Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Ólafur Sigurgeirsson og nokkrar af vélunum hans.
Ólafur Sigurgeirsson og nokkrar af vélunum hans.
Mynd / ÁL
Líf og starf 20. júní 2022

Eitt stærsta safn Massey Ferguson-dráttarvéla á landinu

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Ólafur Sigurgeirsson, bóndi á Þaravöllum í Hvalfjarðarsveit, rétt innan við Akranes, er með stórt safn dráttarvéla heima á bæ hjá sér sem er einstakt fyrir marga muni. Ólafur og synir hans eiga samtals í kringum 30 vélar, sem eru nær alfarið Massey Ferguson í nothæfu ástandi.

Þegar ekið er að Þaravöllum sjást Massey Ferguson dráttarvélar standa í röðum þannig að það mætti halda að maður væri kominn á geymsluplanið hjá framleiðandanum sjálfum, enda er fjöldinn á dráttarvélum svo mikill og ástandið á þeim öllum svo gott. Er blaðamaður rennur í hlaðið er Ólafur
upptekinn við að sandblása bretti á Massey Ferguson 4245 sem hann eignaðist síðasta haust. Ólafur og fjölskyldan hans er með góða aðstöðu til þess að sinna vélaáhuganum og eru þau búin að koma sér upp góðu vélaverkstæði á Þaravöllum.

Þrír nýjustu traktorarnir á Þaravöllum. Allir nýbónaðir og glansandi.

„Ég hef oft látið mig dreyma um að byggja almennilega vélaskemmu og gera safn utan um þetta en það strandar á fjármagni.“

Ólafur er þó úrræðagóður við að koma vélunum sínum fyrir, en á veturna geymir hann vélarnar í hinum og þessum skemmum og skotum sem eru svo notaðar sem sauðburðaraðstaða á vorin.

Listaverkfæri

Ólafur getur ekki svarað því beint af hverju hann er með áhuga á Massey Ferguson frekar en öðrum tegundum.

„Þessar dráttarvélar hafa reynst okkur vel, en þetta er eiginlega tilviljun. Ég hef ekkert á móti öðrum tegundum og hef átt aðrar gerðir í gegnum tíðina.“

Hann segist ekki hafa nákvæma tölu á þeim fjölda dráttarvéla sem eru á bænum. „Sjálfur á ég allavega 25 sem eru notaðar til skiptis.“

Ólafur er þó ekki einn um að vera með áhuga á vélum og tækjum á bænum, enda taka synir hans og barnabörn þátt af fullum krafti. Nokkrar vélar og bílar eru til að mynda í eigu þeirra.

Á verkstæðinu á Þaravöllum. Á myndinni sjást Daníel Þór Gunnarsson, Ólafur og Ásgeir Þór Ólafsson.

„Ég á nokkra smátraktora sem eru meira upp á gamanið eins og Gamla Grána og Massey Ferguson 135, en langflestar dráttarvélarnar eru tiltölulega stórar og mjög gagnlegar til almenns brúks.“

Hann á til að mynda níu stykki af Massey Ferguson 390.

„Massey Ferguson 390 eru listaverkfæri og ég hef lagt mig sérstaklega fram við að reyna að komast yfir þær. Þetta eru svo þægilegir og einfaldir traktorar og mátulegir í stærðum,“ segir hann en þetta eru 80 hestafla vélar.

Eina dráttarvélin á bænum sem Ólafur keypti nýja er Massey Ferguson 5455. „Það er ein af uppáhaldsvélunum mínum og sú sem er notuð hvað mest. Þrátt fyrir að vera í daglegri notkun þá er hún eins og ný og hvergi ryð á henni að sjá.“

„Það er ekkert nema tapið að vera með þetta í vinnu“

Fjölskylda Ólafs tekur þátt í bústörfunum með honum og því getur það komið sér vel að eiga nokkrar dráttarvélar. Í heyskap er til að mynda aldrei slegið með færri en tveimur dráttarvélum og oft notaðar þrjár snúningsvélar í einu.

Þrátt fyrir að vera vel tækjum búinn hefur Ólafur ekki mikinn áhuga á því að nota vélarnar í verktöku. „Ég græði mest á því að láta þetta standa kyrrt.

Það er ekkert nema tapið að vera með þetta í vinnu einhvers staðar og láta þetta eyðileggjast.“

Massey Ferguson í röðum og Volvo vörubíll, árgerð 1978.

Vantar Massey Ferguson 185

Ólafur hefur ekki verið að safna dráttarvélum markvisst lengi.

„Líklegast byrjaði þetta fyrir alvöru fyrir 10-15 árum og ég er hvergi nærri hættur að safna. Ég er að leita að öllum tegundum af dráttarvélum en það er ein gerð sem ég leita sérstaklega að. Það er Massey Ferguson 185. Ég hef séð nokkrar auglýstar á undanförum árum, en ég hef alltaf rétt svo misst af þeim.“

Ólafur leggur oft mikla vinnu á sig við að komast yfir vélar sem honum líst vel á, en eins og hann orðar það þá eru það allt svokallaðar ævintýraferðir.

„Ég hef sótt margar vélar á Selfoss en það er misjafnt hvernig ég kem þeim heim. Stundum keyri ég þær en svo á ég líka tvo vörubíla sem ég get flutt þær á.“

Ekki meðlimur í áhugamannafélagi um Massey Ferguson

Ólafur hefur ekki hitt marga sem eru með sambærilegan áhuga á dráttarvélum og hann, þótt hann viti að hann sé ekki sá eini. Til er áhugamannafélag um Massey Ferguson dráttarvélar, sem hann er þó ekki meðlimur í.

Áhuginn einskorðast þó ekki alfarið við dráttarvélar en Ólafur á líka samtals tíu bíla. Þar af eru átta Toyota jeppar og tveir vörubílar.

„Toyota bílar bera bara af,“ segir hann en á bænum er gott safn Hilux og Land Cruiser. Hvað vörubílana varðar þá er einn Volvo sem er árgerð 1978 og einn Mercedes-Benz árgerð 1984.

Á Þaravöllum var blandað bú með kindum og kúm þangað til um síðustu áramót þegar fjölskyldan hætti með kýrnar. Núna eru 400 kindur eftir á bænum.

„Loksins er orðinn tími til að sinna aðalmálunum, það er vélunum og kindunum. Sauðfjárhald er miklu skemmtilegra en kúabúskapur. Það er miklu meiri stemning í kringum sauðféð samanborið við kýrnar,“ segir Ólafur Sigurgeirsson, bóndi á Þaravöllum.

Skylt efni: Massey Ferguson

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...