Þúsund tonna kornþurrkstöð í Eyjafirði of lítil
Í vor vann ég lokaverkefni mitt í búvísindum við Landbúnaðarháskóla Íslands. Fjarðakorn, kornræktarfélag í Eyjafirði kom með hugmynd að verkefni sem var að skoða fýsileika og hagkvæmni þess að reisa kornþurrkstöð í Eyjafirði.
Áhugi á eflingu kornræktar hefur aukist að undan förnu, bæði meðal bænda og ráða manna, en inn viðir fyrir greinina eru takmarkaðir. Rakastig korntegunda við þreskingu er oft of hátt fyrir langtímageymslu. Á Íslandi er korn oft skorið við 25–40% rakastig en hámarks rakastig korns svo það sé geymsluhæft í eitt ár er 14,5%.
Með því að fjarlægja vatnið úr korninu, lækkar vatnsvirkni þess og örverur geta því ekki vaxið og spillt korninu. Einnig er hægt að votverka korn en meirihluti af korni á Íslandi er votverkaður (60%). Votverkun hentar þó ekki til dæmis í kjarnfóður og matvælaframleiðslu en til þeirrar notkunar þarf að þurrka það. Kornþurrkun fer fram með því streyma miklu magni af lofti um kornið. Hægt er að stytta þurrktímann bæði með því að hækka hitastig loftsins sem blásið er um kornið og með auknum blásturshraða. Of hátt hitastig loftsins getur hins vegar skemmt kornið og dregið úr spírunarhæfni þess. Bæði er hægt að nota olíu og gas til að hækka hitastig þurrkunarloftsins.
Á Íslandi er víða að finna heitt vatn sem má nýta til þurrkunar á korni og getur verið talsvert ódýrara heldur en að nota til að mynda olíu. Þurrkun korns er ein orkufrekasta aðgerð landbúnaðar í löndum tempraða beltisins. Í byggræktun í Finnlandi er þurrkun um 30% af beinum orkukostnaði framleiðslunnar. Þrátt fyrir það er þurrkun korns mest notaða verkunaraðferðin í Finnlandi og er um 85–90% af kornuppskerunni þurrkuð.
Kornþurrkarar
Þegar það kemur að vali á kornþurrkara þarf að hafa í huga að þurrkarinn nái að anna afköstum þreskivélanna. Að hafa tækja og mannafla aðgerðalausan er kostnaðarsamt sem, eðli málsins samkvæmt, tefur kornskurðinn.
Hægt er að flokka kornþurrkara í gerðir eftir uppbyggingu og virkni þeirra. Þannig má skipta þeim í lotuþurrkara (e. batch load), gegnumstreymisþurrkara (e. continuousflow) og hringrásar lotuþurrkara (e. recirculating dryers). Í gegnumstreymisþurrkurum er korni dælt í gegnum þurrkarann og það þurrkað samstundis. Þetta er afar orkufrek aðferð til að þurrka korn en helsti kostur þessara þurrkara er sá að hann getur tekið við miklu magni af korni á stuttum tíma. Einhver hætta er á skemmdum á korninu sökum þess hve hröð þurrkunin er en hægt er að koma í veg fyrir það með réttum stjórnunarháttum. Lotuþurrkarar virka þannig að ákveðinn kornskammtur er settur inn í þurrkarann og sá skammtur þurrkaður í einni lotu. Tíminn sem fer í að fylla og tæma þurrkarann nýtist ekki til þurrkunar og þurrkunin getur orðið ójöfn þar sem kornið sem er næst loftinntakinu þornar meira en kornið sem er fjær því.
Hringrásarlotuþurrkarar eru síðan í raun blanda af lotuþurrkara og gegnumstreymisþurrkara. Þeir virka þannig að kornið sem er á botninum er flutt með snigli, lyftu eða sambærilegu efst í sílóið. Með því að halda korninu á hreyfingu í þurrkaranum verður rakastig, þurrkaða kornsins einsleitara. Hringrásin á korninu er sérstaklega þörf þar sem rakastig korns við uppskeru er mismunandi. Í NorðurEvrópu er þetta algegnasta gerð þurrkara.
Eyfirðingar ættu að huga að stækkanlegri 2.000 tonna stöð
Verkefnið mitt var tilviksrannsókn. Tilviksrannsókn er fræðileg athugun á tilteknu máli, manneskju, hóp eða atviki í raunverulegum kringumstæðum. Þó það sé ekki hægt að draga almenna ályktun um uppsetningu þurrkstöðva út frá verkefninu, má hugsanlega nýta svipaðar aðferðir og notaðar voru í verkefninu til að skoða önnur sambærileg atvik.
Markmið verkefnisins var að kanna fýsileika og hagkvæmni kornþurrkstöðvar í Eyjafirði. Kornræktendum í Eyjafirði hefur þó einnig verið boðið að þurrka korn sitt í graskögglaverksmiðju við Húsavík sem til stendur að reisa. Viðbót við verkefnið var því að meta flutningskostnað bæði fyrir þurrkstöð í Eyjafirði og Þingeyjarsveit og bera saman. Unnið var út frá sviðsmynd núverandi ræktunar og einnig hámarksræktun ef uppbygging til kornræktar tækist vel.
Spurningalisti var sendur út á kornræktendur í Eyjafirði meðal annars til að finna út núverandi ræktun. Þeir bændur, sem sögðust myndu nýta sér þurrkarann yrði hann reistur, rækta um 1.250 tonn.
Sömu bændur myndu rækta að hámarki um 2700 tonn ef uppbygging kornræktar tekst vel til. Ríflega 60% af þeim sem svöruðu spurningalistanum voru tilbúnir að leggja til hlutafé í stöðina. Flutningskostnaður við að flytja korn til og frá Húsavíkur voru um 5,9 kr/kg samanborið við 2,3 kr/kg ef kornið var flutt að SyðraLaugalandi í Eyjafirði þar sem ný kornþurrkstöð yrði líklega reist ef til kæmi. Þó er hagkvæmara að flytja kornið til Húsavíkur heldur en að þurrka það í 1.000 tonna stöð á SyðraLaugalandi vegna lægri þurrkkostnaðar í graskögglaverksmiðjunni.
Hins vegar er 2.500 tonna stöð í Eyjafirði hagkvæmari heldur en að flytja kornið til Húsavíkur en miðað við núverandi framleiðslu væri ekki hægt að fullnýta þá stöð.
Hægt er að lesa verkefnið í heild sinni sem og önnur áhugaverð lokaverkefni nemenda Landbúnaðar háskóla Íslands inni á skemman.is, safni námsritgerða og rannsóknarita.