Bleik jólastjarna til styrktar Krabbameinsfélaginu
Bleikar jólastjörnur, eða októberstjörnur eins og þær eru kallaðar, eru ræktunarafbrigði af og náskyldar rauðu og hvítu jólastjörnunum sem allir þekkja.
Í ár verða októberstjörnur seldar í verslunum Blómavals og Húsasmiðjunnar um allt land og rennur hluti ágóðans til styrktar Bleiku slaufu Krabbameinsfélagsins.
Bleika yrkið, Poinsettia euphorbia pulcherrima 'J'Adore Pink', ber, eins og nafnið gefur til kynna, bleik háblöð en að öðru leyti svipar henni til hefðbundinnar jólastjörnu. J'Adore er komið úr frönsku og þýðir ég elska og heiti yrkisins ég elska bleikt og passar því vel við bleikan októbermánuð.
Slaufan gegnir mikilvægu hlutverki
Diana Allansdóttir, deildarstjóri hjá Blómavali, hvetur fólk og fyrirtæki til styrkja gott málefni og um leið að skreyta heimili sín og fyrirtæki með því að kaupa októberstjörnuna.
„Salan á henni hefur verið að aukast ár frá ári og við vonumst til að það sé að skapast hefð fyrir henni og um leið að styrkja Krabbameinsfélagið.“
Árni Reynir Alfreðsson, forstöðumaður markaðsmála og fjáröflunar hjá Krabbameinsfélagi Íslands, tók við fyrstu október stjörnunni í ár 30. september síðastliðinn. Við það tilefni sagði Árni að Bleika slaufan gegndi afar stóru hlutverki í markaðs og fjáröflunarstarfi Krabbameinsfélagsins.
„Hún gerir félaginu kleift að vinna að sínum markmiðum sem eru að fækka þeim sem veikjast af krabbameinum, að lækka dánartíðni þeirra sem greinast með krabbamein og að bæta lífsgæði þeirra sem greinast og aðstandendur þeirra.“