Glæsileg fjárhús vígð í Árholti á Tjörnesi
Það var mikið um dýrðir í Árholti á Tjörnesi laugardaginn 8. mars þegar Jón Gunnarsson bóndi bauð fólki að skoða glæsileg ný fjárhús sem hafa verið í byggingu síðan í haust og eru nú tilbúin til notkunar. Um er að ræða allt að 400 kinda hús með gjafagrindum og var ekki annað að sjá en að ærnar kynnu mjög vel við sig á nýja staðnum.
Jón bóndi hefur staðið í framkvæmdunum, en með hjálp vina og vandamanna hefur gengið mjög vel undanfarið að ganga frá húsinu að innan. Hann er að vonum mjög ánægður með þessa byggingu, sem gjörbreytir allri vinnuaðstöðu í Árholti og veitir honum möguleika á því að fjölga fénu. Mun hann þó áfram nýta eldri fjárhúsin og því er plássið orðið mikið sem hann hefur fyrir bústofninn.
Mjög margt fólk kom í Árholt í tilefni dagsins og voru systur Jóns með veitingar þ.e. heita súpu með ýmsu góðgæti og konfekt sem fólk kunni vel að meta.