“ á þessari mannsandans glæstu sýningu. Ég prófaði t.a.m. alveg nýja tegund af sk. smartgleraugum sem lesa allt umhverfið fyrir mann á mjög nákvæman hátt og gefa frá sér mismunandi hljóð eftir því hvort maður sé að fara að reka höfuðið í tré eða eitthvað sé fyrir fótum manns svo dæmi sé tekið til einföldunar. Þessi gleraugu eru mun nákvæmari en lýsing mín því þau tala einnig við mann með alls konar hjálplegum skipunum.

Það sem hefur aukið lífsgæði blindra og sjónskertra undanfarin ár er öll sú snjalltækni sem komin er fram í tölvu og síma. Til dæmis voru á sýningunni alls konar leiðsöguforrit fyrir blinda og sjónskerta og ekki síst geta flest þeirra hjálpað mikið til ef maður villist af leið, en ég þekki mjög vel þá ömurlegu tilfinningu að vera rammvilltur og geta ekki hringt í neinn. Og gervigreindin er heldur betur að ryðja sér inn í heim blindra og sjónskertra sem er alveg hreint út sagt stórkostlegt. Á sýningunni voru nokkrir aðilar að kynna og tengja gervigreindina saman sem hjálpartæki fyrir sýningargesti. Eitt af þeim var franskt fyrirtæki sem var búið að fullþróa lítið einfalt tæki sem gerir alveg hina ótrúlegustu hluti fyrir blint og mjög sjónskert fólk. Það getur nýst manni sem leiðsögumaður, það upplýsir man um allt sem er að gerast í umhverfinu og maður getur spurt tækið að öllu milli himins og jarðar hvað maður vill. Til dæmis spyr maður tækið hvar sé þetta eða hitt að finna sem mann vanhagar um, t.d. um ákveðna tegund kexpakka í verslunum og hluti heima hjá sér, en blindir eru reyndar allflestum alsjáandi fremri í að týna ekki hlutum, þeir eru því fádæma fjölhæfir snillingar líkt og þessi nýja tækni. Sjálfur staðfesti ég kaup á hjálpartæki á sýningunni sem mun nýtast mér vel og mun auka lífsgæði mín töluvert og einfaldar líf mitt ekki síður. Framleiðandinn lofaði mér því að fyrra bragði að ég yrði sá fyrsti í heiminum til að fá það afhent eftir um 3 mánuði og mikið hlakka ég til. Já, það sem stóð upp úr þessari sýningu var ekki síst það, að hafa hitt fyrir svo marga óvenjulega snillinga saman komna á einum stað sem allir höfðu það að markmiði að hjálpa og einfalda líf blindra og sjónskertra um heim allan.

Ég hitti einnig tvo nýútskrifaða rafmagnsverkfræðinga frá Bretlandi þar sem lokaverkefni þeirra var að tengja saman elstu punktaletursritvélina og breyta punktunum sem skrifaðir voru á henni yfir á venjulega stafagerð í Word-skjal í tölvu. Það er varla svo að ég geti útskýrt þetta með góðu móti því þetta er mjög flókið ferli sem ég þurfti að hafa mig allan við að skilja er þeir útskýrðu þetta fyrir mér og ég geri því mitt allra besta til að útskýra þetta fyrir ykkur. Ég kynntist einnig alblindum ungum manni sem hafði hannað upphleypt lyklaborð sem hann setur yfir lyklaborðið á símanum sínum til að eiga auðveldara með að skrifa á símann sinn, og auðvitað keypti ég eitt slíkt af honum því þetta er mikið vandamál fyrir okkur sem sjáum ekki á símann okkar til að skrifa. Ég get svo sem haldið lengi áfram að tíunda hugvit þessara snillinga, en vil þó nefna einn í lokin en það var pólskt fyrirtæki en Pólverjar hafa lengi verið mjög framarlega í skapandi blindratækni. Ég hitti ekki frumkvöðulinn sjálfan, Marek Sobczak, en starfsfólkið sagði mér frá honum sem var þarna með sinn flotta bás. Marek þessi hóf sjálfur upp á sitt eigið einsdæmi fyrir rúmum 20 árum að hanna og þróa sjálfan talgervilinn/skjálesara á pólsku sem er rödd í tölvu og síma sem les upp fyrir okkur blinda fólkið sem getum ekki lesið af tölvu né símaskjá. Hann gafst aldrei upp þótt verkefnið væri æði oft þungt fyrir fæti og hafa margar þjóðir notast við þessa upphafstækni hans að færa raddir inn í snjalltækin. Hann er ekki síður frumkvöðull í bókaútgáfu fyrir blind og sjónskert börn um heim allan, en hann notast við ákveðna prenttækni með stenslum, sem gerir myndir upphleyptar, sem gerir þær áþreifanlegar fyrir blinda einstaklinga.

Fyrir þá sem vilja kynna sér fyrirtækið og sögu kappans frekar, þá heitir fyrirtækið hans ALTiX og er nafnið tilkomið vegna þess að áður en escape-takkinn varð til á lyklaborðinu þá þurfti að notast við takkana Alt og X samtímis til að komast út úr skipun og bókstafurinn (i) í nafninu stendur fyrir „og“ á pólsku. Að framangreindri útskýringu á nafninu ALTiX finnst mér oft óþarflega nauðsynlegt að flækja einfalda hluti fyrir mér svo ég skilji þá og muni betur og vil því deila þeirri ástríðu minni með ykkur.

Og í lokin má ekki gleyma að minnast á gömlu góðu og gagnlegu uppfinninguna, sjálfar naglaklippurnar með stækkunarglerinu en ég keypti nokkrar slíkar til að gefa góðum vinum mínum. Ástæða þess að mér var hugsað til vina minna góðu við naglaklippukaupin er að það styttist alltaf í það að þeir þurfi að nota þær, því staðreyndir segja okkur að sjón daprast orðið æði hratt í línulegu sambandi við alltof mikinn skjálestur í síma.

Eins og áður segir er einungis hægt að tiltaka brotabrot af svo viðamikilli sýningu en upp úr stendur allar þær fjölmörgu nýjungar sem eru að koma fram sem auka lífsgæði blindra og sjónskertra, ég var því afar sáttur að hafa farið á þessa sýningu. Og þegar ég yfirgaf sýningarhöllina á lokadegi sönglaði sú staðreynd í höfði mínu, að sjónin býr í hugsuninni og útgeislun hennar í hjartanu.

P.S. Ég fékk fjárstyrk að upphæð 170 þúsund krónur til ferðarinnar úr sjóðnum „stuðningur til sjálfstæðis“ sem er í eigu Blindrafélagsins og fyrir það er ég þakklátur að til sé slíkur sjóður.

Kosningarnar snúast líka um landbúnað
Lesendarýni 21. nóvember 2024

Kosningarnar snúast líka um landbúnað

Frá upphafi hefur landbúnaður gegnt lykilhlutverki í að móta íslenska menningu o...

Af virðingu við landið
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Af virðingu við landið

Í aðdraganda kosninga erum við ítrekað minnt á að margar stærstu áskoranir samfé...

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni
Lesendarýni 20. nóvember 2024

Hjúkrunarheimili á landsbyggðinni

Eru hjúkrunarheimili á landsbyggðinni með viðunandi fjármögnun? Er tilefni til a...

Vegleysur á Vestfjörðum
Lesendarýni 18. nóvember 2024

Vegleysur á Vestfjörðum

Sem frambjóðandi á ferð fór ég akandi um Vestfirði um helgina. Vegur um Strandir...

Kosningar og hvað svo?
Lesendarýni 15. nóvember 2024

Kosningar og hvað svo?

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtu Bændasamtök Íslands áskorun til frambjóð...

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu
Lesendarýni 13. nóvember 2024

Sterkur landbúnaður þarf stefnufestu og aftur stefnufestu

Það er stór ábyrgðarhluti stjórnvalda að reyna að tryggja að atvinnugreinar séu ...

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara
Lesendarýni 12. nóvember 2024

Eyrnamörk: Skjaldarmerki hins íslenska riddara

Eyrnamörk eða fjármörk eru, eins og margir þekkja, skurðir í eyru á fé til að sk...

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi
Lesendarýni 11. nóvember 2024

Stoð atvinnulífs og lykill að framtíðarfæðuöryggi

Landbúnaður hefur löngum verið ein af burðarstoðum atvinnulífs í Norðausturkjörd...