Afslöppun, friðsæld og fegurð
Ferðaskrifstofan Travel East Iceland býður í sumar upp á lúxus gönguferðir í Borgarfirði eystri í samstarfi við Ferðaþjónustuna Álfheima. Boðið er upp á þriggja og fimm daga ferðir þar sem dvalið er á hóteli Álfheima. Auk þess sem boðið er upp á dagsferðir.
Arngrímur Viðar Ásgeirsson, skipuleggjandi ferðanna, segir að ferðirnar séu hugsaðar með þarfir ferðaþyrstra Íslendinga í huga. „Það er mikil aðsókn. Við erum komin með um 60 bókanir, en það er nóg laust því við erum með um 30 brottfarir frá 20. júní fram í miðjan ágúst. Eins og víða annars staðar hurfu allar erlendar bókanir út vegna COVD-19 og því nóg pláss fyrir Íslendinga á hótelinu sem er með 32 herbergi.“
Úr Stórurð.
Víknaslóðir
„Dagsferðirnar eru um Víknaslóðir sem er þekkt göngusvæði frá Héraðsflóa til Seyðisfjarðar. Við einbeitum okkur að norðurhlutanum með Stórurð, Stapavík, Brúnavík, Breiðavík og Dimmadal undir Dyrfjöllum, en þar sem fjölbreytnin á svæðinu er mikil er af nógu að taka og sveigjanleikinn mikill þegar dvalið er á sama næturstað allan tímann.“
12 til 18 kílómetra gönguleiðir
Arngrímur segir að gönguleiðirnar séu valdar í samráði við heimamenn og að þær séu allar greiðfærar og 12 til 18 kílómetra langar. Hann segir að bætt hafi verið úr öllum aðbúnaði og þjónustu við ferðamenn á Borgarfirði eystri undanfarin ár. „Uppbygging í gistingu og veitingum hefur verið mikil. Komin er góð aðstaða til að slaka á eftir göngudaga í heitum pottum og gufubaði í Musteri Spa og þá má ekki gleyma því að búið er að malbika veginn um Njarðvíkurskriður og verið að ljúka við malbik á Vatnsskarði eystri, fjallvegi Borgfirðinga.
Gistiaðstaðan á Álfheimum sveitahóteli.
Þá hafa einhverjir verið að grínast með það að fyrir Íslendinga sem vilja fara í langferð þá sé Borgarfjörður eystri málið því lengra er ekki hægt að komast frá suðvesturhorninu í kílómetrum. Þetta er um 10 tíma ferðalag ef það á að fara á einum degi.
Friðsæld og fegurð
Að sögn Arngríms hefur Borgarfjörður eystri notið aukinna vinsælda síðustu ár, bæði meðal Íslendinga og erlendra ferðamanna og margir sækja í lundann en ekki síður friðsældina og fegurð staðarins.
Nánari upplýsingar um ferðir Travel East Iceland má finna á www.ferdasumar.is og upplýsingar um Borgarfjörð eystri og gönguleiðir á www.borgarfjordureystri.is.
„Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að taka líka bæjarrölt og skoða litla sjávarþorpið Bakkagerði, vitja álfanna í Álfaborg og kíkja á Kjarval í Kirkjunni. Þá eru fjórir veitingastaðir í þorpinu og vonandi verður lifandi tónlist þar að finna þegar líður á sumarið,“ segir Arngrímur að lokum.