Fjallað um lífræna ræktun frá öllum hliðum
Sólheimar í Grímsnesi hafa beitt sér fyrir lífrænni ræktun frá upphafi starfseminnar árið 1930.
Efnt verður til málþings um lífræna ræktun og framleiðslu í Vigdísarhúsi, Sólheimum, 6. október og þar horft fram á veginn. Stíga á svið bæði vísindamenn á sviði ræktunar, lífrænir bændur og ræktendur sem fjalla um helstu álitaefni lífrænnar ræktunar í dag frá mörgum hliðum. Að auki verður kynnt skýrsla Environice um stöðu lífrænnar framleiðslu á Íslandi og tillögur til stjórnvalda.
Meðal þeirra sem flytja erindi verða dr. Ólafur R. Dýrmundsson, Kristján Oddsson, mjólkurframleiðandi á Hálsi í Kjós, Þórður G. Halldórsson, fv. garðyrkjubóndi á Akri í Laugarási, Erla H. Gunnarsdóttir, verkefnastjóri Lífræns Íslands, Sævar Ó. Ólafsson, Samkaupum og Stefán Gíslason, framkvæmdastjóri Environice.
Aðgangur er ókeypis og öllum opinn en nauðsynlegt að skrá þátttöku. Dagskrá og frekari upplýsingar um málþingið eru á vefsíðu Sólheima.