Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Til að komast að staðsetningu vöktunarreita þarf oft að ganga 1-2 km, þá er gott að vera með góða bakpoka undir allan búnað.
Til að komast að staðsetningu vöktunarreita þarf oft að ganga 1-2 km, þá er gott að vera með góða bakpoka undir allan búnað.
Mynd / Bryndís Marteinsdóttir
Líf og starf 7. desember 2020

Bændur og aðrir eiga að geta vaktað sín eigin lönd í framtíðinni með hjálp snjallforrits í snjallsíma

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

GróLind byggir á samkomulagi milli atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytisins, Bændasamtaka Íslands, Landgræðslunnar og Landssamtaka sauðfjárbænda.  Verkefnið er fjármagnað til 10 ára í gegnum núverandi búvörusamning og Landgræðslan hefur yfirumsjón með framkvæmd þess. Í verkefninu eru gróður og jarðvegsauðlindir landsins vaktaðar með það að markmiði að meta ástand þeirra og breytingar þar á. 

Verkefnið er unnið í samvinnu við vísindasamfélagið, landnotendur og aðra hagsmunaaðila. Lögð er áhersla á að verkefnið verði byggt á traustum vísindalegum grunni og muni nýtast landnotendum við að ná markmiðum um sjálfbæra landnýtingu. Bændablaðið ræddi við Bryndísi Marteinsdóttur um þetta verkefni, en hún er sérfræðingur hjá Landgræðslunni og verkefnisstjóri GróLindar.

 „Ég er fædd og uppalin í Mosfellsbæ. Eftir menntaskóla fór ég í líffræði við Háskóla Íslands, staðráðin í að verða erfðafræðingur, eins og svo margir aðrir, enda Íslensk erfðagreining nýstofnuð á þessum tíma.“

Vöktunarreitir eru settir út í mismunandi vistkerfum en í melum taka mælingar oft stuttan tíma. MyndBryndís Marteinsdóttir

Heillaðist mjög fljótlega af leyndardómum plantna

„Ég heillaðist mjög fljótlega af leyndardómum plantna og hlutverki þeirra í vistkerfum og ákvað að sérhæfa mig í því frekar. Mín fyrsta vinna tengd náminu var að rannsaka landnám birkis á Skeiðarársandi sumarið 2004, og þó að allir hafi tekið eftir þeim gífurlega skógi sem er að vaxa upp á Skeiðarársandi núna var svar fólks við því þegar ég sagði þeim hvað ég var að gera oftast „ha – ertu ekki að ruglast eitthvað? Skeiðarársandur er bara auðn“. Í dag stoppar sama fólk mig á förnum vegi til að tala við mig um skóginn á Skeiðarársandi. Svona getur náttúran verið öflug.

Ég fór svo út til Svíþjóðar í doktorsnám og fjallaði verkefnið mitt um hvaða þættir stjórna því hvernig plöntur raðast saman í plöntusamfélög. Eftir að ég kom heim fékk ég nýdoktorastyrk við Háskóla Íslands og  starfaði þar í þrjú ár, m.a. við rannsóknir á Skeiðarársandi og við að rannsaka þau áhrif sem beit sauðfjár hefur á íslensk vistkerfi. Ég byrjaði svo að vinna hjá Landgræðslunni 2017, þegar ég tók við starfi sem verkefnisstjóri GróLindar.“

Verkefnið GróLind á sér langa sögu

Hvernig kom hugmyndin að verkefninu og var nauðsynlegt að koma því á að þínu mati?

„Þetta verkefni á langa sögu, ýmsir hafa í gegnum tíðina bent á það að við þurfum svona vöktun, bæði vísindasamfélagið og landnotendur, en það var ekki fyrr en 2017, þegar ákveðið var, að áeggjan Landssamtaka sauðfjárbænda, að leggja hluta af því fé sem fer í búvörusamningana í verkefni sem síðar fékk nafnið GróLind.

Fram til ársins 2017 höfðu gróður og jarðvegsauðlindir landsins ekki verið vaktaðar á heildstæðan hátt og sú vöktun sem var í gangi var aðallega á svæðum sem verða fyrir áhrifum frá stóriðju og raforkuframleiðslu. Það hafði þó farið fram mat og flokkun á ástandi lands m.a. í rofkortlagningunni frá 1997 og í Nytjalandinu. Það er í raun mjög furðulegt að á Íslandi, þar sem stór hluti landsins er nýttur til beitar, og þar sem við eigum við vandamál að stríða vegna landhnignunar, að það hafi ekki verið fyrir löngu farið í að vakta þessar auðlindir heildstætt. Flest lönd í kringum okkur hafa verið að vakta sín lönd í tugi ára, t.d. hafa beitarlönd í Ameríku verið vöktuð í hátt í 90 ár og í Ástralíu í hátt í 50 ár. En í dag erum við loks að byrja og það er mín trú og von að með GróLind séum við að leggja grunninn að vöktun þessara auðlinda um ókomna tíð,“ segir Bryndís.

Í hverjum vöktunarreit er hlutfall mismunandi plöntuhópa og óvarins jarðvegs mæld á línu innan reitsins með því að setja niður pinna og skrá alla þá plöntuhópa sem snerta pinnann. Alls eru gerðar 200 pinnamælingar í hverjum reit. Mynd / Áskell Þórisson

Í reglulegum samskiptum við forsvarsfólk Landssamtaka sauðfjárbænda og Bændasamtaka Íslands

Þið eruð í miklu samstarfi við bændur, út á hvað gengur það samstarf?

„Já, verkefnið safnar gögnum sem meta ástand auðlindanna og stuðla að sjálfbærri landnýtingu. Við verðum því að tryggja að gögnin sem við söfnum og aðferðafræðin okkar uppfylli ekki eingöngu strangar fræðilegar kröfur heldur séu einnig þannig að þær nýtist bændum. Þannig að í þróunarferlinu höfum við verið með fundi víða um land þar sem við kynnum verkefnið fyrir bændum og öðrum og fáum athugasemdir og hugmyndir frá þeim sem við notum svo til að þróa verkefnið áfram. Við erum einnig í reglulegum samskiptum við forsvarsfólk Landssamtaka sauðfjárbænda og Bændasamtaka Íslands, sem eru aðilar að verkefninu, sem og þverfaglega faghópinn sem stendur á bak við verkefnið. Við viljum nefnilega með GróLind skapa upplýsingar sem nýtast og þá er mikilvægt að vinna með þeim sem eiga að nýta gögnin ásamt því að tryggja að gögnin standist kröfur vísindasamfélagsins.“

Snjallsímar tengjast verkefninu, hvernig þá?

„Það er rétt, við  erum  að þróa aðferðafræði til að bændur og aðrir geti metið ástand og vaktað sín eigin lönd með hjálp snjallforrits í snjallsíma. Þannig verða bændur þátttakendur í vöktuninni, gögnin nýtast ekki aðeins bændum til að fylgjast með breytingum í sínu eigin landi heldur verða þau einnig notuð sem hluti af gagnasafni GróLindar til að meta ástand lands heildrænt. Við kortlögðum svo beitarsvæði landsins í samstarfi við bændur á hverjum stað, fyrsta útgáfa af því korti kom út núna í júní. Nú í fyrsta skipti höfum við kort sem sýnir hvaða svæði á Íslandi eru nýtt til beitar og hvaða svæði ekki. Og nú þegar þetta kort liggur fyrir verður hægt að fara að safna upplýsingum um fjölda sauðfjár á hverju beitarsvæði.“

Samstarfið við bændur hefur gengið mjög vel

Hvernig hefur samstarfið við bændur gengið?

„Það hefur gengið mjög vel, þeir eru mjög áhugasamir um verkefnið og hafa komið með margar góðar athugasemdir og tillögur. Í sumar vorum við í sambandi við tugi bænda um að fá að setja upp vöktunarreiti á þeirra landi og alltaf var okkur tekið vel og fólk almennt mjög áhugasamt. En það er kannski ekki skrítið, þetta verkefni er okkur öllum til hagsbóta enda viljum við öll það sama, við viljum að landið sé í góðu ástandi og að það sé nýtt á sjálfbæran hátt og við viljum geta sýnt fram á breytingar sem verða vegna aðgerða okkar,“ segir Bryndís.

Þið eruð að vakta og meta ástand gróður og jarðvegsauðlinda landsins, hvernig fer þessi vöktun fram?

„Við erum að setja út fasta vöktunarreiti (50 x 50 m) úti um allt land. Í hverjum reit eru metnir þættir sem gefa til kynna hvert ástand gróður og jarðvegsauðlindarinnar er. Þessir þættir eru t.d. jarðvegsgerð, jarðvegsdýpt, gróðurhæð, gróðurþekja, tegundasamsetning, jarðvegsrof og hrjúfleiki yfirborðs. Aðferðafræðin byggir mikið á þeirri aðferðafræði sem hefur verið nýtt og prófuð m.a. í Bandaríkjunum og Ástralíu en aðlöguð að íslenskum veruleika. 

Unnið verður að uppsetningu vöktunarreitanna næstu sumur og er áætlað að setja um 200 vöktunarreiti út á ári. Við stefnum að því að setja upp a.m.k. 1.000 vöktunarreiti í allt og áætlað er að endurmæla hvern reit á 5 ára fresti sem hluti af vöktun auðlindanna.“

Nota GPSstaðsetningartæki til að fylgjast yfir 100 lambám

– Þið hafið verið að nota sauðfé með GPStækjum, hvað getur þú sagt mér um það og hvernig hafa kindurnar tekið verkefninu og hvaða niðurstöður eiga tækin á þeim að gefa?

„Það er rétt, síðustu þrjú árin höfum við nýtt staðsetningartæki til að fylgjast með notkun yfir 100 lambáa, frá mismunandi landsvæðum, á beitarsvæðum sínum. Tækin gefa okkur staðsetningu kindanna á 6 tíma fresti og höfum við á þessum þremur sumrum safnað upp gífurlegu gagnasafni. Gögnin gefa okkur innsýn í atferli sauðfjár í sumarhögum m.a. geta þau sagt til um í hvernig land sauðfé sækir helst, hve stórt svæði hver kind nýtir og hvernig þessir þættir breytast t.d. eftir ástandi lands, veðurfari og landsvæðum.  

Við erum rétt svo byrjuð að vinna úr gögnunum en þau munu vera mikil uppspretta fróðleiks í framtíðinni. Eftir því sem við best vitum hefur aldrei verið gerð rannsókn á ferðum sauðfjár á þeirri stærðargráðu sem áætlað er í þessari rannsókn. Þessi rannsókn er því einstök á alþjóðavísu auk þess sem hún er fyrst sinnar tegundar á Íslandi. Niðurstöðurnar munu nýtast jafnt innan og utan Landgræðslunnar, í að bæta beitarstjórnun. En þess má geta að verkefnið var styrkt af Framleiðnisjóði landbúnaðarins sem er að hætta núna um áramótin,“ segir Bryndís og bætir við: „Fyrir utan vísindalegt gildi rannsóknarinnar þá er þetta alveg rosalega skemmtilegt verkefni. Kindurnar og eigendur þeirra hafa tekið verkefninu vel, m.a. eru nokkrar sögur um að tækin hafi hjálpað til við að finna eftirlegukindur sem hafa farið í ævintýraferð.“

Eigum þó enn þá stórt verkefni fyrir höndum

Heilt yfir, hvernig metur þú ástand gróðurs og jarðvegsauðlinda Íslands á þessum tíma, erum við á réttri leið eða er allt í skötulíki hjá okkur?

„Þegar stórt er spurt, jú, jú, það hefur ýmislegt batnað á síðustu árum og áratugum en við eigum þó enn þá stórt verkefni fyrir höndum til að ástandið verði eins og best verður á kosið. Samkvæmt fyrsta stöðumati GróLindar, sem unnið er upp úr fyrirliggjandi gögnum, lendir aðeins 25% landsins í tveimur bestu ástandsflokkunum á meðan um 45% lands lenda í tveimur verstu ástandsflokkunum sem einkennast af svæðum þar sem virkni vistkerfa er takmörkuð og/eða rof mjög mikið. Þó að eitthvað af þessum svæðum í verstu ástandsflokkum séu náttúrlega með litla virkni og/eða mikið rof, t.d. áreyrar eða svæði mjög hátt yfir sjó, er töluvert af svæðum þar sem ástandið gæti verið mun betra. Við erum einmitt að vinna að því núna að aðgreina þessi svæði.“

Full bjartsýni

– Ertu bjartsýn eða svartsýn á stöðu mála?

„Ég er full bjartsýni, það eru margir hlutir að breytast í rétta átt og GróLind er eitt atriðið í þeirri vegferð. Ástand lands er oft verra en það gæti verið en þetta er bara vandamál sem þarf að leysa og það er fullt af lausnum, við þurfum bara að koma öll saman að borðinu og finna þessar lausnir. Lausnir sem bæði eru til góða fyrir þessar auðlindir en einnig einstaklinga sem lifa af þessum auðlindum, búsetu í landinu og samfélagið í heild, en til þess að það gerist þurfum við öll að koma með opinn hug að borðinu en einnig þurfa stjórnvöld að tryggja að regluverkið geri okkur kleift að nýta þessar lausnir. Ég myndi t.d. vilja sjá í framtíðinni að við værum með stétt endurheimtabænda sem fengju greitt fyrir að bæta þessar auðlindir, það myndi draga úr kostnaði þjóðarinnar vegna skuldbindinga okkar í loftslagsmálum, styrkja lífsskilyrði í dreifðari byggðum og tryggja búsetu í landinu.“

– Í hvað á svo að nýta gögnin?

„Gögn um ástand lands og breytingar á ástandi og um staðsetningu beitarsvæða er hægt að nýta á margs konar hátt. Þær gagnast bændum við að skipuleggja beitarnýtingu, við skipulagningu leita og til að sjá hvaða áhrif mismunandi landnýting hefur. Þær munu verða nýttar í starfi Landgræðslunnar m.a. í skipulagningu og forgangsröðun endurheimta aðgerða. Þær gagnast sveitarstjórnum og skipulagsyfirvöldum í skipulagningu svæða undir þeirra umsjón og þær gagnast stjórnvöldum m.a. í því að meta losun frá landi. Þær munu einnig gera okkur kleift að sýna fram á ávinning aðgerða okkar m.a. í landbótum. Þar að auki erum við að byggja upp gríðarlegt gagnasafn sem mun nýtast vísindamönnum framtíðarinnar að svara spurningum m.a. um áhrif hlýnunar á auðlindirnar og árangur þeirra endurheimtaaðgerða sem við erum í í dag.

Kannski er þó mikilvægasta hlutverk GróLindar að gefa hlutlaust mat á stöðu auðlindanna hverju sinni og breytingar á stöðunni – mat sem við getum notað til að taka upplýstar ákvarðanir um að taka næstu skref,“ segir Bryndís.

Ættum að geta gefið út ástandsmat eftir nokkur ár

– Niðurstöður verkefnisins, hvenær munu þær liggja fyrir og hvers konar niðurstöður megum við búast við?

„Fyrstu niðurstöður verkefnisins lágu fyrir í sumar, þegar við gáfum út stöðumat af ástandi auðlindanna. Þar nýttum við okkur fyrirliggjandi kort til að meta ástandið á grófum kvarða. 

Að nokkrum árum liðnum, þegar við höfum náð að safna nægilegu magni á gögnum, ættum við að geta gefið út ástandsmat byggt á samþættingu gagnanna sem við söfnum, bæði í vöktunarreitum og með vöktun landnotenda, og gervitunglamyndum. Með þeim niðurstöðum munum við fá nákvæmara mat á ástandi lands og einnig geta séð hvernig ástandið er að breytast frá einum tíma til annars. Þá er hægt að fara að tengja breytingar m.a. tengdar landnýtingu og veðurfari við breytingar á ástandi lands. Við gáfum líka út fyrstu útgáfu af kortlagningu beitarsvæða sauðfjár á sama tíma. Við erum núna að vinna í því að bæta þessa kortlagningu og á áætluninni er að kortleggja einnig beitarsvæði annarra grasbíta sem hafa áhrif á auðlindirnar t.d. hrossa, hreindýra og gæsa.“ 

GróLind er mikilvæg fyrir landið í heild

– Er eitthvað að lokum sem þú vilt koma á framfæri?

„Já, ég vil bara undirstrika hvað verkefni eins og GróLind er mikilvægt, ekki eingöngu fyrir landnotendur og vísindasamfélagið heldur fyrir Ísland sem heild. Okkur ber skylda að fara vel með auðlindir landsins og grunnurinn að því að það sé hægt er þekking eins og GróLind skapar. GróLind mun sýna okkur, svart á hvítu, hvar við erum að gera vel og hvar við þurfum að bæta okkur,“ sagði Bryndís að lokum. 

Skylt efni: uppgræðsla | Landgræðsla

Staða harmonikunnar sterk
Líf og starf 30. desember 2024

Staða harmonikunnar sterk

Félag harmonikuunnenda í Reykjavík heldur úti starfi fyrir harmonikuunnendur, sa...

Nýr heimsmeistari í skák
Líf og starf 30. desember 2024

Nýr heimsmeistari í skák

Nýr heimsmeistari í skák var krýndur 12. desember síðastliðinn. Hann heitir Domm...

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu
Líf og starf 27. desember 2024

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu

Á seinni hluta nítjándu aldar hófu kvenfélög að stinga upp kolllinum hérlendis, ...

Jólin komu snemma fyrir norðan
Líf og starf 27. desember 2024

Jólin komu snemma fyrir norðan

Það mátti greina spennu og tilhlökkun í augum Þingeyings sem óðamála sagði umsjó...

Sinn er siður í landi hverju
Líf og starf 27. desember 2024

Sinn er siður í landi hverju

Líkt og Íslendingar eiga Grænlendingar og Færeyingar sér sterkar jólahefðir sem ...

Ár umbreytinga og innsæis
Líf og starf 27. desember 2024

Ár umbreytinga og innsæis

Eins og siður er kastaði völva Bændablaðsins beinum sínum og opnaði fyrir flæði ...

Hvað er í jólamatinn og af hverju?
Líf og starf 23. desember 2024

Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Spurning dagsins: Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...