Gata nefnd eftir hljómsveit
Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi heiðraði hjómsveitina Æfingu þann 4. maí þegar götusund á Flateyri var nefnt eftir sveitinni og fékk nafnið Æfingarsund.
Það var Þorsteinn Jóhannsson, trésmiður á Flateyri, sem festi skiltið upp en hann mun vera einn helsti sérfræðingur sögu þessa svæðis, að sögn Björns Inga Bjarnasonar, forseta Hrútavinafélagsins Örvars.
Að sögn Björns Inga varð félagið til á hrútasýningu á Tóftum í Stokkseyrarhreppi hinum forna haustið 1999. Hljómsveitin Æfing frá Flateyri hafi þá mætt á hrútasýningu og slegið í gegn að venju.
„Félagið er því 25 ára og er því fagnað á ýmsan hátt þetta árið. Hrútavinafélagið er hópur fólks á Suðurlandi, blanda aðfluttra Vestfirðinga og heimamanna á Suðurlandi og starfar að þjóðlegu mannlífi og menningararfleifð til sjávar og sveita.
Guðfaðir Hrútavinafélagsins er Bjarkar Snorrason, fyrrverandi bóndi að Tóftum, og heiðursforseti er Guðni Ágústsson frá Brúnastöðum og fyrrverandi landbúnaðarráðherra til margra ára.“ Björn Ingi segir að forsöguna megi rekja til þess þegar götusundið hafi verið gengið að kvöldi 27. desember 1968 þegar Æfing kom fram í fyrsta sinn í lok fundar hjá Verkalýðsfélaginu Skildi. Hann segir að þetta áður nafnlausa götusund eigi sér merkan sess í mannlífs- og menningarsögu Flateyrar til áratuga.
Með þessu sé hljómsveitin komin í hóp með hljómsveitinni Geislum á Akureyri, en þar sé Geislagata nefnd henni til heiðurs. Sérstaklega sé þetta merkilegt fyrir Ingólf R. Björnsson, sem hafi á sínum tíma verið í Geislum og svo í Æfingu.