Fundarhamar úr peruvið
Fallegt íslenskt handverk var í lykilhlutverki á lokaathöfn leiðtogafundar Evrópuráðsins á dögunum.
Þá færði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra Edgar Rinkēvič, utanríkisráðherra Lettlands, útskorinn fundarhamar og þar með tóku Lettar við formennsku í ráðinu af Íslandi.
Handverkið er eftir Sigríði Kristjánsdóttur, Siggu á Grund eins og hún er alltaf kölluð.
„Þetta var mjög skemmtilegt og krefjandi verkefni, sem ég er stolt af. Það fóru 80 klukkutímar í verkið, sem var mjög skemmtilegt og gefandi. Ég notaði peruvið í hamarinn,“ segir Sigga, sem skar einnig út fundarhamar fyrir Alherjarþing Sameinuðu þjóðanna árið 2005. „Það er alltaf meira en nóg að gera hjá mér enda er ég alltaf að fá ný og ný verkefni í hendurnar.
Nú er ég að vinna skemmtilegt verk, sem hvílir leyndardómur yfir, ég má alls ekki segja hvað það er,“ segir Sigga hlæjandi og bætir við: „Ég sker út á meðan ég get, þetta er svo skemmtilegt og gefur mér mikið,“ segir Sigga, sem verður 79 ára þann 30. maí.