Fræðslumyndbönd frumsýnd á búgreinaþingi
Kvikmyndatökum Bændasamtaka Íslands (BÍ) vegna framleiðslu á fræðslumyndböndum um andlega heilsu bænda er nú lokið og er stefnt að því að frumsýna þau á búgreinaþingi sem haldið verður 22.-23. febrúar næstkomandi á Hótel Natura Reykjavík.
Framleiðsla myndbandanna er liður í átaki BÍ, sem heitir Bændageð, þar sem leitast verður við að vinna að forvörnum gagnvart þessu heilsufarslega vandamáli margra bænda. Ætlunin er að aðstoða bændur og aðstandendur við að læra hvernig koma megi auga á vísbendingar um hrakandi andlega heilsu þeirra.
Talað við bændur, aðstandendur og sálfræðing
Átaksverkefnið hófst síðastliðið haust og er staða þess þannig nú, að sögn Stellu Bjarkar Helgadóttur, verkefnastjóra hjá BÍ, að búið er að taka upp myndbönd sem verða síðar aðgengileg félagsmönnum BÍ. „Myndböndin byggja á jafningjafræðslu. Við tökum þar fyrir málefni eins og þunglyndi, streitu, sjálfsvíg og samúðarþreytu. Tölum bæði við núverandi og fyrrverandi bændur, sem deila þeim áföllum sem þeir hafa lent í, aðstandendur og sálfræðing.
Þannig að það er reynt að fara í þetta frá sem flestum sjónarhornum.
Planið er að myndböndin verði tilbúin fyrir búgreinaþing og svo aðgengileg félagsmönnum í kjölfarið. Við munum fara í einhverja kynningu á verkefninu og svo ef fjármagn leyfir að þá yrði farið í gerð fleiri myndbanda þar sem önnur málefni yrðu tekin fyrir.“
Stella segir að ljóst sé að andleg vanlíðan, streita og kvíði séu algeng andleg vandamál sem herji á bændur hér á landi og reynist mörgum bændum erfið, einkum hjá þeim sem hafa þurft að skera niður í bústofni vegna dýrasjúkdóma.
Reynslan sýni að geðheilsa bænda og vandamál tengd dýravelferð séu nátengd.