Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Krakkarnir voru einbeitt að skapa dýr úr listaverkum eftir göngutúr dagsins í skóginum.
Krakkarnir voru einbeitt að skapa dýr úr listaverkum eftir göngutúr dagsins í skóginum.
Líf og starf 3. ágúst 2021

Fjölbreytt sambland af dýra­um­hirðu og kennslu ólíkra listforma

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir

Sóldís Einarsdóttir, myndlistarkennari, hestakona, hundaþjálfari og hundasnyrtir, stendur nú fyrir námskeiðunum Dýr og list í annað sinn í hesthúsi sínu hjá Hestamannafélaginu Spretti í Garðabæ/Kópavogi.

Þar stendur börnum á aldrinum 5-11 ára til boða að koma á námskeið sem er sambland af myndlistarnámskeiði og kennslu í umhirðu dýra sem hefur svo sannarlega verið vel tekið af borgarbörnunum.

Sunna Dís og Gabríela sýna blaðamanni Kalla kanínu, sem er þriggja ára og ansi kröftuglegur.

Þegar blaðamann Bændablaðsins bar að garði á dögunum var mikið líf og fjör í hesthúsinu hjá Sóldísi þegar börnin komu hvert af öðru kampakát úr göngutúr í skóginum með nokkra hunda í eftirdragi og fangið fullt af alls kyns blómum og laufblöðum. Eitt af verkefnum dagsins var síðan að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn eftir gönguna og skapa dýr á blað úr náttúrulegum efnum sem fundust á göngunni.

„Ég byrjaði á þessum námskeiðum í fyrrasumar með vinkonu minni, Höllu Maríu, sem rekur reiðskólann Eðalhesta, sem síðan flutti á Skagaströnd en ég ákvað að halda þessu áfram með dóttur minni, Þórunni Rebekku. Aðsóknin hefur aukist um helming í sumar þrátt fyrir að við höfum sáralítið auglýst, svo það er greinilega þörf fyrir þessa tegund af námskeiði fyrir börn,“ segir Sóldís, sem er myndlistarkennari við Myndlistarskólann í Kópavogi og málar myndir, aðallega af dýrum.

Dýrakona frá blautu barnsbeini

Það er óhætt að segja að fjölbreytni sé í dýrategundum í hesthúsinu hjá Sóldísi en fyrir utan hestana hafa, hænuungar, kettlingar, naggrísir, kanínur og hamstrar aðstöðu að ógleymdum íslensku fjárhundunum, þeim Mána og Skorra, sem fylgja þátttakendum á námskeiðinu hvert fótmál.

„Ég hef verið mikil dýrakona frá blautu barnsbeini og langaði alltaf að eiga alls konar dýr en fékk það nú kannski ekki alveg eins mikið og ég vildi. Ég og dætur mínar, Þórunn Rebekka og Sunna Dís, höfum lengi verið í hestum og átt alls konar dýr og því var ekki erfitt að bjóða upp á dýra- og listnámskeið hér í hesthúsinu. Við ákváðum strax að hafa hópana fámenna til að geta sinnt bæði börnum og dýrum vel. Það eru 10 til 15 börn á aldrinum 5–11 ára á hverju námskeiði sem eru ýmist fyrir eða eftir hádegi,“ segir Sóldís og bætir við:

„Uppleggið er að börnin komist í tæri við náttúruna og listsköpun auk þess að fá að umgangast dýr og læra að hugsa um þau. Börnin eru tvö til þrjú saman að sjá um dýrin og skiptist það á milli hópa hvaða dýr þau sjá um þann og þann daginn. Þá sjá þau um almenna umhirðu, að þrífa og læra hvað dýrin borða ásamt því að þau fá líka knússtund með þeim.

Síðan eru alltaf tvö börn á dag sem fá að prófa að fara á hestbak og þess á milli vinnum við með listina og mismunandi listform, svo allir hafa mismunandi hlutverk á hverjum degi alla vikuna á námskeiðinu. Það sem er líka mikill plús í þessu er að við erum á svo yndislegum stað alveg ofan í náttúruperlunni Heiðmörk, en við förum mikið upp í Guðmundarlund til að sækja okkur efnivið í listsköpunina, auk þess sem við sitjum oft úti og teiknum.

Við mæðgurnar erum allar miklar dýra- og listakonur svo þetta er sannarlega draumur að rætast hjá okkur að geta boðið upp á þessi námskeið. Börn á höfuðborgarsvæðinu komast oft ekki í tæri við dýr en hér hafa þau möguleika á því og kunna virkilega að meta það.“

Mæðgurnar Sóldís og Sunna Dís sýna hér hluta af þeim kanínum sem eiga heima í hesthúsinu.

Sóldís er myndlistarkona og teiknar fallegar myndir af húsdýrum, hægt er að sjá verkin hennar á Instagram undir artwork_by_soldis og á Facebook undir Artwork by Soldis.

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...