Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Þótt landslagið minni mikið á íslenska sveit situr þessi yurt í Mongólíu.
Þótt landslagið minni mikið á íslenska sveit situr þessi yurt í Mongólíu.
Mynd / Aðsend
Líf og starf 14. apríl 2023

Ævintýrin gerast enn

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Hvert lífið tekur mann er óvíst að segja. Sumir una við sitt í rólegum gangi á meðan aðrir verða þátttakendur í mun æsilegri takti. Það er ekki annað hægt að segja en að þegar fyrstu skrefin eru tekin tæpum 8.000 km frá fæðingarstaðnum sé það vísun á örlítið óvanalegra líf en ella.

Kristján Bahadur Edwards óskar eftir samvinnu við landeigendur.

Kristján Bahadur Edwards fluttist yfir hafið ungur að árum með foreldrum sínum, Fjólu Ósk Bender og Jim Edwards, er föður hans bauðst starf við að veiða tígrisdýr. Má segja að lífshlaup Kristjáns sé á margan hátt ævintýralegt, en faðir hans, ásamt félaga sínum, keypti Tiger Tops veiðinýlenduna í Chitwan þjóðgarði Nepal árið 1971 eftir að hafa komist í óvænt kynni við bróður konungsins í Nepal, sem vakti með honum áhuga á því landsvæði.

Kristján, þá ársgamall, steig sín fyrstu skref í framandi landi og varð snemma altalandi á nepalskri tungu. Átta ára gamall skildu leiðir foreldra hans og var hann sendur til náms við heimavistarskóla á breskri grund þar sem hann lauk skólagöngu sinni, útskrifaður úr háskóla í Skotlandi. Eftir skilnaðinn fluttust móðir hans og ung systir aftur til Íslands en æviskeið Kristjáns í Nepal var rétt að byrja.

Fyrstu skrefin

Þótt Tiger Tops hafi í fyrstu verið þekkt sem nafn veiðiskála á svæði Chitwan í Nepal, umbreytti Jim, faðir Kristjáns, í samstarfi við bróður sinn, John, og félaga sinn, bandaríska vistfræðinginn Chuck McDougal, fljótlega þeirri hugmynd og hóf rekstur vistvænnar ferðaþjónustu. Tekið var fyrir allar veiðar og áhersla lögð á skoðunarferðir dýralífs, hægt var að sitja fíla og gista á staðnum.

Jim Edwards var vel tengdur maður og nýtti sér það er hann sannfærði nepölsk stjórnvöld um að breyta 360 ferkílómetra svæði Chitwan, þar sem skálinn var staðsettur, í þjóðgarð árið 1973. Félagarnir létu ekki þar við sitja og komu meðal annars á fyrsta langtímaeftirliti með tígrisdýrum sem enn er starfrækt í dag, aðstoðuðu við að liðsinna krókódílum í útrýmingarhættu og komu á fót styrktarsjóðnum International Trust for Nature Conservation (ITNC), sem miðaði að því að vernda heimshluta þar sem dýralífi er ógnað af athöfnum manna – þá með mikilli áherslu á verkefni í Nepal.

Árið 2016 var svo tekin sú ákvörðun að hætta öllum ferðum þar sem gestir sátu á fílum og þess í stað hefur gestum verið boðið að fara í gönguferðir með þeim. Settir voru upp sérstakir garðar ætlaðir fílunum og þeim veitt meira sjálfræði og frelsi enda eigendur Tiger Tops brautryðjendur í velferð fíla.

Í dag, fimmtíu árum síðar, hefur hún heldur betur aukist að umsvifum. Meðal annars hafa verið byggð þó nokkur gistihús til viðbótar. Þar má nefna Karnali Lodge, Tharu Lodge, Elephant Camps og Tiger Mountain Lodge, þar sem náttúruverndarvitund er efld á allan þann hátt sem hægt er.

Fylgir öll starfsemi undir nafni Tiger Tops skýrri umhverfisstefnu sem miðar að því að draga úr kolefnissporum og vernda umhverfið. Notast er við sólarorku, lífræna ræktun grænmetis til neyslu og útvistun fer fram eins staðbundið og hægt er. Öll smíði húsnæðis og þess sem til fellur er þannig í höndum innfæddra, auk þess sem samstarf ríkir meðal þorpsbúa og forsvarsmanna Tiger Tops er kemur að félagslegri og efnahagslegri valdeflingu.

Vel er stutt við varðveislu menningar og rekinn er skóli fyrir þau börn á svæðinu sem illa eru sett.

Nýfæddur fílsungi á svæði Tiger Tops, nefndur Kailash Prasad.

Ævintýralegur munaður og umhverfismeðvitund

Augljóst er að Kristján, sem sá um rekstur Tiger Tops samhliða föður sínum, er enginn nýgræðingur þegar kemur að því að hafa yfirsýn yfir vel rekið fyrirtæki.

Fyrir fimm árum síðan fékk hann bróður sinn til liðs við sig, en faðir þeirra lést árið 2009. Kristján hefur því í dag frjálsari hendur er kemur að því að sinna öðrum hlutum og hefur þráin til Íslands oftar en ekki blundað innra með honum. Hann hefur í nokkurn tíma velt því fyrir sér hvort hérlendis væri ekki hægt að setja upp lúxusgistiaðstöðu í mongólskum tjöldum, þá yurt – eða ger eins og þau heita á mongólsku, en Kristján kynntist töfrum Mongólíu fyrst árið 1997. Leist honum svo vel á að hann heimsótti landið árlega næstu sjö árin yfir sumartímann.

„Ég fékk þessa hugmynd að gaman væri að setja upp mongólsk tjöld á Íslandi, þá á óbyggðum landsvæðum. Í Mongólíu getur hitastigið farið niður í -40 að vetrarlagi og tjöld þeirrar þjóðar gætu því alveg eins hentað vel á Íslandi. Þar er reyndar lítið um að fólk eigi landsvæði svona sérstaklega, heldur fylgja heimamenn geitum sem þefa upp grösug landsvæði, hentug til að setja upp tjöld. Nota bene, fólki er ráðlagt að elta geitur, ekki kindurnar, „því komið hefur í ljós að vitsmunir þeirra bjóða ekki upp á grösugar lendur, heldur oftast þvert á móti,“ segir Kristján glottandi.

Falleg gistiaðstaða.

„Tjöldin sem um ræðir fara vel með umhverfið, eru notaleg og afar skjólgóð, en hátt er til lofts, vítt til veggja og flokkast gisting í þeim á allan hátt undir það sem kalla mætti ævintýralegan munað. Þau eru kringlótt og því þarf að byggja kringlóttan pall undir hvert og eitt. Kamína er í hverju tjaldi, þannig útbúið að rör komi upp úr loftinu sem hleypir reyknum út. Innan við tjalddúkinn er svo ullarfelt sem heldur hitanum inni og hægt er að setja segl yfir til að halda rigningunni úti. Er tjaldið stöðugt enda vel fest.“

Kristján festi nýverið kaup á fimm afar rúmgóðum tjöldum, 6,7 metra í þvermál, sem henta vel undir rúm fyrir fjóra gesti. Ef fólk kysi einhverra hluta vegna að sofa fremur á gólfinu kæmust a.m.k. 10 manns fyrir. Til viðbótar keypti hann minni tjöld sem þjóna tilgangi salernis, tengjast þá þeim stærri og gerir gestum kleift að ganga á milli án þess að þurfa að fara út fyrir.

Kristján festi einnig kaup á tjaldi ætluðu undir veitingaaðstöðu, tæplega níu metra stóru að þvermáli og nýtist því vel sem matsalur. Kristján vill bjóða upp á hágæðaferðaþjónustu með áherslu á lágt kolefnisspor. Sér hann fyrir sér að hafa ekki gestina of marga enda ekki um almennt tjaldstæði að ræða, heldur fremur það sem mætti kalla lúxusupplifun.

Hátt er til lofts, vítt til veggja og umhverfið allt ævintýralegur munaður.

Það er að sjálfsögðu baðaðstaða í yurtum, vel kynt og notaleg.

Þó nokkur fjöldi fólks rúmast vel í einu tjaldi.

Landeigendur athugið

„Mér þætti gaman að komast í samband og jafnvel samvinnu við landeigendur þar sem hægt r að nálgast rennandi vatn, jafnvel rafmagn og gjarnan þá sem til dæmis eiga hesta, standa í fjárbúskap eða hafa aðgang að heitum uppsprettum, laugum eða veiðiám. Leigja þá landsvæði undir húsakostinn, sem er framandi en bæði spennandi og hentugur íslenskum aðstæðum.“

Kristján leggur ríka áherslu á að fara vel með það landsvæði sem yrði nýtt undir starfsemina enda virðing fyrir umhverfinu honum hjartans mál og kemur það sterklega fram í öllu því sem hann hefur byggt upp og staðið fyrir í gegnum árin.

Þeir sem hafa áhuga mega senda honum línu á netfanginu Kristjan.edwards@tigertops.com eða hafa samband við höfund greinar.

Æ fleiri ferða- og heimamenn vilja njóta þess munaðar að heimsækja staði sem bjóða upp á umhverfisvæna ferðaþjónustu. Þá ekki síst vitandi að bak við fyrirtæki slíkrar þjónustu stendur nafn meðvitaðrar umhverfisvitundar.

Gaman er að líta á vefsíðu fjölskyldufyrirtækis Kristjáns www.tigertops.com enda lofsvert framtak í þágu heimsins.

Enn skemmtilegra verður að fá að fylgjast með velgengni hans á íslenskri grund, en án efa fer hér maður með skýra sýn á markmið sitt.

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...