Ég lifi samkvæmt því sem mér finnst
Áhrifamáttur íslenskra lækningajurta hefur verið landsmönnum kunnur yfir aldir og grasalæknar átt sinn sess í sögu okkar landsmanna.
Landið okkar er ríkt af ýmiss konar jurtum sem auðvelt er fyrir leikmenn að finna og tína en samkvæmt Önnu Rósu Róbertsdóttur grasalækni er urmull nýtanlegra tegunda hérlendis.
Áhugi hennar sjálfrar á grasalækningum kviknaði óvænt á unglingsárunum eftir lestur blaðagreinar um efnið og hélt Anna Rósa því til náms við skólann College of Phytotherapy í Englandi árið 1988. Hún útskrifaðist 1992 og gerðist í framhaldinu meðlimur í National Institute of Medical Herbalists in UK, einu elsta félagi grasalækna á heimsvísu, stofnað árið 1894.
Atorkumikil og fylgin sér
Gegnum tíðina hefur Anna Rósa unnið og þróað smyrsl sín, boðið upp á ráðgjöf og sérblandað tinktúrur og te fyrir sjúklinga sína. Nú, eftir um þriggja áratuga skeið, hefur hún þó tekið þá ákvörðun að taka hlé á þeirri þjónustu, er að finna flestar upplýsingar og ráð á blogginu hennar. Framleiðslan hefur þó síður en svo stöðvast, en nýverið opnaði Anna Rósa verslun í samstarfi við son sinn, Álfgeir, sem sér í raun alfarið um reksturinn. Verslunin, sem einungis er opin tvo daga í viku, er afar vinsæl, en þar kennir ýmissa grasa ... ef svo má að orði komast!
Blaðamaður leit við og heimsótti þessa lífsglöðu og orkumiklu konu sem hefur það að kjörorði í lífinu að hamingjan skuli vera í fyrirrúmi. Anna Rósa er einnig afar atorkumikil og jafnframt því að reka nú verslun, sinna jurtatínslu, þurrka og vinna afurðina og framleiða smyrsl, te og tinktúrur, hefur hún gefið út bækur, staðið fyrir bloggi og unnið sína eigin vefsíðu og vefnámskeið svo eitthvað sé nefnt. Einnig er hún afar gefin fyrir lestur bóka og les a.m.k. þrjár bækur vikulega á Kindle sem hún lofar í hástert.
Lærir af litríkri flóru viðskiptavina sinna
„Jú, við Álfgeir komumst að því að þetta er bara ótrúlega gaman – að reka verslun,“ segir Anna Rósa hlæjandi, „það er öll flóra mannlífsins sem lítur hérna inn og hentar meðal annars þeim sem ekki eru vanir að versla mikið á netinu.
Fólk spjallar og segir mér sögur af því hvaða smyrsl þau nota og hvernig samvirkni þeirra er og ég læri ýmislegt af þeim líkt og þau af mér. Það er áhugavert og gaman að heyra af því frá fleirum en einum, að einhver tvö eða þrjú krem virki best saman. Til dæmis er samsetning hjá mér, ætluð þeim er glíma við rósroða komin til vegna þess hve viðskiptavinir mínir hafa ítrekað bent mér á góða samvirkni.
Rósroðann er semsé hægt að minnka með notkun 24 stunda krems, græðikrems og lúxusprufu af bóluhreinsi! Þetta hefði ég ekki endilega látið mér detta íhug–ennaut þarna góðs af spjalli við viðskiptavini. Enda er ég alltaf til í að hlusta,“ segir Anna Rósa og brosir.
Með sjálfbærni og sjálfstæði í fyrirrúmi
„Ég er annars afar sjálfstæð í þessu öllu saman, heldur hún áfram, tíni jurtirnar og vinn sjálf. Hér fyrir innan búðina er þurrkgrind sem ég og maðurinn minn smíðuðum eitt sinn, svo og pottarnir mínir sem ég nýti við gerð smyrsla og tinktúruvél. Ég hef kosið að gera þetta sjálf, hér, í stað þess að versla mér þjónustu því ég vil vera viss um að framleiðslan sem ég set nafn mitt við sé sem hreinust.
Vélar og tæki annars staðar frá eru t.d. stundum þvegin með kemískri sápu sem ég vil ekki að mín framleiðsla komist í snertingu við þó í örlitlu magni sé. Með því að sjá um þetta sjálf, gera þetta í höndunum, get ég stjórnað slíku. Ferlið hjá mér er gagnsætt, fólk kann að meta það og veit að það getur treyst vörunum sem koma frá mér. Þannig héðan af Langholtsveginum er öll framleiðslan unnin nema sveppateið. Það kemur frá vinafólki mínu í Bandaríkjunum sem er með lífrænt vottaðan búgarð og hefur verið afar vinsælt. Lion‘s Mane t.d. hefur verið að gera góða hluti enda upplagt til að viðhalda heilbrigðu taugakerfi.“
Anna Rósa er afar meðvituð um umhverfisáhrif iðnaðar og framleiðslu en vert er að geta þess að allar krukkur og flöskur sem geyma framleiðsluna eru úr hágæða gleri sem veitir meðal annars vernd gegn skaðlegum áhrifum ljóss og eykur geymsluþol. Þessar flöskur eru 100% endurvinnanlegar og framleiddar í Evrópu – sem þýðir minna kolefnisspor og ein af ástæðum þess að Anna Rósa valdi þær umfram aðrar umbúðir. Kassar utan um varninginn eru úr FSC (Forest Stewardship Council), vottuðum pappír frá sjálfbærum skógum og eru að sjálfsögðu 100% endurvinnanlegir.
Bókaútgáfa í kjölfar upplýsingavinnslu
„Í raun, vegna þess að mig langaði að hafa yfirlit yfir þetta allt saman,“ segir Anna Rósa, „viðaði ég að mér upplýsingum og skrifaði niður allt er viðkemur íslenskum jurtum – gaf svo út bók sem nú er reyndar uppseld á íslensku – en hún ber heitið Íslenskar lækningajurtir.
Hana er enn að finna í einhverju magni á ensku reyndar. Í þessari yfirgripsmiklu bók minni er m.a. gerð grein fyrir lækningamætti íslenskra jurta, sögu þeirra og notkun auk umfangsmikillar samantektar á vísindalegum rannsóknum sem gerðar hafa verið á íslenskum lækningajurtum. En þarna fékk ég sjálf yfirlit yfir það sem mig vantaði og hefur vonandi reynst áhugasömum vel. Ég hef gefið út fleiri bækur reyndar, en þessi hefur að minnsta kosti reynst mér sjálfri ógurlega vel við uppflettingar.“
Námskeið og næstu skref
„Ég er þannig gerð, heldur hún áfram, „að ég fæ ógrynni hugmynda, en er sem betur fer afar skipulögð og næ að flokka hugmyndirnar niður í eitthvað sem mætti taka lengra og annað sem má bara gleyma. Þegar ég tók þá ákvörðun að hætta ráðgjöfinni og beina fólki frekar á að þær upplýsingar mætti finna á blogginu mínu – opnaðist tími sem mig langaði að nota í eitthvað skemmtilegt. Ég ákvað að setja upp námskeið, vefnámskeið sem verður í boði aðeins í mjög stuttan tíma.
Skráningu á það lýkur einmitt 12. september nk. og verður svo ekki í boði fyrr en aftur á næsta ári. Þar mun ég kynna fyrir fólki vel fram settar og fræðandi upplýsingar um virkni og notkun íslenskra lækningajurta. Fjórtán tegundir jurta til að byrja með, plöntur sem flestir ættu að þekkja, og meðal annars má þar finna myndbönd um hvernig best er að tína þær.“
Grasalækningar í þágu fjölskyldunnar
„Námskeiðið skiptist í kafla; lækningajurtir – sögu þeirra, hvernig þær eru tíndar, þurrkun og geymsla, kennt er hvernig á að vinna úr þeim, hvað á við er kemur að sjúkdómum og allar uppskriftir. Þetta eru 89 hlutar sem þýðir 89 myndbönd,“ segir Anna Rósa og hlær, „enda hef ég verið að dunda mér
við að búa námskeiðið til um nokkurn tíma eins og þú getur ímyndað þér!
Ég segi einnig frá hvernig við maðurinn minn smíðuðum þurrkgrind heima á stofugólfi ef fólk vill gera slíkt hið sama. Hvar best er að skera eða klippa jurtirnar, á stilknum, blómið, laufin og þar fram eftir götunum. Það er afar vel farið í saumana á þessu öllu saman, auk þess sem ég er nokkuð viss um að þetta hafi aldrei verið gert hérlendis og námskeiðið því fyrsta sinnar tegundar,“ segir hún brosandi.
„Uppskriftirnar innihalda m.a. teblöndur, fjallað er um skol og bakstra og hægt er að sækja sér þær upplýsingar á pdf formi. Allt sem þú þarft nauðsynlega að vita til þess að vera þinn eigin grasalæknir.
Einfaldir hlutir og vinnsla sem hægt er að nýta í eigin þágu og fyrir fjölskylduna er tilgangurinn með þessu öllu saman.
Þetta er vefnámskeið og því auðvelt að líta yfir þetta á sínum eigin tíma, en einnig fá þátttakendur að hitta mig í eitt skipti ef spurningar vakna – auk þess sem lokuð Facebook-grúbba verður í gangi.
Ég er mjög spennt yfir þessu skrefi og lít á það sem skemmtilega viðbót við ferilinn hjá mér. Reyndar er ég auðvitað með fleiri námskeið í þessum dúr og aðrar hugmyndir bak við eyrað því eitt opnar fyrir annað og flæðið endalaust.“
Skemmtilegast að miðla
Anna Rósa heldur áfram, „mér finnst líka svo skemmtilegt hversu fólk virðist opnara fyrir grasalækningum heldur en fyrir þrjátíu árum.
Sonur minn áðurnefndur er t.d. á þrítugsaldri og hefur alist upp við þetta, ásamt heimagöngunum vinum sínum – enda þykir þeim ekkert sjálfsagðara en að leita til grasalækninga þegar eitthvað bjátar á. Þetta kemur sér vel í samstarfi okkar enda veit hann algerlega um hvað ræðir er kemur að framleiðslu og rekstri fyrirtækisins.
Samstarf okkar gerir mér svo kleift að einbeita mér að því sem mér þykir skemmtilegast – að miðla þekkingunni!“