Álftirnar fóru og hafa ekki verið meira til ama
Eitt af langlífustu umkvörtunarefnum bænda í jarðrækt er ágangur fugla; aðallega gæsa og álfta. Fjölmargar aðferðir hafa verið reyndar í baráttunni við að vernda verðmætin í ræktarlöndunum en fáar virðast duga að fullu.
Nýlega birti Björgvin Þór Harðarson, svína- og kornbóndi í Laxárdal, stöðufærslu í Facebook- hópnum Kornrækt á Íslandi frá hveitiakri sínum í Gunnarsholti þar sem hann lýsir ánægju sinni með flugdreka-fuglafælu sína, sem er nýjasta vopnið í vopnabúrinu.
Í færslunni segir Björgvin að flugdreka-fuglafælan sem hann setti upp sé í líki fálka og hugsuð til að fæla álftir úr akri með vetrarhveiti í. Áður en hann setti þá upp hafi verið um 50 álftir í rúmlega 30 hektara akri. Þær hafi farið strax og hann setti upp þrjá flugdreka og hafi ekki verið meira til ama.
Fálkar sem hreyfast eftir ákveðnu mynstri
„Ég hef séð svona fugla á stöng víða erlendis, en þessir eru sérhannaðir til að fljúga eftir ákveðnu mynstri sem fælir aðra fugla frá,“ segir Björgvin Þór. Eins og flestir aðrir kornbændur hefur hann prófað ýmislegt til varnar vágestunum.
„Ég hef til dæmis prófað venjulegar fuglahræður, geisladiska á staur, sett eitthvað við akurinn, tæki eða annað og einnig hljóðfælur sem spila viðvörunarhljóð fugla. Sumt af þessu virkar í einhvern tíma og svo ekki meir. Einnig er ég með fimm hektara akur sem er sérstaklega ætlaður fyrir fuglinn þannig að maður býr til svæði þar sem hann má vera. Þá fá aðrir akrar frið á meðan, en það er náttúrlega kostnaður við það. Fálkinn hefur komið einna best út, þarf ekkert viðhald, það er rafgeymi eða annað, og þetta er mjög góð og sterk framleiðsla á þessum flugdrekum. Ég var með þá úti síðasta haust fram í nóvember og það sá ekki á þeim.“
Virkar líklega á flesta fugla
Björgvin telur að flugdrekinn muni virka á flesta fugla.
„Þetta heldur gæsinni klárlega frá en ég hugsa að þetta virki á flesta fugla – svipaðir drekar eru notaðir heima við bæi erlendis hef ég séð til að stugga við starra og öðrum spörfuglum.“Sagnir eru af miklu tjóni sem bændur hafa orðið fyrir vegna ágangs álfta og gæsa og Björgvin er þar engin undantekning.
„Það er mjög misjafnt eftir árferði hversu mikið tjónið verður. Ef það haustar snemma þá er ágangurinn miklu harðari. En ég hugsa að mesta tjónið hafi verið um 100 tonn af korni sem fóru í fuglinn eitt haustið.
Kornið lítur vel út
Björgvin er einn fárra kornbænda sem hefur náð ágætum árangri með ræktun á hveiti á undanförnum árum, sem hann nýtir sem fóður í svínaræktina.
„Ég er að rækta hveiti á um 42 hekturum, það er svipað og undanfarin ár. En almennt lítur kornið mjög vel út. Það var mjög lítið frost í jörðu í vor og góður raki þannig að kornið fór vel af stað og tíðin hefur haldist góð síðan, þannig að það er hægt að gera sér vonir um rúmlega meðalár í uppskeru í haust.“
Hann telur möguleika íslenskrar kornræktar til framtíðar vera ágæta, heilmikið land sé til á Íslandi sem ekki er notað en væri hægt að nýta í ræktun á byggi og fleiri tegundum.
„Þar má nefna hveiti, nepju, kúmen, bóndabaunir. En það þarf að ná tökum á þeim vandamálum sem herja á okkur hér. Það er náttúrlega fuglinn og svo eru það veðrin á haustin sem geta skemmt mikið fyrir.
Það er hægt að lágmarka það tjón með markvissum aðgerðum sem miða að því að auka ræktunaröryggið. En öll þessi ræktun byggir líka á því að við höfum aðgang að yrkjum sem henta okkar aðstæðum og því er mikilvægt að kynbætur og þróun á nýjum yrkjum fyrir okkar aðstæður sé með miklum sóma.“