Bjór í hávegum hafður
Bjórhátíð brugghússins Ölverk fór fram í þriðja sinn í Hveragerði á dögunum.
Á þriðja hundrað manns voru þar mætt til að smakka veigar 35 framleiðenda bjórs og annarra veiga. Tugir handverksbrugghúsa eru nú starfandi hringinn í kringum landið og vantaði ekki upp á fjölbreytni bjórsins. Hægt var að dreypa á berjabjór, ávaxtabjór, lakkrísbjór og humarbjór og skola honum niður með bjórís. Að smökkun lokinni stigu tónlistarmenn á svið og héldu uppi dansveislu.