Hátíð á fornu höfuðbýli
Höfundur: ÞÞ / BE
Þann 8. júlí síðastliðinn var Bustarfellsdagurinn haldinn hátíðlegur í 26. sinn á Bustarfelli í Vopnafirði.
Bustarfell er fornt höfuðbýli og í gamla torfbænum er nú minjasafn þar sem fræðast má um lifnaðarhætti í sveitinni á tímabilinu 1770–1966. Í bænum eru 25 vistarverur og er allur bærinn opinn gestum. Í honum er fastasýning og nokkrar tímabundnar sýningar sem skipt er út reglulega svo það er alltaf eitthvað nýtt að sjá.
Á Bustarfellsdaginn lifnar bærinn við og þar má sjá unga sem aldna sameinast í því að sýna gamlar verkhefðir og hafa gaman saman.
Margt fróðlegt og skemmtilegt var að sjá og heyra. Hægt var að bragða á ýmsu góðgæti víða um gamla bæinn en í boði var reykt sauða- og geitakjöt, fjallagrasamjólk, skyrhræringur, hákarl, harðfiskur og brennivín. Einnig buðu spariklæddar dömur upp á kaffi og lummur í baðstofunni.
Utandyra mátti sjá hraust fólki í heyskap og eldsmið hamra járnið af list. Einnig var krökkum boðið að fara í smá reiðtúr og dýrin í litlu dýragirðingunni glöddu unga gesti.
Kaffihúsið Hjáleigan stendur við gamla bæinn og er opið daglega á sama tíma og safnið. Á Bustarfellsdaginn bauð Hjáleigan upp á veglegt kaffihlaðborð í stóru tjaldi til að anna fjöldanum.