Fjölmenn þjóðbúningamessa í Villingaholtskirkju
Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson
Kirkjugestir skörtuðu sínum fínasta klæðnaði þegar þeir mættu til þjóðbúningamessu í Villingaholtskirkju í Flóa sunnudaginn 8. október.
Konurnar í sínum búningum og karlarnir í sínum. Þetta er í annað skipti sem boðað er til þjóðbúningamessu að frumkvæði sóknarnefndar. Eftir messuna var boðið til messukaffi í félagsheimilinu Þjórsárveri (Pálínuboð) þar sem gestir komu með veitingar á hlaðborðið en sóknarnefndin sá um kaffi og aðra drykki.
Þrjár konur komu í faldbúningum frá 17. og 18. öld til messunnar sem þær saumuðu sjálfar á sig, glæsilega gert. Þetta eru, frá vinstri, Elín Jóna Traustadóttir, Tungufelli og þær Eyrún Olsen Jensdóttir og Brynja Þórarinsdóttir, sem báðar búa á Selfossi. Þær saumuðu allar faldbúningana sína hjá Annríki í Hafnarfirði sem Ásmundur, sonur Aðalheiðar í Ferjunesi í Flóa og Guðrún Hildur Rosenkjær, kona hans, reka. Ásmundur smíðar skartið en Guðrún Hildur stjórnar saumunum.
Laufey Guðmundsdóttir, 97 ára frá Egilsstaðakoti í Flóa, mætti að sjálfsögðu í þjóðbúningamessuna í sínum fallega þjóðbúning.