Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Leikkonan Gríma Kristjánsdóttir á sviðinu, en leiksýningin „Hið stórfenglega ævintýri um missi“ er hennar eigið hugarfóstur.
Leikkonan Gríma Kristjánsdóttir á sviðinu, en leiksýningin „Hið stórfenglega ævintýri um missi“ er hennar eigið hugarfóstur.
Mynd / Wikipedia
Líf og starf 26. september 2022

Að finna óvænta gleði við Tjarnarbakkann

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Tjarnarbíó sem stendur við Tjarnargötu 10D var upphaflega byggt sem íshús* árið 1913 og síðar nýtt sem frjálsíþróttahús borgarbúa.

Tjarnarbíó í allri sinni dýrð.

Árið 1942 var svo unnið ötullega að því að breyta húsinu í kvikmyndahús. Var þeirri breytingu lokið strax í ágústmánuði, og hófust fljótlega sýningar við mikinn fögnuð borgarbúa. Þótti mikið sport að spássera niður í bæ í þetta þriðja og nýjasta kvikmyndahús Reykvíkinga, en fyrstu sýningar hófust í kringum 8. ágúst. Samkvæmt Alþýðublaðinu þann 7. ágúst 1942 kemur fram að forsvarsmenn bíóhússins sáu fyrir sér að í nýja bíósalnum yrðu sýndar „fréttamyndir á daginn en aðrar myndir á kvöldin“.

Var þetta þriggja manna nefnd, tilnefnd af Háskólaráði – þeir Niels Dungal prófessor, formaður, Gunnar Thoroddsen prófessor og Jón Hjaltalín prófessor.
Framkvæmdastjóri var ekki settur, en Pétur Sigurðsson háskólaritari sá um daglegan rekstur þess, gegndi bókhalds- og gjaldkerastörfum. Í Alþýðublaðinu kom enn fremur fram að:

„Niels Dungal skýrði Alþýðublaðinu einnig svo frá í gærkveldi, að ætlunin væri að reka kvikmyndahúsið stöðugt, það er að segja mikinn hluta dagsins. Verða fréttamyndir sýndar um miðjan daginn eða fram til kl. 7, en á kvöldin verða sýndar aðrar kvikmyndir til skemmtunar og fróðleiks. Hefir stjórn kvikmyndahússins fullan hug á að vanda mjög til kvikmyndanna sem það leigir, enda hefir það þegar tryggt sér góð sambönd.

Annars mun Tjarnarbíóið leggja alla áherzlu á að fá sem mest af góðum fræðslumyndum og væri full þörf á því að meira yrði gert af því að sýna slíkar myndir en gert hefir verið til þessa.“

Hannes á Horninu ósáttur

Í sama dagblaði, þann 18. ágúst, birtist í annars spaugsömum dálki „Hannesar á Horninu“ aðfinnslur í garð brussulegrar framkomu sætavísunarstúlku, svo og hegðun bíógesta að sýningu lokinni.

„En þá hrukkum við upp við það, að harkalegt fótatak glumdi við, og sætavísunarstúlka skeiðaði þvert yfir gólfið, og reif opna fremri útidyrahurðina. Ef það er endilega nauðsynlegt, að stúlkurnar ösli svona þvert yfir gólfið, áður en myndin er búin, vildum við a.m.k. leggja til, að bíóið sæi þeim fyrir gúmmíbotnum í skósólana.“ „Annað er það líka sem okkur langar til að minnast á í sambandi við bíóin, — það er, að þegar myndinni er rétt að ljúka, þá ryðjast allflestir á fætur, eins og þeir búizt við, að húsið muni hrynja á því augnabliki, sem myndin endar, og eyðileggja gjörsamlega endirinn fyrir hinum, sem kunna þó dálítið meiri mannasiði.“

Bíóferðir voru semsé ekki endilega teknar út með sældinni. En áfram liðu árin.

Uppgerð hússins

Eftir margra áratuga gleði í salnum var kominn tími á að gera húsnæðið upp. Árið 2005 voru vangaveltur þess efnis að loka þyrfti dyrum Tjarnarbíós vegna afar lélegs ástands og sífelldum undanþágum er kom að öryggismálum. Tveimur árum síðar samþykkti svo borgarráð að ráðast skyldi í endurgerð hússins með bætta aðstöðu fyrir augum og lögð var áhersla á að varðveita skyldi að innan yfirbragð kvikmyndahússins frá 1943. Er framkvæmdir hófust árið 2008, kom í ljós hversu illa húsið var farið. Endurnýja þurfti allar fráveitulagnir, klæðning fjarlægð inn af veggjum og úr lofti auk þess sem rifið var timburgólf, leiksvið og burðarveggir. Í raun var öllu kollsteypt, rifið í sundur og endurbyggt.

Húsið í dag er því í afskaplega fínu standi, ytra sem innra og gleður gesti og gangandi bæði með leik og kvikmyndum.

Hið stórfenglega ævintýri ...

Akkúrat í dag stendur hæst sýningin „Hið stórfenglega ævintýri um missi“, en að missa ástvin er einhver sú erfiðasta, fallegasta og flóknasta lífsreynsla sem við göngum í gegnum. Í lýsingu á bandalagssíðunni, www.leiklist.is, kemur fram að um ræðir einleik, hugarfóstur Grímu Kristjánsdóttur úr leikhópnum Sjáumst, og byggir verkið á hennar eigin reynslu.

Hið stórfenglega ævintýri um missi er grátbrosleg, einlæg og drepfyndin sýning um það hvað það er sem við söknum þegar við missum ástvin. Við förum ósjálfrátt að líta til baka og gera upp fortíðina. Hverju viljum við muna eftir? Viljum við tala um hið sára og ljóta eða ætlum við bara að halda uppi fullkominni mynd af manneskjunni sem við misstum? Um það ótrúlega augnablik þegar maður áttar sig á því að ekkert skiptir meira máli en fólk, tengsl og ást.

Hægt er að kaupa miða á tix.is ogumaðgeraaðnælaséríeinn slíkan sem fyrst, enda um afbragðs tengingu við sjálfið að ræða.

*(bygging notuð sem geymsla undir ís áður en ísskápar komu til sögunnar. Ís þá m.a. skorinn úr stöðuvötnum að vetrarlagi, pakkað í hálm til einangrunar og nýttur að sumarlagi til að halda matvælum köldum.)

Skylt efni: tjarnarbíó

Hvað er í jólamatinn og af hverju?
Líf og starf 23. desember 2024

Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Spurning dagsins: Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...