Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Halldóra Kristín Hauksdóttir situr í stjórn Bændasamtaka Íslands, hún er lögfræðingur hjá velferðarsviði Akureyrarbæjar og rekur í félagi við systur sína og mág eggjabúið Grænegg í Sveinbjarnargerði á Svalbarðsströnd.
Halldóra Kristín Hauksdóttir situr í stjórn Bændasamtaka Íslands, hún er lögfræðingur hjá velferðarsviði Akureyrarbæjar og rekur í félagi við systur sína og mág eggjabúið Grænegg í Sveinbjarnargerði á Svalbarðsströnd.
Líf og starf 2. júlí 2022

Áskoranir skapa tækifæri

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir

„Það eru blikur á lofti, því er ekki að neita. Allir stórir liðir í rekstrarkostnaði bænda hafa verið og eru enn að hækka gríðarlega. Tvöföldun hefur orðið á áburðarverði á einu ári, kjarnfóðurverð fer stighækkandi og allt eins líklegt að það hækki enn meira.

Ekkert lát er á olíuverðshækkunum en olía er stór liður í rekstri bænda og við sjáum í raun ekki fram á annað en hækkanir áfram. Það dynja yfir hækkanir á öllum sviðum, en vissulega má líka segja að í öllum aðstæðum, sama hversu slæmar þær eru, felist líka tækifæri.

Ég sé fyrir mér að fólk skynji betur en áður hversu mikilvægt er að stunda öflugan landbúnað hér á landi. Reynslan undanfarin ár kennir okkur að meta hann betur. Eftir efnahagshrunið 2008 hefur landbúnaður, ef svo má segja, fengið uppreist æru. Nýafstaðinn heimsfaraldur og stríð í Úkraínu með margvíslegum neikvæðum áhrifum hefur opnað augu manna fyrir því að stefna ætti að því að hafa sjálfsnægtarhlutfall sem hæst hjá hverri þjóð. Við Íslendingar gætum sem dæmi aukið grænmetis- og kornframleiðslu okkar, en til að bændur geti farið í aukna kornrækt er nauðsynlegt að komið verði upp kornhlöðum sem tækju á móti korni,“ segir Halldóra Kristín Hauksdóttir, sem sæti á í stjórn Bændasamtaka Íslands. Hún er lögmaður hjá velferðarsviði Akureyrarbæjar og eggjabóndi hjá Grænegg í Sveinbjarnargerði sem hún rekur ásamt systur sinni og mági og þá er hún varaformaður stjórnar Byggðastofnunar.

Varphænur vappa um húsakynni sín í Sveinbjarnargerði.

Halldóra er fædd og uppalin á Svalbarðsströnd, en bjó í vesturbæ Reykjavíkur yfir vetrarmánuðina og gekk í Melaskóla og Hagaskóla. Hún tók stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri og lauk lögfræðiprófi frá Háskólanum á Akureyri árið 2008. Eftir nám starfaði hún hjá sýslumanninum í Vestmannaeyjum, en öðlaðist málflutningsréttindi árið 2013 og hóf þá störf á lögmannsstofu á Akureyri sem hún síðar varð meðeigandi að. Þá hóf hún MBA nám haustið 2017 samhliða sínum störfum, hún brautskráðist úr því árið 2019 og hóf í millitíðinni störf hjá Akureyrarbæ.

Félagsmálin heilluðu

„Ég var mjög ung þegar ég ákvað að verða lögfræðingur,“ segir hún en dreymdi þó fyrst um að verða rannsóknarlögga. Áhrifin telur hún að rekja megi beint til dálætis hennar á sjónvarpsþáttunum Derrick og Matlock. Halldóra hefur um ævina verið mikil félagsvera og tekið virkan þátt í ýmiss konar félagsstarfi. Lögfræðimenntun nýtist vel í alls konar störfum.

„Félagsmál hafa alltaf heillað mig, þessi áhugi er mér örugglega í blóð borinn. Pabbi minn, Haukur Halldórsson, var félagsmálatröll og að alast upp á slíku heimili hefur mikil áhrif, endalausar umræður um samfélagsmál, fólk að skiptast á skoðunum og allir hafa brenn- andi áhuga á að gera samfélagið okkar betra.“

Systur tóku við eggjabúskapnum 

Halldóra hefur um árabil tekið þátt í rekstri eggjabúsins Grænegg í Sveinbjarnargerði á Svalbarðsströnd. Það rekur hún nú með systur sinni og mági, Heiðu Hauksdóttur og Pétri Jónatan Kelley. Faðir systranna hafði rekið eggjabúið Gerði og þar kom að hann komst á aldur og ætlaði að hætta.

Halldóra og synir hennar, Hrafn og Haukur, með nýfædda hænuunga.

„Þá kom þessi hrökkva eða stökkva-tilfinning upp hjá okkur systrum. Húsin voru komin á tíma og miklar endurbætur fram undan ef halda ætti rekstri áfram. Ég bjó í Vestmannaeyjum og Heiða í Noregi,“ segir Halldóra, svo það lá kannski ekki beinast við að taka við rekstrinum.

Sú varð þó raunin, systurnar fluttu norður ásamt fjölskyldum og hófu eggjaframleiðslu, stofnuðu félagið Grænegg sem tók við eggjaframleiðslu Gerðis um haustið árið 2012.

„Við byrjuðum strax á miklum framkvæmdum, það þurfti að aðlaga allt að breyttu regluverki, en við tókum við bústofni og fengum endurnýjaðar heimildir til framleiðslu, sölu og dreifingar á eggjum,“ segir hún.

Í kjölfar þess að horfið var frá búreldi og farið í vistvæna framleiðslu var varpfugli tímabundið fækkað úr 10 þúsund fuglum í 4 þúsund. Vistvæna framleiðslan, eins og hún var nefnd í þá daga, krafðist þrisvar sinnum meiri gólfflatar.

Sýn fjölskyldunnar hefur ávallt verið sú að gera aðbúnað hænsnanna sem bestan á hverjum tíma og að lágmarka alla mengun fyrir umhverfið sem kostur er.

Varphænum fjölgað eftir stækkun

Halldóra segir að hún hafi að mestu verið á hliðarlínunni í búskapnum allt til ársins 2018 þegar hún og maður hennar skildu og hún keypti hann út úr rekstrinum. Þá hafi hún komið sterkar inn. Pétur, mágur hennar, sér um daglegan rekstur en hann er smiður og liðtækur í öllum verkum sem til falla. Halldóra er meira í því sem er út á við, sinnir viðskiptasamböndum, samskiptum, starfsmannamálum og fleiru slíku.

Helgarvinnunni skipta þau á milli sín og börnin eru dugleg að hjálpa til, auk þess sem núverandi sambýlismaður hennar, Eggert Sæmundsson, hefur einnig komið að rekstri búsins.

Eggjabúið var stækkað árið 2018, m.a. var byggt nýtt varphús og varphænum fjölgað úr 7.500 í rúmlega 11 þúsund. Hver varphæna verpir um það bil 18 til 20 kg á ári. Allar hænur hafa frjálsan aðgang að fóðri og vatni allan sólarhringinn.

„Þegar framkvæmdum við stækkun lauk hófumst við handa við að endurbæta hús sem tekið hafði verið úr notkun, en við sáum hagræði í því að ala okkar fugla upp sjálf, þ.e. að fá þá eins dags gamla til okkar frá stofnbúunum og hafa inni á gólfi hjá okkur frá fyrsta degi. Við byrjuðum á því fyrirkomulagi í mars árið 2020 og það hefur gengið ótrúlega vel,“ segir Halldóra.

Neytandinn er besta eftirlitið

Halldóra segir stærð búsins henta vel fyrir tvær fjölskyldur.

„Þetta er lítið fjölskyldubú og við viljum halda í þá ímynd,“ segir hún. Grænegg hafa það fyrirkomulag að bjóða fólk velkomið að skoða.

„Við höfum lengi sagt, sérstaklega eftir „Brúneggjamálið“, að neytandinn sé besta eftirlitið. Í lokinu á eggjabökkunum okkar er hálfgerður boðsmiði í heimsókn og margir hafa nýtt sér þennan möguleika og haft gaman af. Við erum með aðstöðu þar sem fólk getur horft á hænurnar í gegnum gler og séð hvernig fer um þær,“ segir Halldóra og bætir við að gott sé auðvitað að láta vita af sér áður svo einhver sé heima við.

Horfið var frá búreldi og farið í vistvæna framleiðslu til að aðlaga starfsemina breyttu regluverki. Hænurnar í Sveinbjarnargerði verpa 18-20 kg af eggjum á ári og hafa aðgang að fóðri og vatni allan sólarhringinn.

Halldóra segir að hjá Grænegg sé hugsað í lausnum þegar kemur að því að kolefnisjafna búskapinn. Búið er að skipuleggja reit á jörðinni þar sem til stendur að planta trjám, en það sé einn liður af mörgum.

Næsta verkefni sem þau ætli sér að takast á við, sem vonandi verði sem fyrst að veruleika, er að nýta skítinn sem til fellur með öðrum hætti en að bera hann á túnin.

Hún segir að þær systur hafi verið saman í MBA námi og skrifað sameiginlega lokaritgerð sem bar heitið: Er úrgangur auðlind?

„Þar settum við fram viðskipta- hugmynd um að hefja framleiðslu á lífrænum áburði fyrir innlendan markað. Niðurstaðan úr okkar rannsókn var að gríðarleg sóknarfæri eru á þeim vettvangi, svo það er spurning hvernig mál þróast, hvað úr verður.“

Stolt af þeim félagsanda sem ríkir meðal bænda

Halldóra hefur starfað í stjórn Bændasamtaka Íslands frá árinu 2020, en hún var fulltrúi eggjabænda á Búnaðarþingi það ár og var skorað áhanaaðgefakostásér.Áþví þingi stóð til að fara í breytingar á félagskerfi bænda og í því hafi falist mikil áskorun sem hún var tilbúin að taka þátt í.

„Mín upplifun var sú að Bændasamtökin væru að veikjast og mér fannst ákveðin tímamót þarna til að gera eitthvað, því ég trúi því að sameiginleg samtök bænda hafi sterkari rödd og meira vægi, sem skilar sér í auknum framförum og hagsæld fyrir íslenskan landbúnað,“ segir hún. Þá hafði hún áhyggjur af hvert stefndi með fjárhag Hótel Sögu og Bændahallarinnar, en kórónuveirufaraldurinn lagðist yfir og gerði útslagið að því hvernig fór. Það hafi verið sárt að missa hótelið, en þýði samt ekki að tapa þurfi gleðinni. „Við verðum bara að draga lærdóm af þessu,“ segir hún.

Halldóra segir að stjórn BÍ fari reglulega yfir stöðuna í landbúnaði og reyni að bregðist við aðstæðum á hverjum tíma.

Breytingin á félagskerfi bænda hefur verið krefjandi, en spennandi verkefni og nú undanfarið hafi tími farið í að aðlaga sig að nýju kerfi.

„Ég er ótrúlega stolt af félagsmönnum BÍ, í þessum breytingum sá maður sanna samvinnu og samhug þar sem markmið allra var að láta hlutina ganga upp.

Mér fannst breytingin hafa lukkast vel þannig að ég ákvað að gefa kost á mér aftur til að fylgja þessum breytingum eftir. Við stöndum frammi fyrir miklum áskorunum næstu árin en í nýrri og öðruvísi stöðu skapast alltaf tækifæri.“

Þurfum að endurskoða samkeppnislögin

Hún segir stöðuna miserfiða eftir búgreinum, sauðfjárrækt eigi erfitt uppdráttar og sömuleiðis nautakjötsframleiðsla.

„Við verðum að horfast í augu við að sauðfjárræktin þarf bæði beinan og óbeinan stuðing og rekstrarumhverfið þarf að vera með þeim hætti að bændur geti unnið saman að sínum afurðasölumálum án þess að Samkeppnisstofnun þrengi óeðlilega að þeim mögu- leikum sem felast í hagræðingu.

Því er það mitt mat að við þurfum að endurskoða samkeppnislögin hvað íslenskan landbúnað varðar. Landbúnaður er mjög sérstakur og um hann verða að gilda aðrar reglur en þær sem gilda um hreina iðnaðarvöruframleiðslu. Það er viðurkennt í flestum okkar nágrannalöndum.

Slíkt skipulag getur dregið úr bæði matarsóun og óþarfa flutningum,“ segir Halldóra að lokum.

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...