Að brúka bekki
Nýverið kortlagði Vestmannaeyjabær tvær gönguleiðir þar sem tryggt er að ekki sé meira en 250 metrar á milli bekkja.
Þær stöllur Ólöf A. Elíasdóttir og Anna Hulda Ingadóttir áttu frumkvæði að hugmyndinni þar í bæ, sem byggir á verkefni Félags íslenskra sjúkraþjálfara frá árinu 2010 og ber nafnið „Að brúka bekki“. Upphaflega verkefnið var unnið í samstarfi við Félag eldri borgara og gengur út á að ekki séu meira en 250 m á milli hvíldarstaða enda skortur á bekkjum oft hindrun fyrir þá sem erfitt eiga með hreyfingu, hvort sem á við eldri borgara eða þá yngri.
Gaf kvenfélagið Heimaey fimm bekki til verkefnisins auk þess sem gefnir hafa verið þrír til viðbótar, sannarlega búbót í þágu frábærs framtaks.