Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Haraldur og Linda með landgræðslusvæðið og birkiskóginn í baksýn.
Haraldur og Linda með landgræðslusvæðið og birkiskóginn í baksýn.
Mynd / smh
Líf og starf 12. október 2021

Betri búrekstur með loftslagsvænni landbúnaði

Höfundur: smh

Loftslagsvænn landbúnaður, sam­starfsverkefni stjórnvalda, Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, Skógræktar og Landgræðslunnar, er hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Sauðfjárbændur á Hellum í Bæjarsveit Borgarfjarðar, þau Haraldur Sigurðsson og Linda Sif Níelsdóttir, gengu inn í verkefnið í febrúar og segja að markmiðið með þátttökunni sé ekki síst að gera búskapinn betri – til að mynda með auknum afurðum eftir hverja á.

Verkefnið er á sínu öðru ári og hefur hópur sauðfjárbænda tvisvar verið tekinn inn í verkefnið og einu sinni hópur nautgripabænda.

Uppgræðsla og skógrækt

Bjartsýnir sauðfjárbændur og þátttakendur í Loftslagsvænum landbúnaði.

„Þetta fellur bara vel að því sem við erum almennt að gera hér,“ segir Haraldur, spurður um ástæður þess að þau ákváðu að taka þátt í verkefninu. „Við höfum mikinn áhuga á uppgræðslu, enda erum við með mela hér á landinu, sem þarf að græða upp. Það er lögð áhersla á það í verkefninu að í aðgerðaráætlun séu markmið um bæði kolefnisbindingu og að dregið sé úr losun á gróðurhúsalofttegundum. Margir geta endurheimt votlendi sem hluta af þeirra kolefnisbindingu, en það hentar okkur kannski síður því við erum með frekar lítið land. Við erum hins vegar með uppgræðslu og skógrækt,“ segir hann.

Linda segir þau muni setja sér markmið um að draga úr losun á þessum lofttegundum með því til dæmis að draga úr innyflagerjun. „Svo eru ýmsar fleiri leiðir til að minnka losun, eins og að huga að hagkvæmari nýtingu á aðföngum. Um leið og við minnkum notkun til dæmis á olíu þá hefur það góð áhrif á losunarbókhaldið og auðvitað á sjálfan búreksturinn.“

Betri nýting áburðar

„Þetta á líka við um áburð því við þurfum að huga að því að nýta hann betur,“ segir Haraldur. „Það gerum við fyrst og fremst með jarðvegssýnatökum og svo kölkun. Við erum mikið með mýrarjarðveg hér hjá okkur og hann er súr. Við ættum að geta sparað okkur alveg ótrúlega mikið með því að huga vel að þessu, því þetta er mjög stór útgjaldaliður hjá sauðfjárbændum.“

Svo stefnum við á að fá fleiri kíló í afurðum með því að passa upp á frjósemi og því að auka lömb til nytja,“ segir Linda, en á bænum eru rúmlega tvö hundruð vetrarfóðraðar ær. „Sömuleiðis varðandi jarðvinnslu, þá ætlum við ekki að opna flögin á haustin heldur bara stuttan tíma á vorin; frá því að við plægjum fram að sáningu og þangað til gróðurinn hefur lokað honum. Með því að hafa þau opin í stuttan tíma er hægt að minnka losunina frá landinu,“ bætir Haraldur við. Hann segir að eitt af því fyrsta sem þau gerðu hafi verið að kaupa lítinn liðlétting til að nota yfir vetrartímann, en þá þarf ekki að setja stóran traktor í gang yfir vetrartímann nema í undantekningartilfellum þegar gefa þarf hestastóðinu eða í uppgræðsluverkefnum.

Hluti skjólbeltanna þarf aðhlynningu, enda jafngömul Haraldi.

Spennandi verkefni

Þau eru sammála um að þátttaka í verkefninu sé spennandi, en þau hafa gert samning um þátttöku í fimm ár. Varðandi kolefnisbindingu munu þau Haraldur og Linda beina sjónum sínum aðallega að uppgræðslu og skógrækt, sem fyrr segir. „Við erum með stóran birkiskóg á landinu og svo er hér talsverð skjólbeltaræktun, sem afi minn og amma eiga heiðurinn af að hafa byrjað á um það leyti sem ég fæddist,“ segir Haraldur en þau Linda hafa nýverið keypt jörðina Hellur sem er tæpir 200 hektarar, af föður Haraldar. „Eitt af verkefnunum verður að hlúa að skjólbeltunum og fá betri vöxt í trjáplönturnar,“ bætir Linda við.

„Varðandi landgræðsluna þá er mjög gefandi hvað maður sér árangurinn fljótt – og slík vinna sé auðvitað mikill hagur fyrir okkur líka til að auka umfang beitilandsins okkar til frambúðar,“ segir Haraldur.

Skiptar skoðanir bænda

Þau segja að skoðanir um þetta verk­efni séu skiptar hjá þeim bændum sem þau hafa rætt við. „Flestir eru þó frekar jákvæðir, en sumir fara í baklás þegar minnst er á loftslagsvænan landbúnað,“ segir Haraldur. Linda telur að langflestir séu hvetjandi sem þau hafi talað við og útskýrt fyrir hvað þau geri í verkefninu. „Okkur fannst þetta bara sniðugt fyrir okkur og að við hefðum allt til að vinna. Svo þegar við fórum af stað, á fyrsta fyrirlestrinum, þá sáum við að margt af því sem var lagt upp með í verkefninu vorum við þegar byrjuð á eða farin að hugsa um að gera.“

Haraldur segir að það sé ekki spurning að það henti örugglega mörgum vel sem eru með stórt land – eða fáar skepnur – að fara í endurheimt votlendis, þó það henti þeim ekki. Þannig þurfi alltaf að taka mið af aðstæðum á hverjum bæ, en allflestir ættu að geta haft hag af því að stunda landbúnað eins og lagt er upp með í þessu verkefni og það séu ýmsar leiðir að markmiðunum. „Við erum til dæmis alltaf að læra og lærum helling bara í ferlinu. Við tökum ekki of stór skref í einu en reynum að setja okkur lítil markmið varðandi hvern og einn þátt. Svo má ekki gleyma að minnast á þá aðstoð sem við fáum í gegnum verkefnið, á námskeiðum og með ráðgjöf, sem hefur verið okkur mjög mikilvæg,“ segir Linda.

Staða harmonikunnar sterk
Líf og starf 30. desember 2024

Staða harmonikunnar sterk

Félag harmonikuunnenda í Reykjavík heldur úti starfi fyrir harmonikuunnendur, sa...

Nýr heimsmeistari í skák
Líf og starf 30. desember 2024

Nýr heimsmeistari í skák

Nýr heimsmeistari í skák var krýndur 12. desember síðastliðinn. Hann heitir Domm...

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu
Líf og starf 27. desember 2024

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu

Á seinni hluta nítjándu aldar hófu kvenfélög að stinga upp kolllinum hérlendis, ...

Jólin komu snemma fyrir norðan
Líf og starf 27. desember 2024

Jólin komu snemma fyrir norðan

Það mátti greina spennu og tilhlökkun í augum Þingeyings sem óðamála sagði umsjó...

Sinn er siður í landi hverju
Líf og starf 27. desember 2024

Sinn er siður í landi hverju

Líkt og Íslendingar eiga Grænlendingar og Færeyingar sér sterkar jólahefðir sem ...

Ár umbreytinga og innsæis
Líf og starf 27. desember 2024

Ár umbreytinga og innsæis

Eins og siður er kastaði völva Bændablaðsins beinum sínum og opnaði fyrir flæði ...

Hvað er í jólamatinn og af hverju?
Líf og starf 23. desember 2024

Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Spurning dagsins: Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...