Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Björgvin sáir byggi 14. maí, en hann sáir ár hvert í um 160–200 hektara land í Gunnarsholti. Þetta ár sáir hann í 170 hektara, nepju í 40 hektara og vetrarhveiti í tæpa 40 hektara.
Björgvin sáir byggi 14. maí, en hann sáir ár hvert í um 160–200 hektara land í Gunnarsholti. Þetta ár sáir hann í 170 hektara, nepju í 40 hektara og vetrarhveiti í tæpa 40 hektara.
Mynd / smh
Líf og starf 26. maí 2020

Einn hektari getur gefið af sér tæpt tonn af svínakjöti

Höfundur: smh
Einn umsvifamesti kornræktandi landsins er svínabóndinn Björgvin Þór Harðarson í Laxárdal í Skeiða- og Gnúpverjahreppi á bökkum Stóru-Laxár. Hann og fjölskylda hans, sem stendur á bak við svínabúið, hefur á undanförnum árum markað sér heildstæða nálgun á búskapinn þar sem slagorðið er frá „akri í maga“.
 
Að mestu leyti ræktar Björgvin sitt eigið svínafóður, þar sem bygg er stærsti hlutinn. Hann er líka óhræddur við að prófa aðrar fóðurtegundir sem þjóna mismunandi tilgangi í fóðursamsetningunni. 
 
„Hér erum við með vetrarhveiti sem var sáð í byrjun ágúst í fyrra,“ segir Björgvin, þar sem við hittumst á athafnasvæði hans í Gunnarsholti rétt hjá höfuðstöðvum Landgræðslunnar, sem hann leigir ræktarlönd sín af. „Þetta lifði veturinn af þó hann hafi verið langur og kaldur, en það er allt í lagi fyrir vetrarhveiti ef það er ekki mjög rysjótt tíð. Það er líka mjög viðkvæmt fyrir kali, en hér háttar þannig til að það kelur ekki mikið. En þar sem landið liggur í smá lægðum sjáum við svolitlar skellur, þess vegna er mikilvægt að það séu góð næringarefni í jarðveginum fyrir veturinn.“
 
Björgvin og sonur hans, Auðunn Magni, í vetrarhveitiakrinum á Rangárvöllum, með fallega fjallasýn í bakgrunni.
 
 
Hveitið er orkuríkt fóður í svínin
 
Björgvin er þó enginn nýgræðingur í ræktun á vetrarhveiti og hefur gert það með hléum í allmörg ár.  Hann er með 37 hektara undir vetrarhveitið í þetta skiptið, en það er mjög orkuríkt fóður fyrir svínin. Það þarf að taka ýmislegt inn í reikningsdæmið þegar ákvörðun um ræktun á fóðurkorni er tekin, til dæmis staða íslensku krónunnar og heimsmarkaðsverð á fóðri. Ef þessar hagrænu aðstæður eru hagstæðar fyrir innkaup, borgar sig tæpast að rækta tegundir eins og vetrarhveiti. En það er einnig ákveðin spákaupmennska fólgin í slíkri ræktun, því á heildina litið tekur tvö ár að rækta vetrarhveiti; frá því að jarðvegurinn er undirbúinn þar til skorið er upp. 
 
„Ég hef hins vegar haldið mig við sama magn af byggi, sáð í svona 160–200 hektara, auk þess sem nepjan er í stöðugri ræktun. Síðan er stundum einhver tilraunamennska í gangi hjá mér; í ár eru það bóndabaunir og sinnepsjurt. Bónabaunirnar er ég að prófa sjálfur og ef það heppnast vel gæti það orðið góður próteingjafi – sem valkostur með nepjunni við innfluttar sojabaunir. Sinnepstilraunin er hins vegar unnin í samvinnu við hjón í Fljótshlið sem langaði til að prófa þetta.
 
Það eru ýmsir kostir við það að rækta eigið fóður og einn sá mikilvægasti er að mínu mati ferskleikinn – ekki síst í sambandi við nepjuna. Við nýtum olíuna og hratið úr henni. Við mölum nepjuna í hverja blöndu þannig að ekki er hætta á að olían eða hratið þráni. En það getur gerst ef nepjan er pressuð til að taka úr henni olíuna en hratið getur þá þránað á einni til tveim vikum, fer eftir hitastigi.
 
Úr henni fást líka góðar fitusýrur, sem við höfum fengið staðfest úr mælingum á okkar gripum,“ segir Björgvin.
 
Sjálfbærni eftirsóknarverð
 
„Maður vill reyna að vera sem mest að vera sjálfbær hér og sem minnst háður aðföngum sem gjarnan eru ræktuð á risastórum skala með tilheyrandi eiturefnanotkun. Ég held að það sé alltaf að þróast meira í þá átt að neytendur vilji ekki vörur þar sem notast hefur verið við erfðabreyttar plöntur í framleiðsluferlinu, sem eiga að þola tiltekin eiturefni. 
 
Við komumst reyndar ekki hjá því að nota illgresiseyði eins og gert er í túnrækt í dag. En það er í mjög litlu magni. Við setjum 10 grömm af efni á hektara í júní. Þá eru tveir mánuðir í þreskingu.
 
Við erum með nokkur verkefni undir okkar hatti en afurðirnar okkar bera vörumerkið Korngrís frá Laxárdal. Það eru mikil verðmæti fólgin í því að geta ræktað svo mikið fóðurkorn sem raun ber vitni og til marks um það má segja að einn hektari af okkar kornakri getur gefið af sér um 800–900 kíló af svínakjöti. Við rekum okkar eigin kjötvinnslu í Árnesi undir merkinu Korngrís þar sem við framleiðum margs konar vörur; beikon, mismunandi skinkuafbrigði. Þar er mottó hjá okkur að nota engin aukaefni sem ekki er nauðsynlegt að nota við vinnsluna; ekkert soja, engin litar- eða bragðefni – já, bara eins hreinar vörur og hægt er að hafa þær. Þessar vörur eru bæði seldar beint til neytenda, en við notum þær líka sem álegg fyrir Pizzavagninn sem fer um þéttbýliskjarna í sveitum hér,“ segir Björgvin.
 
Hveitið fer hægt af stað
 
Þegar blaðamaður var á ferð í Gunnarsholti var hveitigrasið komið aðeins af stað, en vegna þess hversu vorið hefur verið kalt er heldur hægur vöxturinn. „Það þarf nú að þroskast vel í sumar, gæti náð einum og hálfum metra í hæð. Svo skríður það í júlíbyrjun, myndar fræ og verður skorið í september. 
 
Þetta er mjög gott fóður, en þú bakar nú held ég ekki úr þessu brauðmeti til manneldis. Við höfum hins vegar í vinnslunni okkar blandað þessu saman við byggið okkar og gert rasp úr því. Síðan höfum við sett þetta á svínasnitsel og selt viðskiptavinum okkar,“ segir Björgvin.
 
 
Gras, rauðsmári og bygg
 
Björgvin nýtir sér rauðsmára við ræktun á túnum. Hann byrjar á því að skjólsá grasinu, þannig að hann sáir grasi, rauðsmára og byggi öllu samtímis að vori. Að hausti þreskir hann byggið, eftir stendur grasið sem verður að túni með grasi og rauðsmára næsta sumar. Aðganginn að því grasi selur Björgvin öðrum bónda sem þarf á því að halda næstu fjögur árin og svo á fjórða ári þá er tekinn fyrri sláttur og þá tekur hann við landinu aftur, plægir það og sáir hveiti í það. Þá hefur hann náð að hafa út úr því uppskeru öll árin þó hann sé með tvíært hveiti. Rauðsmárinn safnar köfnunarefni í jarðveginn sem hveitið nýtir svo árið eftir. 
 
Björgvin segir að hann telji að Íslendingar eigi heilmikið inni í kornrækt. „Bændur þurfa bara að átta sig á þeim möguleikum sem þeirra land býður upp á og gefa sér smá tíma til að komast til botns í verkefninu. Að rækta korn þannig að það gefi uppskeru og það verði ekki allt of mikil vinna. Menn mikla þetta gjarnan of mikið fyrir sér. Stundum eru þeir að gera þetta í of litlum mæli, en ég bendi á að stærðarhagkvæmnin getur stundum alveg átt rétt úr sér.“ 
 
Stóra kornsílóið í Laxárdal var reist árið 2009 og hefur vel sannað gildi sitt að sögn Björgvins. Það er rúmlega 13 metra hátt og tekur um 400 tonn.
Jólin komu snemma fyrir norðan
Líf og starf 27. desember 2024

Jólin komu snemma fyrir norðan

Það mátti greina spennu og tilhlökkun í augum Þingeyings sem óðamála sagði umsjó...

Sinn er siður í landi hverju
Líf og starf 27. desember 2024

Sinn er siður í landi hverju

Líkt og Íslendingar eiga Grænlendingar og Færeyingar sér sterkar jólahefðir sem ...

Ár umbreytinga og innsæis
Líf og starf 27. desember 2024

Ár umbreytinga og innsæis

Eins og siður er kastaði völva Bændablaðsins beinum sínum og opnaði fyrir flæði ...

Hvað er í jólamatinn og af hverju?
Líf og starf 23. desember 2024

Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Spurning dagsins: Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...