Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Viðar Hafsteinn Steinarsson og Sigríður Helga Heiðmundsdóttir, bændur á bænum Kaldbak á Rangárvöllum, þar sem þau reka ferðaþjónustu, stunda sauðfjárrækt og eru með hrossarækt og skógrækt, ásamt því að vera í verktakastarfsemi.
Viðar Hafsteinn Steinarsson og Sigríður Helga Heiðmundsdóttir, bændur á bænum Kaldbak á Rangárvöllum, þar sem þau reka ferðaþjónustu, stunda sauðfjárrækt og eru með hrossarækt og skógrækt, ásamt því að vera í verktakastarfsemi.
Mynd / Úr einkasafni
Líf og starf 11. nóvember 2020

Breyta þarf regluverki þannig að bændur geti slátrað sínum lömbum í „örsláturhúsum“

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Hjónin Sigríður Helga Heiðmundsdóttir og Viðar Hafsteinn Steinarsson eru öflugir bændur á bænum Kaldbak á Rangárvöllum í Rangárvallasýslu þar sem þau eru með fjölbreyttan búskap, eða sauðfjárbúskap, hrossarækt, skógrækt, ferðaþjónustu og auk þess eru þau í smá verktakastarfsemi, sem tengist aðallega skógrækt. 

Jörðin Kaldbakur byggðist úr Víkingslæk 1784, því forna höfuðbýli sem helmingur þjóðarinnar getur rakið sig til og er komið af „Víkingslækjarætt“.  Á Víkingslæk var tvíbýli og Þingskálar, sem eru einnig í Sigríðar og Viðars eigu, byggðust  úr Víkingslæk 1811. Þessar tvær jarðir hafa mátt þola mikinn sandágang en með miklu átaki er löngu búið að snúa vörn í sókn og landið í stöðugri framför. Hins vegar er stór hluti lands þessara jarða innan „landgræðslugirðingar“ frá árinu 1939 en þar gerðist ekkert þar til þau fóru sjálf að sinna landinu innan þessarar girðingar.  Sigríður og Viðar settust niður með blaðamanni og svöruðu fjölbreyttum spurningum um hitt og þetta, sem tengjast búskap og íslenskum landbúnaði.   

– En byrjum á byrjuninni og spyrjum hvaðan þau eru.

 „Ég er alin upp hér á Kaldbak, foreldrar mínir Heiðmundur Einar Klemenzson og Klara Hallgerður Haraldsdóttir keyptu jörðina og fluttust hingað árið 1958. Ég á eina systur, Elínu Guðrúnu,“ svarar Sigríður og Viðar tekur við; „Já, ég  er alinn upp í Fljótshlíðinni þeirri margrómuðu sveit, foreldrar mínir,  Steinar Magnússon og Sjöfn Guðjónsdóttir, bjuggu í Árnagerði. Viðar á 5 bræður. Sigríður og Viðar eiga tvær dætur, þær Klöru og Ösp, og tengdasynir þeirra eru Garðar og Ragnar og svo eiga þau fjögur yndisleg barnabörn, Viðar Frey og  Helgu Björk, sem eru Klöru og Garðarsbörn og Úlf og Kára, sem eru Aspar og Ragnarssynir.

Jörðin Kaldbakur byggðist úr Víkingslæk 1784, því forna höfuðbýli sem helmingur þjóðarinnar getur rakið sig til og er komið af „Víkingslækjarætt“. 

Fyrir Covid var aðal búskapurinn tengdur ferðaþjónustu

Hvernig búskap eruð þið með í dag?

„Áður en Covid brast á var okkar aðal „búskapur“ tengdur ferðaþjónustu, en við rekum lítið gistihús hér og erum að auki með í útleigu íbúðarhús.  Þessi rekstur hefur gengið  vel á undanförnum árum.  Fjárfjöldinn er svipaður nú í allnokkur ár. Við höfum verið að rækta hross með ágætis árangri en skógræktina lítum við fyrst og fremst á sem landbætur,“ segir Sigríður og tekur fram að engin verkaskipting sé á milli þeirra hjóna, þau gangi jafnt til allra verka.

Þið eruð fyrst og fremst sauðfjárbændur, hvernig líst ykkur á stöðu greinarinnar og hvernig metið þið hana?

„Ferðaþjónustan er reyndar okkar aðal tekjulind og þar hefur gengið  vel undanfarin ár.  Sauðfjárbúskapur stendur því miður illa þessi árin.  Afurðaverð hefur verið í frjálsu falli og litlar líkur á að það lagist.  Það er líkast því að við bændur séum að gera sláturleyfishöfum vinargreiða með því að „láta“ þá hafa lömb. Það er svo margt sem þarf að breytast eins og t.d. að allt kjöt sé með sýnilegum upprunamerkingum,  ekki síst nú þegar innflutningur á kjöti og kjötafurðum fer sívaxandi.  Neytendur eiga rétt á að vita hvaðan kjötið kemur. Stefna stjórnvalda með að leyfa aukinn innflutning á landbúnaðarvörum er undarleg.    En auðveldlega má framleiða hér innanlands á sjálfbæran og heilnæman hátt allt það kjöt sem þörf er á til neyslu, landi og lýð til heilla, en svo  virðist sem allan vilja skorti til að taka á þeim málum,“ segir Viðar brúnaþungur.

Sauðburðurinn stendur alltaf upp úr

Hvað er skemmtilegast við að vera sauðfjárbændur, hvað er það að gefa ykkur og lítið þið á þetta sem lífsstíl og hvernig er afkoman, náið þið að lifa af búskapnum, eða?

„Það er nú sauðburður sem alltaf stendur upp úr, sá tími í byrjun vors með birtu allan sólarhringinn er algjörlega óviðjafnanlegur. Síðan er það haustið, að safna fénu saman, sjá lömbin og velja ásetninginn.  Það er erfitt að lifa á sauðfjárbúskap eingöngu, jafnvel þótt fjöldinn væri meiri. En þá er bara að finna fleiri möguleika, eins og við höfum reynt.  Allt sem þú tekur þér fyrir hendur er þinn lífsstíll, hvort sem það er sauðfjárrækt eða eitthvað annað en afkoman þarf að verða betri.  Breyta þarf regluverki þannig að bændur gætu slátrað sínum lömbum í „örsláturhúsum“ og selt afurðir beint frá býli. Ef þú sendir lömb í sláturhús og tekur þau heim til að selja sjálfur, kostar slátrunin of mikið til að nægilega arðbært sé, Sláturleyfishafinn gefur þar ekkert eftir,“ segir Sigríður.

Skógrækt er forsenda landgræðslu

Þið hafið mikinn áhuga á skógrækt og þú, Sigríður, ert formaður Skógræktarfélags Rangæinga. Af hverju hefur þú svona mikinn áhuga á skógrækt og hvað er það að gefa þér að stunda skógrækt og stýra stóru skógræktarfélagi?

„Já, skógrækt er forsenda landgræðslu og hvar sem þú ferð í að bæta land og græða upp ætti skógur alltaf að vera með í þeim aðgerðum. Við hófum okkar skógrækt árið 1990 og eigum nú fallega skóga sem upp eru að vaxa. Eitt leiddi af öðru og ég fór inn í stjórn Skógræktarfélags Rangæinga, vann þar nokkur ár með eldhuganum Markúsi Runólfssyni. Tók síðan við sem formaður félagsins eftir að hann féll frá og hef staðið þá vakt með smá hléum síðan. Það er svo margt hægt að gera og Skógræktarfélag Rangæinga hefur verið mjög öflugt í að halda úti öflugu starfi,“ segir Sigríður formaður.

Hvað getur þú sagt mér um starfsemi félagsins?

„Skógræktarfélag Rangæinga er með um 290 félaga og er t.d. núna með stórt verkefni fyrir Kolvið, sem er að planta 82.500 plöntum, það er að klárast.  Síðan höfum við verið að bæta aðgengi í skógum félagsins, með gerð göngustíga og lagfæra brautir. Það er þá aldrei þörf á að fólk geti komið og notið útivistar ef það er ekki nú á tímum COVID. Þá er árviss sala á furu fyrir jólin, sem er mjög vinsælt að koma í skóginn og ná sér í tré.  Skógræktarfélag Rangæinga er með mörg svæði í sýslunni, austur á Skógum, á Markarfljótsaurum, á Kotvelli, Aldamótaskógi á Gaddstöðum, Bolholtsskóg á Rangárvöllum, Réttarnes á Réttaneshrauni og Ásabrekku í Ásahreppi,“ segir Sigríður.

Ættum við að leggja meiri áherslu á skógrækt á Íslandi?

„Að sjálfsögðu á að leggja meiri áherslu á skógrækt, umfram allt að planta fjölbreyttum tegundum og hætta þessum kjánaskap tala um íslenskar tegundir og erlendar.  Dæmin sanna að hér óx fjölbreyttur skógur og þannig vil ég sjá það.  Nú er verið á fullu að hvetja til söfnunar á birkifræi, sem er gott, einnig ætti að safna t.d stafafurufræi og dreifa því svo jöfnum höndum.  Planta sem víðast, er löngu orðin leið á þessari auðnaráráttu. Skógrækt er líka afturkræf, þannig að ef vantar land undir akuryrkju er ekkert auðveldara en endurheimta landið til slíks brúks. Skógurinn eykur möguleika á svo mörgu, betri uppskera af túnum eða ökrum, skjólsælir staðir þar sem fólk getur notið útivistar og ég blæs á vælinn sem stundum heyrist, að skógurinn sé að taka allt útsýni frá fólki. Á þjóðvegum landsins tekur það nokkrar sekúndur að keyra fram hjá skógi, sem hugsanlega byrgir fólki einhverja sýn til fjalla,“ segir Sigríður ákveðin.

Hrossarækt er stunduð með góðum árangri á Kaldbak. Hér er hryssan Himnasending með folaldið sitt.

Möguleikarnir miklu fleiri en hefðbundin sauðfjárrækt og kúabúskapur

Hvernig sjáið þið framtíð búskapar á Kaldbak og hvernig verður búskapurinn þar eftir 15 til 20 ár?

 Hér kemur Viðar inn. „Tja, það er ómögulegt að segja, vonandi vilja afkomendurnir a.m.k. eiga jörðina en hefðbundinn búskapur með sauðfé eða kýr verður varla stundaður, enda möguleikarnir svo miklu fleiri, skógræktin verður vonandi stunduð og t.d. ferðaþjónusta.“

Nú gengur COVID19 yfir heiminn, það eru skrýtnir tímar sem við lifum. Hvernig er að vera bændur á þessum tíma og eruð þið með einhverjar ráðstafanir í því sambandi eða gengur allt „eðlilega“ fyrir sig?

„Hér gengur í sjálfu sér allt sinn vanagang á búinu, en við takmörkum mjög gestakomur og förum lítið innan um fólk. Verst er þegar fjölskyldumeðlimir geta ekki komið.  En það er ekkert um annað að ræða en þreyja þorrann og góuna og halda þetta út. Það er ekkert að skemma fyrir eins og í haust að geta verið úti dögum saman að planta trjám, nú eða smala sauðfé,“ segir Viðar.

Staðan í landbúnaði gæti verið betri

Ef við horfum til íslensks landbúnaðar í dag, hvernig líst ykkur á stöðuna og framtíðina? 

„Staðan gæti vissulega verið betri, samstaða bænda og ákveðni til að berjast fyrir bættum hag er því miður ekki mikil. Landbúnaðarráðherra er nú nýlega búinn að segja okkur að sauðfjárbúskapur sé t.d.  „lífsstíll“ og þá skipti afkoman engu máli,“ segir Sigríður.

Þegar þið eruð ekki að vinna við búskapinn, hvað gerið þið ykkur til ánægju og afþreyingar, fjölskyldan, til að brjóta upp hvers daginn? 

„Við höfum gaman af að fara um hálendið og er afrétturinn okkar alltaf heillandi. Barnabörnunum finnst sport að fá að veiða  þarna inn frá og fegurðin er einstök.  En góð ganga um heimaslóðir er líka ágæt,“ segja þau bæði að lokum. 

Barnabarnið  Viðar Freyr hjá uppáhalds kindinni sinni, sem heitir Díanna. 

Systkinin Helga Björk, Kári og Úlfur í sveitinni hjá afa og ömmu.

Skylt efni: Kaldbakur | örsláturhús

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...