Falleg og fróðleg Flóra
Flóru Íslands eru gerð góð skil í samnefndri bók sem Vaka-Helgafell sendi nýlega frá sér. Bókin sem er bæði falleg og fróðleg er í stóru broti og inniheldur myndir, lýsingar og fróðleik um allar æðplöntur sem teljast til íslensku flórunnar.
Hörður Kristinsson, Jón Baldur Hlíðberg og Þóra Ellen Þórhallsdóttir eru höfundar að nýútkominni Flóra Íslands – blómplöntur og byrkningar. Bókin er stór og yfirgripsmikil og þar er fjallað um allar 467 æðplöntur í íslensku flórunni í máli og myndum. Auk þess sem í inngangi er sagt frá plöntum sem lífverum, meðal annars byggingu, lífsferli og þróun þeirra og rannsóknum á íslenskum gróðri. Hörður og Þóra eru höfundar textans en Jón Baldur gerði myndirnar.
Langur aðdragandi
Þóra Ellen Þórhallsdóttir, grasafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands, segir að hún hafi komið síðust af þeim þremur að vinnu bókarinnar. „Satt best að segja er erfitt að rekja upphafið að tilurð bókarinnar og kannski má segja að upphafið sé útgáfa Plöntuhandbókar Harðar árið 1986. Í þeirri bók er að finna lýsingar á íslenskum plöntum og útbreiðslukortum. Lýsingarnar eru miklu ítarlegri í Flóru Íslands og þar er mun meira sagt um plönturnar.“
Þóra Ellen Þórhallsdóttir, grasafræðingur og prófessor við Háskóla Íslands.
Jón Baldur Hlíðberg myndlistarmaður segir ljóst að það hafi verið unnið að gerð Flóru Íslands af hálfu grasafræðinga alla tíð þannig séð. „Mér skilst að hugmyndin að þessari útgáfu af Flóru Íslands hafi komið fram fyrir aldamótin 2000 hjá Herði og Náttúrufræðistofnun. Sjálfur hef ég gengið með þessa hugmynd í þrjátíu ár og langað að gera myndir í fjórar bækur um íslenska náttúru, spendýr, fiska, fugla og plöntur sem núna eru allar komnar út. Um 2005 lágu leiðir okkar Harðar saman og þá fórum við að ræða saman um hvort við ættum að vinna saman að gerð bókar um flóru Íslands en áköf og einbeitt vinna að henni hefur staðið í tíu ár.“+
Jón Baldur Hlíðberg myndlistarmaður.
Íslenskar flórur
Þóra segir að fyrsta Flóra Íslands hafi komið út 1901 og sé skrifuð af Stefáni Stefánssyni og endurútgefin 1924 og 1948. „Þegar kemur fram á seinni helming tuttugustu aldarinnar setti Hið íslenska náttúrufræðifélag á laggirnar nefnd sem átti að undirbúa nýja útgáfu af flórunni, en af því varð þó ekki. Bók Stefáns er hugsuð sem handbók sem fólk tekur með sér og notar til að greina plöntur úti í náttúrunni og fyrst þegar farið var að tala um að gefa úr nýja Flóru Íslands var stefnt að 4. útgáfu af Flóru Stefáns. Hugmyndin um að gefa út svona stóra bók er ekki svo gömul.“
Frá síðustu endurútgáfu á Flóru Stefáns hafa komið út að minnsta kosti þrjár flórur eða plöntugreiningarbækur, Íslensk ferðaflóra eftir Áskel Löve, Íslensk flóra með litmyndum eftir Ágúst M. Bjarnason og Íslenska plöntuhandbókin eftir Hörð Kristinsson. Allt eru þetta góðar handbækur sem ætlað er að hjálpa fólki við að greina plöntur.
„Flóra landsins er aftur á móti stórt fyrirbæri,“ segir Jón Baldur, „sem verður ekki gerð veruleg skil nema í stórri og ítarlegri bók.“
Vatnslitamyndir unnar eftir eintökum sem Jón safnaði sjálfur
Jón Baldur segir að þegar farið var af stað með gerð bókarinnar hafi hann langað til að finna sjálfur sem flestar plöntur til að greina og vinna myndirnar eftir.
Snækobbi.
„Mér tókst það að mestu leyti þannig að langflestar myndirnar eru unnar eftir eintökum sem ég fann og bar heim í hús. Myndirnar eru allar vatnslitamyndir og málaðar með penslum og stærðin á myndunum er mismunandi. Puntgrösin eru til dæmis máluð í allt að þrefaldri stærð til að ná fínleika þeirra, aðrar myndir eru í hlutföllunum einn á móti einum en myndir af smærri plöntuhlutum, hulstrum og hlífum sem dæmi nota ég víðsjá til að greina smáatriðin og stækka þau.
Ég var því mikið á ferðinni á sumrin við að safna plöntum og eins og fjölskyldan getur staðfest hef ég ekki farið af landinu yfir sumartímann í fjölmörg ár. Satt best að segja held ég að ég eigi það sameiginlegt með Herði og Þóru að verkefnið átti hug okkar allan um tíma.“
Að sögn Þóru Ellenar vann hún bókina samhliða kennslu við Háskóla Íslands og öðrum verkefnum, „oft á kvöldin og um helgar þegar næði gafst“.
Verkaskipting við vinnslu á texta
Þóra Ellen segir að verkaskipting milli hennar og Harðar hafi verið þannig að Hörður skrifar plöntulýsingarnar og segir frá greiningareinkennum. Útbreiðslukortin byggja á gagnagrunni Náttúrufræðistofnunar sem Hörður hafði lengst af umsjón með. Mjög margir hafa lagt skráningar á plöntum inn í gagnagrunninn en Hörður á þar langdrýgstan skerf.
Fjallabláklukka.
„Hörður rekur hverjir skráðu tegundina fyrst og hvar og segir frá fundarstöðum plantnanna og nytjum fyrr á tímum. Ég er aftur á móti með vistfræðina, æxlunarlíffræðina og afleidd efni og nútíma nytjar.“
Val á plöntum í bókina
Í bókinni er fjallað um allar 467 æðplöntur sem finnast í flóru landsins. Þóra Ellen segir að innlendar tegundir séu taldar þær sem voru ílendar hér á landi um 1750. Þar er byggt á Íslensku plöntutali Náttúrufræðistofnunar Íslands sem Hörður gaf út árið 2008 en í því er skilgreint hvaða tegundir teljast til hinnar innlendu flóru.
„Tímasetningin miðar við iðnbyltinguna í Evrópu þegar flutningar eru miklir og samgöngur snaraukast og fólk fer að flytjast milli heimshluta.“
Þóra Ellen segir að auk innlendra tegunda séu einnig í bókinni algengir ílendir slæðingar og tegundir eins og alaskalúpína sem er fyrir löngu orðin ílend í landinu.“
Jón segir að þrátt fyrir að hann sé ekki grasafræðingur telji hann að tegundavalið í bókinni sé mjög lógískt og gefi góða mynd af flóru landsins eins og hann kynntist henni á söfnunarferðum sínum.
Að sögn Þóru Ellenar getur verið erfitt að átta sig á tegundum í ritum sem skrifuð eru fyrir tilkomu tvínafnakerfis Linnes. „Stundum gengur sama tegundin undir mörgum nöfnum eða að sama heiti er notað yfir ólíkar plöntur þannig að það getur reynst erfitt að greina plöntur eftir nafngiftum þeirra í gömlum ritum. Í flóru Stefáns frá 1901 er komið skikki á nöfn íslenskra plantna sem í bókinni eru og þau hafa að mestu haldist óbreytt síðan þá.“
Gullstör.
Skemmtileg og góð samvinna
Þóra Ellen og Jón Baldur segjast bæði vera afskaplega ánægð með bókina og hreykin af sínum hlut í gerð hennar. Bæði segjast þau í sjálfu sér vera fegin að verkefninu sé lokið og að það taki önnur verkefni við.
Jón er búinn að lofa sjálfum sér því að halda áfram að mála flóruna með því að mála nýjar tegundir eftir því sem þær bætast við. „Samvinnan við Hörð og Þóru Ellen er búin að vera mjög góð og auðvitað söknuður í henni.“
Þóra Ellen segir að sér hafi þótt afskaplega gaman að vinna bókina og samvinnunni sem henni fylgdi. „Sérstaklega hafði ég gaman af því að skrifa almennu kaflana fremst í bókinni. Þeir eru viðbót sem ég er mjög glöð yfir að var bætt við en eru ekki í hefðbundnum flórum.“
Eins og allar stórar bækur var Flóra Íslands lengi í vinnslu og margir sem hafa komið að gerð hennar. Meðal þeirra sem lagði mikið til bókarinnar er hönnuður hennar og setjari, Alexandra Buhl, sem vann að henni frá upphafi og skilaði afskaplega fallegu verki. Auk þess sem útgefandinn Vaka-Helgafell hefur lagt gríðarlegan metnað í bókina og vandað útgáfu hennar á allan hátt.
Langur aðdragandi