Endalausir möguleikar til atvinnuuppbyggingar og nýsköpunar
Það er óhætt að segja að Breiðin á Akranesi sé búin að ganga í endurnýjun lífdaga en Akraneskaupstaður og Brim starfa nú saman að því að koma þróunarfélaginu Breið af stað í gömlu fiskvinnsluhúsnæði á Bárugötunni í bænum. Markmiðið er að byggja upp og styðja við atvinnuuppbyggingu og nýsköpun á Akranesi til framtíðar og segja Valdís Fjölnisdóttir, framkvæmdastjóri þróunarfélagsins, og Gísli Gíslason stjórnarformaður tækifærin mýmörg fyrir nýsköpun og samstarf ólíkra aðila.
„Menn stóðu frammi fyrir því fyrir fjórum árum að fara úr því að hafa hér fulla starfsemi í fiskvinnslu en síðan verður stór breyting á stuttum tíma þegar þau störf hverfa héðan og þá voru góð ráð dýr. Verkefnið var því að snúa vörn í sókn og vinna í því að auka virðið hér á staðnum,“ segir Gísli um tilurð þess að Þróunarfélagið Breið varð að veruleika.
Hreiður fyrir vinnslu á hugmyndum
Samvinnurými þróunarfélagsins er í gömlu fiskvinnsluhúsnæði Brims ,steinsnar frá Langasandi með glæsilegu útsýni út á hafið. Hér eru því hæg heimatökin að gefa hugmyndafluginu lausan taum um leið og fólk sinnir ólíkum verkefnum og skapar sér öflugt tengslanet á sama tíma.
„Þetta fer vel af stað og það er ógrynni af möguleikum. Við teljum okkur geta lagt talsvert af mörkum hér til að ýta undir atvinnuuppbyggingu og koma á tengslum. Það er undirliggjandi býsna víða að það vantar hreiður fyrir vinnslu á hugmyndum og Breiðin er einmitt kjörinn staður til þess. Það hefur einnig breyst mikið hugarfarið og vinnutilhögun hjá fólki í kjölfar COVID19 og því fær hugtakið störf án staðsetningar nýja merkingu. Það eru ótrúleg samlegðaráhrif að geta haft ólíka aðila hér innanborðs því hér nýtast bæði hæfni og hæfileikar á hverju borði þar sem hugmyndir og samstarf getur sprottið fram. Góð blanda styrkir alla,“ útskýrir Valdís.
Gísli Gíslason, stjórnarformaður þróunarfélagsins Breiðar á Akranesi, og Valdís Fjölnisdóttir, framkvæmdastjóri félagsins, líta björtum augum til framtíðar varðandi uppbyggingu á Akranesi. Mynd / ehg
Skapar ýmsa möguleika
Svæðið er 11 hektarar að stærð, á besta stað á Akranesi, við sjávarsíðuna, og blasir Akranesvitinn við í allri sinni dýrð af efstu hæð hússins, en hann er orðinn eitt mesta aðdráttarafl í komu ferðamanna til bæjarins.
„Þetta er algjört einsdæmi, það er að einkaaðili, sem er Brim í þessu tilfelli, eigi svona stórt svæði hér með húsnæði sem við getum breytt og bætt að starfseminni. Þetta er einstakt tækifæri varðandi atvinnuuppbyggingu. Við viljum vera segull fyrir ferðaþjónustuna hér á svæðinu. Akranes hefur upp á margt að bjóða og liggur vel á milli höfuðborgarsvæðisins og Vestur og Norðurlands. Hér er til dæmis Guðlaug Baths, heitar laugar á Langasandi, sem laðar að allt að 15 þúsund manns á ári,“ útskýrir Gísli og Valdís bætir við:
„Það eru háleitar hugmyndir um skipulag svæðisins og í framtíðaráformum er áætlað að byggja hér upp heilsutengda ferðaþjónustu, jafnvel íbúðabyggð og frekari atvinnuuppbyggingu. Enda er um stórt landsvæði að ræða hér á besta stað í bænum sem verður endurskipulagt upp á nýtt svo það eru mjög spennandi tímar fram undan.“
Hvernig náum við árangri?
Um 30% Akurnesinga 18 ára og eldri keyra til Reykjavíkur vegna náms eða vinnu en með því að lækka þessa tölu væri svo sannarlega hægt að fækka kolefnissporum þessa hóps.
„Það er klárlega styrkur fyrir samfélagið að geta haldið hæfileikaríku fólki hér á svæðinu. Við vonumst til þess að starfsemin hér geti skapað tengingar sem geta leitt af sér gott samstarf á ólíkum sviðum. Þetta snýst jú fyrst og fremst um það hvernig við ætlum að ná árangri og hvernig við getum skapað verðmæti fyrir framtíðina. Það er mýgrútur af möguleikum og við viljum vera svona eins og olía á tannhjólin við það að koma hlutum í gang og tengja saman ólíka aðila,“ segir Gísli.
Nýir gluggar opnast
Þróunarfélagið hefur komið að ýmsum samstarfsverkefnum og horfa aðrir landshlutar einnig til þeirrar uppbyggingar sem nú er á Breiðinni.
„Í byrjun desember skrifuðum við undir samstarfssamning við atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytið, Reykjavíkurborg, Orkuveituna, Hvalfjarðarsveit, Faxaflóahafnir, Sorpu, Terra, Þróunarfélag Grundartanga um grænan hraðal, sem ætlað er að hraða þróun verkefna og hugmynda sem takast á við aðsteðjandi umhverfisvanda. Þannig drögum við úr umhverfisáhrifum, fjölgum störfum og aukum hagvöxt. Þetta er mjög spennandi verkefni þar sem við horfum til framtíðar varðandi loftslagsmál og sjálfbærni,“ segir Valdís og Gísli bætir við:
„Við höfum fengið fyrirspurnir frá öðrum sveitarfélögum sem taka eftir því sem hér er gert. Það er von okkar að starfið hér verði hvatning fyrir aðra til að gera svipaða hluti. Menn sjá að það þarf að gera eitthvað til að auka atvinnusköpun úti á landsbyggðinni og með þeirri hugsun sem er orðin ríkari að margir geta í raun unnið störfin hvar sem er, þá skapast tækifæri og það opnast nýir gluggar fyrir sveitarfélögin að koma á fót slíkum þróunarfélögum.“