Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Bændurnir Eygló Björk Ólafsdóttir og Eymundur Magnússon í Vallanesi á Fljótsdalshéraði eru svo sannarlega að stíga hringrásarhagkerfissporið til fulls á bænum með því að taka í notkun nýjan brennsluofn fyrir viðarperlur og -kurl sem mun hita allan húsakost á bænum.
Bændurnir Eygló Björk Ólafsdóttir og Eymundur Magnússon í Vallanesi á Fljótsdalshéraði eru svo sannarlega að stíga hringrásarhagkerfissporið til fulls á bænum með því að taka í notkun nýjan brennsluofn fyrir viðarperlur og -kurl sem mun hita allan húsakost á bænum.
Mynd / ehg
Líf og starf 28. september 2022

Allur húsakostur hitaður upp með afurð úr eigin skógi

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir

Þessa dagana eru merk tímamót í orkuskiptum hjá bændum að eiga sér stað í Vallanesi á Fljótsdalshéraði hjá Eymundi Magnússyni og Eygló Björk Ólafsdóttur.

Vonandi verður skref bændanna í Vallanesi hvatning fyrir aðra bændur, sérstaklega þeirra sem búa á köldum svæðum, í að nýta afurðir úr eigin skógi til orkuskipta.

Eftir að hafa tekið nýjan brennsluofn í notkun fyrir viðarkurl og -perlur verður allur húsakostur á bænum hitaður upp ásamt korn úr ræktuninni þurrkað með trjám úr eigin skógi á jörðinni. Hjónin Eymundur og Eygló Björk hafa verið í orkuskiptaáætlun í nokkurn tíma og eftir að þau fengu úthlutað styrk úr Orkusjóði og komust í samstarf við Tandrabretti á Reyðarfirði fóru hjólin að snúast og segja má að nú loki þau hringrásinni með því að hita allan húsakost, þurrka eigið bygg og annað korn ásamt því að spara töluverðan rafmagnskostnað með afurðum úr eigin skógi.

„Við höfum plantað um einni milljón trjáa og erum nú með samning við Skógræktina sem grisjar skóginn og það sem fellur til verður efniviður fyrir Tandrabretti á Reyðarfirði sem framleiða viðarperlur úr hráefninu.

Það er algjör forsenda að skógurinn haldi áfram að vaxa og binda kolefni og viðhalda skóginum. Verkefnið í heild sinni á svo vel við á Austurlandi sem er vagga skógræktar hérlendis og kalt svæði þar að auki,“ útskýrir Eymundur.

Kornþurrkun með eigin orku

Hjónin segja að nú séu skógar á Austurlandi komnir í fyrstu grisjun en þau hafa um tíma gert eigið kurl sem þau hafa meðal annars notað í göngustíga á jörðinni.

„Þetta er auðvitað eina vitið á svona köldum svæðum þar sem hitaveita stendur ekki til boða.

Húshitun fer í gang á næstu dögum og næsta vor bætast svo ylræktarhúsin við og þar munum við vinna með tegundir sem þurfa jafnt og gott hitastig. Þetta er nýtt ræktunarform fyrir okkur en hingað til höfum við fyrst og fremst verið í útiræktun svo við erum mjög spennt fyrir þessari viðbót,“ segir Eygló Björk og Eymundur bætir við, „við erum með eina hreyfanlega stöð í hlöðunni til að þurrka kornið.

Nú hefjum við kornþurrkun í haust í fyrsta sinn með eigin orku svo það er mjög spennandi að sjá hvernig það gengur í stað þess að nota dísilolíu til verksins. Síðan munum við nota hitann sem kemur frá frystunum og kælunum sem við erum með í varmaskipti. Það er vatnskerfi í íbúðarhúsunum okkar og á veitingastaðnum en það verður ekki á sama kerfi og hin húsin.

Viðarperlur (wood pellets) eru mikið nýttar í Evrópu til kyndingar og henta mjög vel til þess. Þar að auki eru þær kolefnishlutlausar þar sem skógurinn batt kolefnið í vexti og notkun þeirra stuðlar að nýtingu á afgangsviði.

Við getum einnig forhitað neysluvatnið inn í túpuna með varmaskiptum en rafmagnstúpan sem er inni hjá okkur núna þarf minna eftir þetta og því erum við í leiðinni að spara rafmagn. Núna fáum við inn þessa nýju tækni sem felast í ofnunum sem brenna perlur. Þetta er mun öruggara flæði og kerfi en hefur áður verið notað og það kemur nánast reyklaus eldur úr þessu og sáralítil aska. Þetta er mikil bylting og mjög spennandi verkefni í alla staði.“

Þarf breytingar á styrkjakerfinu

Eygló Björk er formaður VOR – Verndun og ræktun, sem er félag lífrænna ræktenda á Íslandi, en hún segir félagið hafa lagt fram tillögur um breytingar á styrkjakerfinu til að gera þessa grein landbúnaðar samkeppnishæfari og til að nýliðun geti átt sér stað í meira mæli en nú.

„Við þurfum að sjá breytingar á styrkjakerfinu, sem er mjög mikilvægt, en við í VOR höfum rýnt í kerfið og höfum mótaðar hugmyndir um hvernig megi koma hlutum á hreyfingu og við treystum því að ráðherra og ríkisstjórnin standi við það sem áður hefur verið fyrirhugað, að gera aðgerðaráætlun um lífrænan landbúnað. Stjórnvöld þurfa að gefa tóninn um að koma hlutum á meiri hreyfingu,“ útskýrir Eygló Björk.

„Til langs tíma þarf að veita meiri stuðning þannig að lífrænn landbúnaður geti blómstrað eins og þessi atvinnugrein á skilið. Það er oft meiri handavinna og jarðvinnsla í lífrænum landbúnaði sem felur í sér meiri vinnu og kostnað sem oft er bættur upp með álagi á stuðningsgreiðslur. Þessu höfum við mælt með, einnig er t.d. húsakostur í búfjárrækt rýmri og bæta þarf geymslu og nýtingu á lífrænum áburði. Í lífrænni ræktun erlendis, s.s. í garðyrkju og akuryrkju, er notast við nýjustu tækni og vélar sem hannaðar eru til jarðvinnslu án eiturefna.

Við höfum lagt mikla áherslu á vel skilgreindan tækjastuðning til þess að slíkar lausnir séu gerðar aðgengilegri hér á landi. Þar erum við eftirbátar miðað við nágrannalöndin sem þarf að laga. Þetta er nútímaleg grein þar sem búið er að þróa alls kyns tæki til að stunda nútíma jarðrækt. Annað eru vottunargjöldin sem þarf að borga fyrir fullu gjaldi en víða annars staðar er það ríkisstyrkt sem dæmi.

Þetta getur verið einn þáttur í að hafa það meira aðlaðandi fyrir bændur að koma nýir inn en einnig fyrir þá sem fyrir eru að þröskuldurinn sé ekki alveg í byrjun.“

Vottuð sláturhús í hvern landsfjórðung

„Ef menn ætla virkilega að fást við áskoranir í dag þá þarf að koma bændum frá tilbúnum áburði yfir í aðrar lausnir eða framleiðslu hérlendis sem vinnur að hringrásarkerfi. Þá þarf að nýta tækifærið núna og ekki verra að auka verðmætasköpun í leiðinni með fleiri vottuðum afurðum. Heildin hlýtur að standa betur eftir á og þó þetta væri ekki nema til að ná lífrænni ræktun upp í 5 prósent ræktarlands til að geta verið væn sneið og sterkari í samkeppni við innflutta vöru. En til þess að sjá breytingar þarf fyrst samtalið og beina fjármagni inn á þessar brautir með breytingum á stuðningskerfinu,“ segir Eygló Björk og bætir við:

„Við finnum fyrir miklum meðbyr með lífrænum vörum hérlendis og neytendur eru mjög jákvæðir. Það varð sýnileg aukning í heimsfaraldrinum og framleiðsluvörum hefur fjölgað jafnt og þétt. Það hefur verið örlítil endurnýjun í sauðfjárrækt en hún er hægfara og ræðst það sennilega að hluta til af skorti á vottuðum sláturhúsum hérlendis. Það er þó markmið okkar í félaginu að koma upp vottuðum sláturhúsum í hverjum landsfjórðungi. Einnig hefur verið aukning í lífrænni garðyrkju og lífrænum eggjum hefur verið vel tekið. Þar að auki er komið lífrænt nautakjöt á markað svo flóran er alltaf að aukast.“

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...