Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Björgvin og Peta koma að öllum verkum svínakjötsins, allt frá fóðuröflun upp í sölu á afurðum. Hér eru þau að pakka beikoni í umbúðir.
Björgvin og Peta koma að öllum verkum svínakjötsins, allt frá fóðuröflun upp í sölu á afurðum. Hér eru þau að pakka beikoni í umbúðir.
Mynd / BR
Líf og starf 20. ágúst 2018

Allt frá fræi til flatböku

Höfundur: Bjarni Rúnars
Hjónin Petrína Þórunn Jónsdóttir og Björgvin Þór Harðarson opnuðu nú í sumar kjötvinnslu í Árnesi í Skeiða- og Gnúp­verjahreppi undir merkinu Korn­grís. Þau hafa lengi gengið með þann draum að geta verkað eigin afurðir og selt neytendum beint. Nú sé draumurinn loksins að rætast. Þau sjái nú um allt ferli afurðanna, allt frá fóð­urframleiðslu og upp á disk neytenda.
 
Hægt er að kaupa vörur frá Korngrís ásamt öðru ljúfmeti frá öðrum bændum í kjötvinnslu þeirra í Árnesi. 
 
Hefst allt í fræinu
 
Björgvin og Petrína, sem alltaf er kölluð Peta, stunda svínabúskap í Laxárdal í sömu sveit ásamt foreldrum Björgvins, þeim Maríu Guðnýju Guðnadóttur og Herði Harðarsyni. Hörður og Guðný hafa stundað svínabúskap allt frá árinu 1978, en Björgvin og Peta komu inn í búskapinn árið 2001. Þau búa nú með 160 gyltur. Glöggt er gests augað, segir máltækið. Þegar Peta kom fyrst í Laxárdal talaði hún strax um það við fjölskylduna að sérstaða bæjarins væri það sem ætti að byggja á. Bærinn er aðeins rekinn af fjölskyldunni, hann er talsvert einangraður frá annarri byggð og því væri tækifæri fólgið í því að markaðssetja sig með þeim hætti. Tíðarandinn í samfélaginu hafi breyst í þessa átt undanfarin ár. Neytendur gera auknar kröfur um uppruna, og aðferðir við meðhöndlun matvæla.
 
Horft heim að Laxárdal. Á bænum hefur verið stunduð svínarækt allt frá árinu 1978. 
 
Ekkert aukadót í kjötið
 
Í vinnslusalnum eru ýmis tæki og tól til vinnslu á kjöti. Tækin keyptu þau úr vinnslu sem hætti starfsemi. Vinnslunni er skipt í tvö hólf, í öðru er iðnaðareldhús og aðstaða til baksturs og undirbúnings fyrir Pizzavagninn, og í hinu rýminu er kjötvinnslan, kælir og frystir og kjötborðið þar sem gestir geta keypt kræsingar beint frá framleiðendunum. Til stendur að setja upp tvo reykofna í beinu framhaldi, en til þess þarf að byggja við, plássið sé nú þegar á þrotum.
Sérstaða Korngríssins liggur fyrst og fremst í fóðruninni, að íslenskt hráefni sé notað í fóðurblönduna. Í kjötvinnslunni er leitast við að hafa sem allra minnst af aukaefnum í kjötinu. Skinkan er t.a.m. aðeins söltuð og án bragð- og litarefna. Beikonið er aðeins þykkara en gerist og gengur og jafnvel skorið eftir þörfum og óskum viðskiptavina. Reynt er að halda vörum eins hreinum og kostur er.
 
Sjálfvirkur skurðarhnífur sneiðir niður beikon og aðrar vörur frá Korngrís.
 
Heimagert fóður
 
Í kringum aldamótin fóru bændurnir í Laxárdal að gera tilraunir með að rækta bygg og nota í fóðurblöndu svínanna. Árið 2007 var sú tilraun færð yfir á annað stig þegar þau leigðu 200 hektara í Gunnarsholti þar sem þau rækta bygg, hveiti og repju.  Stærstur hluti ræktunarinnar er undir byggi, en síðustu ár hafa verið gerðar tilraunir með repju. Heildarmagn fóðurs sem framleitt var á árinu 2017 voru um 750 tonn, þar af um 50–60 tonn af repju og hveitið um 20 tonn. Bygg er langstærsti hlutinn, um 650–700 tonn. Yrkin sem notuð eru mest í bygginu séu Filipa, Kría og Augusti en meðvitað er reynt að fækka yrkjum.
 
Kornræktin í Gunnarsholti er umfangsmikil. Þar rækta bændurnir í Laxárdal stærstan hluta af sínu fóðri. 
 
Blandan borgar sig
 
Björgvin segir þessa ræktun vera hagkvæma og hafi, þrátt fyrir sveiflur á heimsmarkaðsverði byggs, borgað sig nánast öll árin. Árin 2013 og 2014 hafi nánast verið á núlli, en þar hafi farið saman lágt heimsmarkaðsverð og léleg uppskera. Hann segir að það séu ekki mörg svínabú í Evrópu sem nota heila repju í fóðurblöndu. Flestir pressi olíuna úr repjunni og noti hana en þau viti ekki til þess að aðrir séu að nota repjuna með þessum hætti. Einhver dæmi séu um notkun á repju í Bandaríkjunum og Kanada. Yrkið sem Björgvin sáir er sumaryrki, sem er bragðmildara en vetraryrkin sem notuð eru í Evrópu. Því hafi repjan ekki áhrif á lystugleika fóðursins nema til hins betra. Eina innihald blöndunnar sem sé aðkeypt sé soja, til að fá prótein. Gæði fóðursins segir Björgvin að sé alveg á pari við aðkeypt fóður. Með því að úða akrana gegn augnflekk og nota fljótandi áburð með steinefnum hafi tekist með ágætum að auka fyllingu kornsins. Helst vanti aðeins upp á próteingildi en gott sé að blanda saman repju og byggi. Þannig fáist gott jafnvægi á orku og próteini.
Í Gunnarsholti hafa þau Björgvin og Peta verið að rækta korn og hveiti til manneldis og stefna á að nota það í pitsubotna í framtíðinni. Einnig er stefnt að því að nota kornið í rasp utan um snitsel og selja neytendum byggmjöl og hveiti.
 
 
Óvissa í greininni
 
Svínabændur eru uggandi vegna aukins innflutnings á erlendu kjöti og velta fyrir sér framtíð innlends landbúnaðar. Krafa um innflutning verður æ háværari og eru verðöflin ansi sterk á þeim vettvangi. Björgvin hefur þungar áhyggjur af slíkum fyrirheitum.
„Við erum ekki að keppa á sama grundvelli, heldur við vöru sem er framleidd með bunka af sýklalyfjum með fóðurverði sem er niðri í gólfinu, laun eru miklu lægri og fleira. Þá er stór hluti lægri vextir en hér þekkist.“ 
Hann segir að fjármagns­kostnaður hér sé talsvert meiri en gerist og gengur í nágrannalöndunum. Svínabú geti ekki skuldað nærri því eins margfalda veltu og kúabú til að mynda. Þau ættu að geta skuldað u.þ.b. sexfalda veltu en svínabú ræður rétt svo við hálfa ársveltu.
Víða í Evrópu séu bændur styrktir til umbóta í samræmi við auknar kröfur um dýravelferð, allt upp undir 30–40% af fjárfestingu. Slíkur styrkur hafi virkilega vigt í fjármögnun og ýti við bændum til framkvæmda. Regluverkið hér sé þannig uppbyggt að enginn viti fyrirfram hvað hann fái út úr styrkumsóknum, því það ráðist af því hversu margir sæki um og úr hversu miklum fjármunum er að spila.
 
Pizzavagninn flakkar um  uppsveitir Árnessýslu og býður upp á rjúkandi flatböku.
 
Pizzavagninn að verða 15 ára
 
Samhliða svínaræktinni og kjöt­vinnslunni hafa þau hjónin keyrt um uppsveitir Árnessýslu með Pizzavagninn í eftirdragi og selt pitsur í þéttbýliskjörnum og á mannamótum frá árinu 2004. Nýja aðstaðan kemur sér einkar vel fyrir rekstur hans, og auðveldar allan undirbúning og vinnslu til mikilla muna. Leitast er við að hafa sem mest af hráefninu sem notað er í Pizzavagninum úr eigin framleiðslu eða úr nærsamfélaginu.
„Við náttúrlega búum til okkar eigið pepperoni, skinku og beikon. Við kaupum svo nautahakk af bændunum hérna í kringum okkur og svo auðvitað grænmetið á Flúðum. Það er frábært að hafa aðgengi að því, alltaf ferskt og gott grænmeti.“ 
Þau segja jafnframt að forsenda þess að geta rekið svona vagn sé hversu stutt sé á milli bæjarfélaga í uppsveitum og telja að fólk kunni vel að meta tilvist hans.

 

6 myndir:

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...