Ásólfsstaðir 1
Á Ásólfsstöðum hefur sama ætt búið síðan 1846.
Fram til ársins 1962 var þar hefðbundinn sauðfjár- og kúabúskapur og hótel um nokkurra áratuga skeið, en eftir að Skógræktin keypti hluta jarðarinnar, og restinni var skipt upp í tvö lögbýli, er sauðfjárbúskap hætt.
Síðan hefur hver kynslóð reynt sig við ýmiss konar búskap, allt eftir tíðaranda og áhuga hverju sinni.
Gamli bærinn þar sem Sigurður býr.
Býli: Ásólfsstaðir 1.
Staðsett í sveit: Skeiða- og Gnúp-verjahreppur.
Ábúendur: Jóhannes Hlynur Sigurðsson, Marie Louise Fogh Schougaard.
Sigurður Páll Ásólfsson, faðir Jóhannesar, býr í gamla bænum sem byggður var sem hótel á sínum tíma.
Fjölskyldustærð (og gæludýra): Jóhannes og Marie eiga þrjú börn; þau Jónas Ásólf, 20 ára, Önnu Birtu, 17 ára og Ástríði Sólveigu, 10 ára.
Tvö gæludýr; hundurinn Bassi og fjósakötturinn Ólafur.
Stærð jarðar? Um 100 hektarar.
Gerð bús? Holdanautgripir og hross og ferðaþjónusta á sumrin.
Fjöldi búfjár og tegundir? 20 holdakýr og þar af leiðandi um 60 nautgipir á fóðrum og 12 hross.
Hvernig gengur hefðbundinn vinnudagur fyrir sig á bænum? Það er farið á fætur um 06.30, yngsta barninu komið í skólabíl, húsfreyjan ekur til sinnar vinnu og bóndinn gefur skepnunum áður en hann fer sjálfur til vinnu. Eldri börnin eru að heiman við nám í miðri viku. Þegar vinnuskyldunni lýkur um fimm leytið er farið í gegningar og útreiðar ef veður leyfir. Yfir sumartímann lengjast dagarnir til muna, en þá þarf að þrífa gestahús, þvo og ganga frá þvotti og sjá um tjaldssvæðið í Þjórsárdal með öllu því sem tilheyrir.
Skemmtilegustu/leiðinlegustu bústörfin? Bóndanum og bóndasyninum finnst heyskapur á góðviðrisdögum skemmtilegastur, en húsfreyjunni, dætrunum og tengdaföður húsfreyjunnar þykir hestamennskan taka öðru fram. Leiðinlegast er að missa skepnur úr slysum eða veikindum.
Hvernig sjáið þið búskapinn fyrir ykkur á jörðinni eftir fimm ár? Sennilega með svipuðu sniði, vonandi með meiri afurðir og enn betri hross.
Hvar teljið þið að helstu tækifærin séu í framleiðslu íslenskra búvara? Íslenskar búvörur framleiddar í ómengaðri náttúru ættu að höfða til margra í þéttbýlli og mengaðri veröld.
Hvað er alltaf til í ísskápnum? Mjólk og ostur.
Hver er vinsælasti maturinn á heimilinu? Grilluð nautasteik.
Eftirminnilegasta atvikið við bústörfin? Þegar kvígurnar ásamt þarfanauti fældust flugelda eitt gamlárskvöld og týndust útí skógi.