Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Arnar Árnason kjörinn formaður Landssambands kúabænda
Líf og starf 18. apríl 2016

Arnar Árnason kjörinn formaður Landssambands kúabænda

Höfundur: Vilmundur Hansen

Arnar Árnason, bóndi á Hrana­stöðum í Eyjafirði, var kjörinn formaður Landssambands kúabænda á aðalfundi sambandsins 1. apríl síðastliðinn. Hann hlakkar til að takast á við væntanleg verkefni og segist ekki eiga von á öðru en að þau verði spennandi og skemmtileg.

Að sögn Arnars sat hann aðalfund LK í fyrsta sinn á þessu ári og ákvað að fara alla leið og bjóða sig fram til formanns. Þrátt fyrir að hann hafi ekki tekið þátt í félagsstarfi bænda á landsvísu áður er hann þaulkunnugur sveitarstjórnarmálum. Hann var í sveitarstjórn Eyjafjarðasveitar í tólf ár og þar af oddviti í átta ár.

Búvörusamningurinn stærsta verkefnið

„Stærsta verkefnið sem bíður mín og Landssambands kúabænda er að sjá búvörusamningana fara í gegnum þingið og fylgja eftir þeim breytingum sem þarf að gera í kjölfar þess. Við þurfum einnig að skoða vel endurskoðunarákvæðin sem eru í samningnum því árið 2019 þurfa bændur að greiða atkvæði um framleiðslustýringu í mjólkurframleiðslu.

Eins og málin líta út í dag er ég hlynntur framleiðslustýringu á mjólk og í mínum huga er hún nauðsynleg. Ég tel óþarfa að lenda í því sama og mörg lönd í Evrópu þar sem mjólkurframleiðsla hefur verið gefin frjáls og útkoman er mikil offramleiðsla sem ekki sér fyrir endann á.

Mjólkurframleiðsla í Evrópu­sambandinu var gefin frjáls fyrir nokkru og í kjölfar þess jókst framleiðslan mikið. Markaðurinn dróst aftur á móti gríðarlega saman í kjölfar innflutningsbanns Rússa á evrópskum vörum og samdráttar á Kínamarkaði. Afleiðing þessa í dag er gríðarlegt umframmagn af mjólk í Evrópu og lækkað afurðaverð sem er engum til framdráttar.

Það hefur enginn sýnt fram á að svipað geti ekki gerst hér á landi verði framleiðsla gefin frjáls. Sjálfan langar mig ekki að slíkt gerist hér og menn átti sig á því eftir á. Við þurfum því að ígrunda málið vel og vanda vel allar ákvarðanatökur í ljósi þess hvernig við viljum að greinin þróist.“

Hóf búskap árið 2001 ásamt eiginkonu sinni

Arnar og eiginkona hans, Ásta Arn­björg Pétursdóttir, hófu búskap á Hranastöðum árið 2001. Foreldrar Ástu ákváðu að bregða búi í kjölfar mikilla veikinda föður hennar og úr varð að þau ákváðu að slá frekara námi á frest og reyna fyrir sér í búskap enda bæði búfræðingar frá Hvanneyri.

„Við vorum búin að búa í Reykjavík í sex ár og leggja stund á nám en sveitin togaði alltaf. Ég vann flest sumur á Hranastöðum meðan á námi stóð. Á námstímanum í Reykjavík eignuðumst við tvö börn og okkur þótti hugmyndin um að ala þau upp í sveitinni heillandi. Við ákváðum að prófa að búa í tvö ár og hætta svo bara ef okkur líkaði ekki, en við erum hér enn eftir fimmtán ár og líkar stórvel.“

Þegar Arnar og Ásta tóku við Hranastöðum taldi búið fimmtíu mjólkandi kýr en í dag eru þær liðlega eitt hundrað auk þess sem þar eru um hundrað kvígur. Arnar segir að þeim hafi tekist að auka gripafjöldann með því að gera breytingar á húsnæði og því enn sem komið er ekki þurft að byggja ný hús. Fjósið er lausagöngufjós með tveimur mjaltaþjónum.

Ímyndarmál mér hjartfólgin

„Ímyndarmál landbúnaðarins eru mér  hjartfólgin og margt sem þarf að gera til að bæta þau. Bilið milli íbúa í þéttbýli og dreifbýli er alltaf að aukast eins og sást glöggt þegar Landssamband kúabænda var með kálfa- og kúasýningu í Smáralind fyrir skemmstu. Viðbrögð margra komu satt best að segja verulega á óvart og lögreglan var meira að segja kölluð á staðinn og til stóð að kæra LK fyrir dýraníð. Kálfarnir voru til sýnis inni í verslunarmiðstöðinni en kýrnar úti á plani og því haldið fram að kálfarnir væru hræddir og einhver varð reiður yfir því að þeir væru aðskildir frá kúnum, eða foreldrum sínum, eins og það var orðað og kallað dýraníð.

Að mínu mat er ekki hægt að leysa svona mál nema með fræðslu og stefna LK er að auka hana og leggja sitt af mörkum til að brúa það bil sem myndast óneitanlega þegar tengingin við sveitina hverfur. Við þurfum að bæta aðgengi almennings að sveitum landsins og það hafa verið í gangi ýmis verk­efni á vegum BÍ og búgreinafélaga í landinu þar að lútandi og má þar nefna verkefni eins og „dagur með bónda“.“

Framtíð kúabúskapar björt

Arnar segir að framtíð kúabúskapar á Íslandi sé björt að sínu mati. „Ég geri ráð fyrir að greinin eigi eftir að halda áfram að þróast eins og hún hefur gert á síðustu áratugum. Þegar ég var í bændaskólanum árið 1992 var framleiðslan á meðalkúabúi um 77 þúsund lítrar en í dag er hún um 280 þúsund lítrar. Það er reyndar alveg sama hvar er gripið niður, það hafa orðið framfarir á öllum sviðum, hvort sem það eru tækniframfarir, afurðamagn, bústærð eða fóðuröflun og það sér ekki enn fyrir endann á henni.
Meðalnyt kýr hefur aukist úr því að vera tæpir 4.000 lítrar í kringum 1990 í 5.800 lítra í dag.“

Helmingur fjósa stenst ekki aðbúnaðarreglugerð eftir 20 ár

„Alls 300 fjós af 600 í landinu verða ólögleg í þeirri mynd sem þau eru í dag eftir tuttugu ár. Það er að segja, það má ekki framleiða í þeim mjólk samkvæmt reglum um aðbúnað. Áhrifa nýju aðbúnaðarreglugerðarinnar fer að gæta strax í haust.

Eðli málsins samkvæmt verður fjöldi kúabænda að gera upp við sig hvort þeir ætla að halda áfram í búskap og fara í nauðsynlega uppbyggingu. Velji menn þá leið koma þeir til með að byggja stærri fjós en þau sem er verið að afleggja og þróunin verður því áfram í þá átt að búin koma til með að stækka séu þau byggð upp.“

Þurfum ekki nýtt mjólkurkúakyn

„Það helsta sem er að gerast í ræktunarmálum í dag er svokölluð GEO-selection sem er val á undaneldisgripum á grunni erfðamengis dýranna. Tæknin mun koma til með að hraða ræktunarstarfinu mikið og líklega tvöfalda það á fáum árum. Reksturinn á nautastöðinni á eftir að breytast mikið og undaneldisnaut munu koma mun fyrr í notkun en í dag.

Gangi þetta eftir munu kynbætur á íslenska kúakyninu verða miklar á næstu árum. Kýrnar á nythæsta kúabúinu í dag eru að skila töluvert yfir átta þúsund lítrum á kú og það magn á örugglega eftir að aukast.
Mín skoðun er sú að við eigum að leggja áherslu á að bæta það kyn sem við höfum í landinu en ekki flytja inn nýtt til að auka framleiðsluna.“

Útflutningur á mjólk erfiður í dag

Aðspurður segir Arnar að útflutningur á mjólk sé vandasamur. Við þurfum að leggja áherslu á að ná inn á verðháa markaði til að ná þeim skilaverðum sem við þurfum. Það liggur í augum uppi að útflutningur í stórum stíl á ódýrum vörum sem nóg er til af í Evrópu, eins og osti og dufti, er algerlega óraunhæfur eins og staðan er í dag. Skilaverð til bænda með þessum útflutningi er 20 til 25 krónur fyrir lítrann en breytilegur kostnaður í íslenskri mjólkurframleiðslu er tæpar 60 krónur á lítra. Það er neyðarbrauð að flytja út á slíku verði og væri að sjálfsögðu ekki gert ef ekki væri um offramleiðslu að ræða.

Við komum sennilega ekki til með að keppa við önnur Evrópulönd í framleiðslumagni. Lega landsins og ólík búfjárkyn sníða okkur þann stakk en sérstaða okkar með kúakynið og fóðuröflun er nokkuð sem ég trúi að eigi eftir að gefa okkur forskot í framtíðinni, framtíð sem krefst sérstöðu og heilnæmis.

Eins og áður segir á útflutningur á verðháa markaði fullan rétt á sér og við verðum alltaf að gæta okkur á því að framleiða nokkuð fram yfir innanlandsneyslu svo við getum þreifað fyrir okkur erlendis.

Kúabændur hafa sýnt að ef tekst að vinna nýja markaði og þörfin fyrir mjólk eykst þá getum við „skrúfað frá“. Við höfum gert það áður og getum gert það aftur.

Að mínu mati eigum við að einbeita okkur að innanlandsmarkaðinum í dag og sinna honum vel.“

Mikilvægt að bændur skili inn bókhaldsgögnum

Arnar segir að í nýjum búvörusamningum sé ómótað hvernig eigi að verðleggja mjólk til bænda.
„Í samningnum segir eitthvað á þá leið að sérfræðinganefnd eigi að taka ákvörðun um hvernig verðlagningu á mjólk til bænda verði háttað. Forsendurnar sem gengið er út frá eiga til dæmis að setja Mjólkursamsölunni tekjumörk, tryggja tekjugrundvöll bænda og að neytendur fái mjólk á góðu verði.

Samkvæmt búvörusamningnum á verðlagningin að byggja á gögnum um kostnað sem bændur skila inn. Vandamálið í dag er að bændur eru tregir til að skila inn þessum gögnum og einungis nítján aðilar eru búnir að skila gögnunum fyrir rekstrarárið 2015.

Ég vil nýta þetta tækifæri og hvetja alla bændur, bæði kúa- og sauðfjárbændur, til að skila til Bændasamtaka Íslands bókhaldsgögnum svo nota megi þau til uppbyggingar á öflugum gagnagrunni sem við getum svo byggt fyrrnefndar ákvarðanir á. Ekki er nóg að skila gögnunum inn því þeim þarf að fylgja upplýst samþykki svo nýta megi þau í gagnagrunn. Hvet ég alla til að hafa samband við sína bókhaldsþjónustu eða beint við Jóhönnu Lind hjá BÍ til að fá upplýsingar um málið.

Það skiptir gríðarlega miklu máli að allir bændur skili inn þessum gögnum,“ segir Arnar Árnason, nýkjörinn formaður Landssambands kúabænda.

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...