Börnin í Þykkvabæ taka málin í sínar hendur
Íbúar í Þykkvabæ í Rangárþingi ytra eru orðnir langþreyttir á hraðakstri í gegnum þorpið og vilja fá hraðahindrun til að hægja á umferðinni.
Börnin í þorpinu hafa meðal annars tekið málið í sínar hendur og standa með skilti þar sem hraðast er ekið og biðja ökumenn að hægja á sér.
Umferðin alltaf að aukast
„Það er ekið talsvert hratt í gegnum þorpið og umferð er alltaf að aukast. Það er mun meiri umferð hér í gegn yfir sumartímann enda er hér frábært tjaldstæði og hótel. Margir hægja á sér en það eru nokkrir sem keyra allt of hratt miðað við aðstæður,“ segir Karen Eva Sigurðardóttir, íbúi í Þykkvabæ. Hún segir að það sé búið að senda inn erindi til Rangárþings ytra og óska eftir hraðahindrun en ekkert hafi gerst enn í málinu. „Vonandi fáum við hraðahindrun sem fyrst eða kannski bara gangstétt. Það er óþægilegt að vita af börnum sínum úti í garði við veg þar sem umferð er hröð. Við foreldrarnir teljum þetta skipta miklu máli og höfum áhyggjur af þessu. Við vonum að það verði ekki hér slys á fólki sem mun ýta þessum framkvæmdum af stað,“ bætir Karen Eva við.