Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Lesendarýni 12. desember 2019
Til fyrirmyndar á afrétti
Höfundur: Guðrún S. Magnúsdóttir
Í upphafi árs 2018 hófu heimamenn í Biskupstungum í góðu samstarfi við ferða- og samgöngunefnd Landssambands hestamannafélaga, að vinna að stóru verkefni er varðar kortlagningu og merkingu reiðleiða á Biskupstungnaafrétti.
Tildrög verkefnisins má rekja til vinnu við nýtt aðalskipulag Bláskógabyggðar. Í þeirri vinnu var ítarlega lagst yfir reiðleiðir á afréttinum, sumum leiðum var lokað, aðrar gerðar takmarkandi, þ.e. einungis má fara þær með hesta í taumi, ekki rekstra og sums staðar hefur umferð ríðandi manna verið beint af viðkvæmum gróðursvæðum.
Við auglýsingu aðalskipulagsins gerði ferða- og samgöngunefnd LH athugasemdir við sumar af þeim breytingum á reiðleiðum sem við lögðum til. Brugðist var við þeim athugasemdum með því að funda með fulltrúum ferða- og samgöngunefndar LH. Það er skemmst frá að segja að hvergi steytti á í okkar samræðum. Allir voru sammála um að með markvissum merkingum, kortlagningu reiðleiða, stýringu, góðum og aðgengilegum upplýsingum um hvernig ferðast skal um hálendið, þá geti hestamenn og allir þeir sem njóta vilja hálendsins farið um það án þess að raska viðkvæmum svæðum.
Niðurstaða fundarins var að merkja allar reiðleiðir á afréttinum og auk þess að koma upp fræðslu/upplýsingaskiltum við helstu áningastaði. Alls urðu vegprestarnir 15 og vegvísar á þeim 42. Syðsti presturinn er við afréttarmörk, rétt innan við Gullfoss og svo rekja þeir sig um allan afrétt, alla leið inn á Hveravelli.
Á hverjum vegpresti er númer (póstnr. svæðisins og svo hlaupandi nr. 801.01 – 15). Vegprestarnir eru hnitsettir í kortasjá LH, Neyðarlínan er með öll hnit úr kortasjánni þ.e. reiðleiðir, vegpresta, skála ofl. þannig að öryggi þeirra sem ferðast um hálendið eykst til muna. Fræðslu-og upplýsingaskiltin eru staðsett í Fremstaveri, Árbúðum og Svartárbotnum. Einnig í Sóleyjardal til upplýsinga fyrir þá sem fara um Þjófadali. Á þessum skiltum er kort af nærliggjandi svæði, örnefni, stutt ágrip um sögu viðkomandi svæðis og upplýsingar um það hvernig ferðast á um hálendið, skiltin eru bæði á ensku og íslensku. Kortin á skiltunum mynda saman eina heild frá byggð í Biskupstungum og norður í Guðlaugstungur.
Bræðurnir Egill og Ólafur Jónassynir við skilti í Árbúðum.
Allt unnið í sjálfboðavinnu
Öll vinna við verkefnið var unnin í sjálfboðavinnu. Hönnun skiltanna, textagerð, þýðing yfir á ensku, fundarseta, keyrsla í kringum verkefnið og uppsetning skiltanna var unnið í sameiningu Tungnamanna og ferða- og samgöngunefndar LH, enginn þáði laun fyrir. Eini kostnaðurinn við verkefnið var framleiðsla skiltanna, sá kostnaður var greiddur af LH, tæpar 2 milljónir. Það var svo á björtum og fögrum degi í lok ágúst 2018 sem vaskir Tungnamenn héldu inn á Biskupstungnaafrétt og hófu uppsetningu skiltanna.
Á liðnu sumri var uppsetningu skiltanna haldið áfram, nú með liðsinni félaga úr Björgunarsveit Biskupstungna. Afrétturinn er víðfeðmur og ekki einfalt að komast að sumum þeirra staða sem skilti voru sett. Þess var gætt í hvívetna að raska ekki að neinu leyti þeim stöðum sem um var farið og voru skiltin sett niður með handstaurabor og skóflum og sums staðar gengið um langan veg með allan búnað til að koma skiltunum á rétta staði.
Góður aðbúnaður á Kili
Eins og flestum er kunnugt liggur Kjalvegur um Biskupstungnaafrétt. Með tilkomu skiltanna er aðgengi og öryggi þeirra sem ferðast um Kjöl með því allra besta sem þekkist á hálendi Íslands, ekki eingöngu hestamanna því mikill fjöldi göngufólks fer um Kjöl og munu vegvísarnir og upplýsingaskiltin ekki síst nýtast þeim hópi.
Hvað annnan aðbúnað varðar fyrir þá sem ferðast um afréttinn þá erum við Tungnamenn stöðugt að bæta aðstöðuna. Í sumar var nýtt hesthús reist í Fremstaveri í sjálfboðavinnu af Tungnamönnum, sveitarfélagið styrkti verkefnið lítillega með fjármagni til efniskaupa. Nú eru á afréttinum þrír góðir fjallaskálar, hesthús og góð gerði við þá alla. Alls staðar eru góð vatnssalerni og í Árbúðum og Svartárbotnum (Gíslaskála) eru sturtur. Einnig er hesthús og gerði við Hvítá, norðan við Bláfell. Skálarnir eru í eigu sveitarfélagsins en reknir af heimafólki sem á og rekur ferðaþjónustufyrirtækið Gljástein og hefur um árabil sinnt viðhaldi og rekstri skálanna af miklum myndarbrag.
Göngubrú yfir Svartá.
Mikil uppbygging fyrir lítið fjármagn
Tungnamenn bera sterkar taugar til hálendisins, svo miklar að algengt er að einstaklingar gefi fjármagn í hin ýmsu verkefni sem ráðist er í á afréttinum. Einnig er löng hefð fyrir margs konar sjálboðavinnu við hin ýmsu verkefni. Landgræðslufélag Biskupstungna, sauðfjárbændur, grunnskólabörn og ýmis félagasamtök hafa í áratugi stundað öflugt landgræðslustarf og má víða á afréttinum sjá árangur af þeirri vinnu.
Kolefnisbinding með skógrækt í samvinnu við ferðaþjónustufyrirtæki og skólaskógar sem skólabörn sinna, eru dæmi um metnaðarfullt starf á afréttinum. Þá má einnig nefna göngubrú yfir Svartá við Árbúðir sem tekin var í notkun 2017. Brúin var hönnuð og smíðuð af miklu hugviti heimamanna, í sjálfboðavinnu. Hún er þannig gerð að hægt er að draga hana á land að hausti þannig að hún verði ekki fyrir tjóni yfir vetur og vor. Þá er rétt að geta þess að allir skálarnir, hesthúsin og gerðin eru að langmestu leyti reist í sjálfboðavinnu.
Það er von okkar Tungnamanna að afrétturinn verði áfram í okkar umsjá. Við höfum sinnt honum vel og byggt upp aðbúnað sem er með því besta sem gerist á hálendi Íslands, fyrir lágmarks fjármagn. Öll þessi uppbygging og góði aðbúnaður nýtist svo landsmönnum öllum, ekki síst þeim fjölmörgu erlendu gestum sem ferðast um Kjöl.
Þakkir til ferða- og samgöngunefndar LH
Að endingu vil ég þakka ferða- og samgöngunefnd Landssambands hestamannafélaga fyrir gott samstarf, sérstaklega þeim Halldóri H. Halldórssyni og Sæmundi Eiríkssyni. Það er miklill mannauður í þeim félögum og þekking sem þeir búa yfir varðandi kortlagningu reiðleiða um allt land. Það er mikill metnaður hjá hestamönnum að ganga vel um landið þegar um það er ferðast.
Að koma að slíku verkefni með okkur Tungnamönnum, sýnir að hestamenn bera mikla virðingu fyrir hálendi Íslands og vilja leggja sitt af mörkum til verndar því. Þetta góða samstarf Tungnamanna og LH er gott dæmi um verkefni sem hægt er að vinna í sátt og samlyndi með góðum árangri fyrir lítið fjármagn ef tekið er tillit til sjónarmiða og þarfa mismunandi hópa, í stað þess að fáir aðilar taki sér alræðisvald með boðum og bönnum.
Guðrún S. Magnúsdóttir