Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Stjórnmálamenn í kosningaham og málefni sauðfjárbænda enn í lausu lofti
Mynd / BBL
Skoðun 21. september 2017

Stjórnmálamenn í kosningaham og málefni sauðfjárbænda enn í lausu lofti

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Mikið hefur gengið á í íslenskum stjórnmálum síðustu daga. Stjórnvöld, sem voru í viðræðum við sauðfjárbændur um lausnir þeim til handa, eru á förum og boðað hefur verið til kosninga. Óljóst er þegar þetta er skrifað hvort og þá hve lengi Alþingi mun starfa. Því er fullkomin óvissa um úrlausnir vegna erfiðleika hjá sauðfjárbændum.
 
Landssamtök sauðfjárbænda héldu nú fyrr í vikunni fulltrúafund þar sem áformað var að ræða tillögur landbúnaðarráðherra. Eins og áður hefur komið fram hér er búið að fórna dýrmætum tíma í hálft ár í viðræður við stjórnvöld um mögulegar aðgerðir. Tillögur þeirra lágu fyrst fyrir í byrjun þessa mánaðar. Þó svo að haft hafi verið samráð við BÍ og LS þá voru þessar tillögur lagðar fram á ábyrgð ráðherra og ekki um að ræða samkomulag milli stjórnvalda og bænda. Afstaða okkar gagnvart tillögunum er þekkt. Hægt er að taka undir margt sem líklegt er að vera bændum til aðstoðar en þær leysa á engan hátt þann vanda sem snýr að fyrirsjáanlegum birgðavanda eftir sláturtíðina. Tillögurnar eru því ekki heildstæð lausn eins og við bændur höfum alltaf lagt áherslu á.
 
Ekki hægt að tryggja samstöðu um tillögur ráðherra
 
Í aðdraganda fundar sauðfjárbænda nú fyrr í vikunni áttum við forsvarmenn BÍ og LS fund með landbúnaðarráðherra. Þar voru okkur kynntar lítils háttar breytingar á tillögunum eftir að komið hafði fram gagnrýni vegna mikilla hvata til að hætta búskap. Breytingarnar snerust um að auka vægi þeirra tillagna er vörðuðu þá sem vildu fækka á kostnað þeirra sem kynnu að hætta búskap. Á þeim fundi lögðum við höfuðáherslu á að tillögurnar yrðu ekki lagðar fyrir fundinn nema að stjórnvöld gætu tryggt að samstaða væri um málið meðal flokka á Alþingi. Enn fremur var mikilvægt að fulltrúar á fundinum fengju tillögurnar, sem þeir áttu að taka afstöðu til, sendar fyrir fundinn til að glöggva sig á þeim breytingum sem gerðar höfðu verið.
 
Þrátt fyrir þessi skýru skilaboð af okkar hálfu gekk þetta ekki eftir. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra mætti til fundar við sauðfjárbændur og talaði fyrir tillögum sem fulltrúar höfðu ekki undir höndum og ekki var búið að tryggja samstöðu um málið meðal flokka á Alþingi. Við slíkar aðstæður var ljóst að ekki væri hægt að leggja tillögurnar fram á fundinum og taka afstöðu til þeirra. Ástæðan fyrir því er einföld. Sumar tillögurnar snúa að mjög afdrifaríkum ákvörðunum hjá bændum eins og að hætta búskap eða að fækka fé. Óásættanlegt er að setja bændur í þá stöðu að taka ákvarðanir er varða miklar breytingar á rekstri búa þeirra og lífsviðurværi á grundvelli einhverrar umbunar sem engin trygging er fyrir.
 
Rétt er að halda því til haga að þrátt fyrir góðan vilja til að leysa málefni sauðfjárbænda er staða landbúnaðarráðherra mjög erfið. Eftir að stjórnarsamstarfinu var slitið er mikil óvissa í íslenskum stjórnmálum og greinilega erfitt að ná samkomulagi meðal flokkanna um þau mál sem leggja eigi áherslu á. Enda greinilega flestir komnir í kosningaham. Það er engu að síður mikilvægt að reyna að finna leiðir til að ná sátt um úrlausnir fyrir sauðfjárbændur. 
 
Byggðastofnun með raunsæjar tillögur
 
Í upphafi vikunnar var ný skýrsla Byggða­stofnunar um stöðu sauðfjárframleiðslunnar birt á vef samgöngu- og sveitarstjórnaráðuneytisins. Þar eru ýmsar góðar tillögur til lausnar vanda sauðfjárræktarinnar sem ríma vel við það sem bændur hafa lagt til undanfarna mánuði í viðræðum við stjórnvöld. Auk tillagnanna er ágæt greining á því umhverfi sem sauðfjárbændur starfa í um þessar mundir, hvar framleiðslan er stunduð í landinu og umfang greinarinnar. Skýrslan var unnin að beiðni Jóns Gunnarssonar, ráðherra byggðamála. Skýrsluhöfundar leituðu víða fanga og ræddu meðal annars við forstöðumenn afurðastöðva, fulltrúa bænda og Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins. 
 
Aðgerðatillögur Byggðastofnunar eru byggðar á því mati stofnunarinnar að sauðfjárrækt sé fyrst og fremst mikilvæg í atvinnulegu tilliti á þeim svæðum sem eru fjarri þéttbýli. Það er mat skýrsluhöfunda að fækkun sauðfjár á ýmsum svæðum geti leitt til alvarlegrar byggðaröskunar og jafnvel byggðahruns. Hér er sterkt tekið til orða en staðreyndin er sú að sauðfjárrækt skipar veigamikinn sess víða um land og er mikilvægur þáttur í daglegu lífi og menningu hinna dreifðu byggða. Þó að sauðfjárræktin sé ekki sami burðarás í atvinnulífinu og hún var fyrr á árum þá er hún mikilvægt tannhjól í gangverki byggðanna.
 
Aðgerðatillögur Byggðastofnunar miðast að því að leysa þann skammtímavanda sem sauðfjárbændur standa frammi fyrir. Þar er lagt til að ríkisvaldið leggi fram fjármuni til að mæta lausafjárvanda og horft verði til byggðasjónarmiða með svæðisbundnum stuðningi. Stofnunin ræðir líka hvernig eigi að takast á við birgðavanda og mælir þar með tímabundinni útflutningsskyldu. Það er leið sem bæði bændur og sláturleyfishafar hafa mælt með en verið eitur í beinum landbúnaðarráðherra. Þá eru fleiri tillögur lagðar fram, t.d. að komið verði á stuðningi til búháttabreytinga og að bændur komi að kolefnisjöfnunarverkefnum í auknum mæli. 
 
Tillögur Byggðastofnunar eru raunsæjar og gott innlegg í umræðu um úrlausnir vegna þess vanda sem er uppi í sauðfjárræktinni. Það væri því eðlilegt að velta því upp við stjórnvöld hvort hægt væri að ná sátt um að stofnuninni væri falið að útfæra aðgerðir vegna erfiðleika í sauðfjárrækt í samráði við stjórnvöld og bændur.
 
Brýnt að ná sátt um aðgerðir sem allra fyrst
 
Fundur sauðfjárbænda sendi frá sér skýr skilaboð um hvað þarf að leggja áherslu á til lausnar á stöðunni, um það er fjallað nánar hér í blaðinu. Bændasamtökin og Landssamtök sauðfjárbænda eru hér eftir sem hingað til reiðubúin að vinna áfram með starfandi stjórnvöldum og Alþingi að framgangi þessara mála. Mjög brýnt er að ná sátt um aðgerðir sem allra fyrst enda yfirvofandi tekjumissir hjá íslenskum sauðfjárbændum algerlega fordæmalaus.
 
Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir
Skoðun 12. desember 2024

Kvenfélög styrkja hinar dreifðu byggðir

Kvenfélag Akrahrepps var stofnað 20. desember 1919 af bjartsýnum stórhuga konum.

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það
Skoðun 9. desember 2024

Kindurnar mínar kolefnisjafna sig sjálfar og ríflega það

Ég fletti Bændablaðinu eins og venjulega. Þar er síðustu misserin mikið skrifað ...

Matur handa öllum
Skoðun 12. nóvember 2024

Matur handa öllum

Nýlega hafa Eyjólfur Ingvi, formaður sauðfjárdeildar BÍ og Margrét Ágústa, framk...

Hin hliðin á peningnum
Skoðun 15. ágúst 2024

Hin hliðin á peningnum

Við þekkjum öll þann einfalda veruleika að það eru tvær hliðar á hverjum peningi...

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...