Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Lúpína á erfitt uppdráttar þar sem er jöfn sauðfjárbeit. Myndin tekin við Markarfljótsaura í Fljótshlíð í júlí 2015.
Lúpína á erfitt uppdráttar þar sem er jöfn sauðfjárbeit. Myndin tekin við Markarfljótsaura í Fljótshlíð í júlí 2015.
Lesendarýni 20. ágúst 2015

Um lúpínu og beit

Höfundur: Anna Guðrún Þórhallsdóttir
Vaxandi útbreiðsla lúpínunnar hefur verið til umræðu í fjölmiðlum í sumar sem og síðustu sumur, sam­hliða tillögum um hvað hægt sé að gera til að stemma stigu við henni, t.d. með eitri, slætti eða áburði.
 
Anna Guðrún Þórhallsdóttir.
Alaskalúpínan var fyrst flutt til Íslands 1885 en náði þá ekki fótfestu. Hún var flutt inn að nýju haustið 1945 af Hákoni Bjarnasyni þáverandi skógræktarstjóra og hefur frá þeim tíma dreift sér víða um land. Til eru yfir 200 tegundir lúpínu. Lúpínan er belgjurt sem vinnur köfnunarefni úr lofti með hjálp niturbindandi baktería sem sitja í rótarkerfi hennar. Eins og mjög margar niturbindandi belgjurtartegundir (t.d. grænar baunir) eru fræ lúpínunnar stór og próteinrík og margar tegundir hennar hafa verið til nytja, bæði til manneldis og húsdýrafóðr­unar víða um heim í þúsundir ára. Nytja­tegundirnar eru almennt nefndar „sætar lúpínur“ – en til eru einnig fjölmargar tegundir sem eru eitraðar og er alaskalúpínan Lupinus nuutkatensis þeirrar gerðar. Hún er mjög fljót til sprettu á vorin og nær með því forskoti á aðrar tegundir. Hún nær með því að skyggja út aðrar tegundir sem láta undan og hverfa þar sem hún fer yfir. 
 
Dreifing alaskalúpínunnar á Íslandi
 
Fyrr í sumar kom fram í fréttum að svo virtist sem lúpínan væri að dreifa sér sífellt hraðar og að það væru komnir smáblettir af lúpínu víða meðfram vegum og upp um hálendi. Í þessu samhengi er vert að minnast þess að sumarið 1989 var smituðu (virku) lúpínufræi dreift ómarkvisst um landið. Voru nokkur fræ sett í litla plastpoka með slaufu og þeim komið á fjölmargar bensínstöðvar víða um land. Var fólk hvatt til að taka þessa poka með sér og sá fræjunum þar sem þeim sýndist henta. Þetta sama sumar var lúpínufræi einnig dreift úr flugvél – m.a. yfir Reykjanesskagann. Því er það ekki ólíklegt að lúpínu­plönturnar sem nú eru að verða áber­andi við vegi landsins eigi ræt­ur sínar að rekja til þessarar fræ­dreif­ingar árið 1989 – þegar fólk tók með sér poka í bílinn og dreifði þeim á næsta áfangastað við veginn.
 
Hegðun ágengra tegunda
 
Þegar nýjar tegundir eru að ná fótfestu fylgja þær tilteknu mynstri. Í byrjun eru plönturnar fáar og dreifa sér hægt. Eftir því sem plöntunum fjölgar eru fleiri að sjá um dreifinguna og eftir nokk­urn tíma eru þær farnar að fjölga sér með veldisvexti – þ.e., farnar að margfalda útbreiðslu sína á skömm­um tíma. Dreifing nýrra plantna er oft teiknuð upp eins og sýnt er á meðfylgjandi línuriti (sjá mynd 1). Mörg ár geta liðið frá því að tegund kemur inn á svæði þar til að hún fer að fjölga sér til muna, en þá fjölgar henni líka líka mjög hratt. Víðast þar sem við erum að verða vör við lúpínuna núna er hún enn rétt í fasa A – búin að ná fótfestu og byrjuð að fjölga sér en ekki enn komin í fasa B – þar sem hún er farin að dreifa sér með veldishraða. Til að berjast við aukinni dreifingu lúpínunnar er því mikilvægt að uppræta nýjar breiður meðan þær eru enn litlar, því vandamálið verður næstum óvinnandi ef lúpínan nær að komast á stig B. Það er því mikilvægt að kippa upp með rótum öllum nýjum plöntum þar sem þær eru að koma sér fyrir.
 
Tilraunir til að sporna við útbreiðslu alaskalúpínunnar
 
Mikið hefur verið talað og skrifað um hvernig best sé að hefta útbreiðslu og – helst – útrýma lúpínunni. Plöntu­eitur hefur verið reynt en það tekur ekki bara lúpínuna heldur drepur mikið til annan gróður einnig. Það skilur því eftir sig dautt land og margar tegundir plöntueiturs sitja líka lengi í jarðveginum – mun lengur en áður var talið og valda mengun og eitrun á grunnvatni. Eitrun er því alls ekki æskileg leið. Einnig hefur verið reynt að slá lúpínuna og virðist það oft heldur halda aftur af henni en hængurinn þar á að við slátt nást ræturnar ekki og fræforðinn er alltaf orðinn það mikill að ný planta kemur í stað þeirrar sem náð er að uppræta. Því þarf að slá árlega í langan tíma og það er bæði tímafrekt, erfitt og dýrt til lengri tíma. 
 
Beit til að hefta útbreiðslu alaskalúpínunnar
 
Það er athyglisvert að lúpína á mjög erfitt með að dreifa sér þar sem sauðfjárbeit er. Þetta sést mjög greinilega þar sem lúpínu hefur verið sáð innan girðinga, t.d. landgræðslu- og skógræktargirðinga. Innan girðinganna, þar sem engin beit er, eru oft þéttar lúpínubreiður en utan er ekki lúpínu að sjá (sjá mynd 2). Þannig virðist sauðfjárbeit geta haldið lúpínunni í skefjum, þó svo að ekki sé um þunga beit að ræða. Þótt að lúpínan sé töluvert eitruð þá er hún líka næringarrík og sauðfé sækir í að bíta hana, svo framalega sem þær hafa annað að bíta með til að þynna út eituráhrifin. Séu þær hins vegar neyddar til að bíta hana eingöngu þá koma eituráhrifin fram og féð veikist. Létt beit sauðfjár þar sem lúpína er að dreifa sér í ný gróðurlendi er því góð leið til að halda lúpínunni niðri – og til lengd­ar jafnvel að eyða henni. Í þéttum breið­um lúpínu væri reynandi að slá lúpínuna í byrjun en fylgja síðan eftir með sauðfjárbeit. Samkvæmt fyrstu rannsóknaniðurstöðum frá Náttúrustofu Vesturlands í Stykkis­hólmi þá fjölgar tegundum þar sem lúpína hefur verið slegin (http://www.ruv.is/frett/fleiri-tegundir-thar-sem-lupina-er-slegin). Þar skapast því grundvöllur fyrir að beita sauðfé með til að leggjast enn frekar á lúpín­una og fylgja eftir slættinum til að veikja hana. Ræturnar verða þó alltaf eftir. Það er þó nokkur von um að hestar geti komið þar við sögu. Hestar Guðrúnar Guðmundsdóttur og Jóhannesar Guðjónssonar í Efra-Hreppi í Skorradal hafa þróað með sér aðferð við að sparka upp lúpínurætur og éta þær. Þar sem fæðunám er mikið til lært atferli þá ætti að vera hægt að kenna öðr­um hestum atferlið og dreifa þekkingunni til annarra hestahópa sem þá gætu séð um að „róta upp“ lúpínubreiðum. Víða erlendis hafa verið myndaðir hópar beitardýra sem sjá um „þrif“ á tilteknum svæð­um (sjá „prescribed grazing“ – t.d. https://www.co.weld.co.us/assets/268B3d85BCbCCBDDB98D.pdf). Leigja bændur þessa hópa út og sjá um að beita þau svæði sem þarf á hverjum tíma. Full ástæða er til að reyna þessa aðferð á Íslandi – beitardýr gegn lúpínunni – og hugs­an­lega einnig skógarkerflinum sem nú breiðir hratt úr sér.
 
Anna Guðrún Þórhallsdóttir
prófessor og námsbrautarstjóri náttúru- og umhverfisfræða, Landbúnaðarháskóla Íslands

3 myndir:

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...