Brautskráning frá Hólum
Alls voru 68 nemendur brautskráðir frá Háskólanum á Hólum föstudaginn 6. júní síðastliðinn við hátíðlega athöfn í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð.
Nemendur á Hólum útskrifast frá hestafræðideild, fiskeldis- og fiskalíffræðideild og ferðamáladeild. Í fyrsta sinn var nemandi brautskráður með MA-próf í ferðamálafræði, Guðrún Ólafía Brynleifsdóttir, og einnig var þetta í fyrsta skipti sem nemendur útskrifuðust með BS-próf í sjávar- og vatnalíffræði af sameiginlegri námsbraut Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands. Það voru þær Freydís Ósk Hjörvarsdóttir og Soffía Karen Magnúsdóttir.
Sjö nemendur voru brautskráðir með BS í hestafræði, af sameiginlegri námsbraut Háskólans á Hólum og Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, en að þessu sinni var það Landbúnaðarháskólinn sem annaðist brautskráninguna.
Hólarektor ávarpaði viðstadda og deildarstjórar fluttu auk þess stutt ávörp áður en þeir afhentu prófskírteinin. Að athöfn lokinni bauð skólinn viðstöddum til kaffisamsætis, sem Ferðaþjónustan á Hólum annaðist.