Geitafjársetur í tíu ár
Geitfjársetrið á Háafelli fagnaði áratuga löngu starfsafmæli í byrjun ágúst.
Af því tilefni opnaði fjölskyldan á Háafelli búið fyrir gesti og bauð upp á geitaskoðun og kruðerí. Afurðir geita voru til smakks og prófunar og Anna María Flygenring, formaður Geitfjárræktarfélags Íslands, færði fjölskyldunni tvö kirsuberjatré. Í máli sínu sagði Anna María að Geitfjárræktarfélagið hafi notið góðs af ötulu starfi Jóhönnu B. Þorvaldsdóttur við að fjölga íslenska geitastofninum og kynna hann fyrir landsmönnum og erlendum gestum.
„Það var og er ekki auðvelt verkefni að koma á fót starfsemi sem byggist á geitfjárrækt, tegund búfjár sem fáir þekktu til, sem varð fyrir allmiklum fordómum og að auki í útrýmingarhættu með u.þ.b. 800 einstaklinga á öllu landinu fyrir 10 árum. Hvílík bjartsýni, frumkvæði, hugkvæmni og hugrekki,“ sagði Anna María meðal annars.