Gleyma stað og stund í sýndarheimi
Hjá Gunnarsstofnun er nú í sumar unnið að því að kanna nýjar leiðir við að skrásetja búsetu í Fljótsdal.
Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar á Skriðuklaustri, segir að notaðir séu drónar, spjaldtölvur og 360 gráðu myndavél til að staðsetja og afla myndrænna gagna. Hægt sé að laserskanna rústir með spjaldtölvu þannig að til verði nákvæmt þrívíddarlíkan sem hægt er að skoða síðar. Verkefnið er m.a. unnið í samstarfi við Rannsóknasetur HÍ og Minjastofnun og er markmiðið að sögn Skúla Björns að sjá hvort afla megi upplýsinga um minjar í landinu á skjótvirkari máta en hingað til og að nýta krafta almennings við slíkt.
Gunnarsstofnun hefur nokkur undanfarin ár tekið þátt í alþjóðlegum samstarfsverkefnum sem m.a. hafa gert kleift að endurbyggja miðaldaklaustrið sem þar var í sýndarveruleika. Það hefur vakið mikla athygli gesta sem sótt hafa Skriðuklaustur heim. Skúli Björn segir að klaustursögunni sé einnig miðlað með margvíslegum öðrum stafrænum hætti.
„Nýsköpun er eitt af því sem Gunnarsstofnun hefur á sinni stefnuskrá, við höfum frá upphafi reynt að brydda upp á ýmsum nýjungum við miðlun okkar á menningararfi.“
Snjallsíminn er töfrastokkur
Skúli Björn segir að við stöndum nú á tímamótum hvað tækni varðar sem og aðgengi almennings að henni. Stafræn miðlun geri söfnun kleift að opna aðgengi að efni um netið sem áður var einungis hægt að skoða á staðnum. Einangrun vegna kórónuveirunnar hafi aukið á þörf fyrir slíkt og segir hann mikilvægt að halda þeirri vegferð áfram þó svo að nú geti fólk mætt á staðinn aftur.
„Aukið aðgengi að menningararfi leiðir til fleiri rannsókna og nýrrar sköpunar, með því móti höldum við menningararfi okkar lifandi og flytjum þekkinguna frá einni kynslóð til annarrar,“ segir hann.
Tækniframfarir og þá ekki síst í snjallsímum, „sem í raun er töfrastokkur í höndum þeirra sem kunna að nota hann,“ gera að verkum að sögn Skúla Björns að nú er hægt að lýðvirkja almenning til að leggja hönd á plóg og safna eða skrásetja menningararfinn.
„Muninn heitir lítið app sem háskólinn í St. Andrews hefur verið að þróa fyrir Minjastofnun. Það gerir fólki kleift að safna og senda inn staðsetningu og upplýsingar um fornleifar í umhverfi sínu. Við munum m.a. prófa appið hér í Fljótsdal til að virkja heimamenn. Bændur þekkja sitt land og mikilvægt að einfalda þeim slíka upplýsingaöflun og svo er þetta tilvalið fyrir gönguhópa,“ segir Skúli Björn.
Söfn og setur mega ekki staðna
„Nýjar kynslóðir sem vaxið hafa upp með snjallsímann í höndunum spilandi tölvuleiki búa yfir annars konar upplýsingalæsi og þekkingu heldur en fyrri kynslóðir,“ segir Skúli Björn og bætir við að þeirra væntingar til miðlunar á menningararfi séu enda allt aðrar.
Söfn og setur megi ekki staðna, heldur taka þátt í þróuninni af fullum krafti. Nýr veruleiki sýni að það sem í eina tíð kostaði margar milljónir að gera og útheimti fjölda sérfræðinga sé nú á færi eins starfsmanns sem setur sig inn í hlutina „og nýtir gáttir og ódýran frían hugbúnað til að skapa nútímalega miðlun. Hinn stafræni heimur er kominn til að vera, hann er hluti af öllu sem við gerum,“ segir hann. Stafræni heimurinn sé ekki bara spennandi fyrir yngri kynslóðirnar, sjálfur hafi hann fylgt áttræðum einstaklingum inn í sýndarheim hins forna Skriðuklausturs á sýningunni „og þeir hafa gleymt stað og stund og upplifað fortíðina á nýjan hátt“.
Sýndarveruleiki klausturbygginganna er gerður af sérfræðingum við háskólann í St. Andrews í Skotlandi og keyrður í Unreal leikjavél. Þannig stíga gestir inn í fortíðina með því að setja á sig Oculus sýndarveruleikagleraugu og geta þá gengið um byggingarnar eða flogið í kringum þær líkt og í tölvuleik. Þrjú ár eru síðan fyrsta gerðin var aðgengileg fyrir gesti Skriðuklausturs.
Eftirbátar nágrannaþjóða
Skúli Björn segir Íslendinga vera aðeins á eftir þegar kemur að stafrænni miðlun, þrátt fyrir að vera í hópi snjallsímavæddustu þjóða heims og með gott aðgengi að neti.
„Við höfum alls ekki tileinkað okkur nýjungar í sama mæli og nágrannaþjóðir varðandi það að koma menningararfi yfir á stafrænt form, en slíkt er mikilvægt bæði vegna varðveislu hans og miðlunar,“ segir hann.
Vakning sé þó sem betur fer að verða í þessum efnum. Nýstofnuð Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista, sem heyrir undir Háskóla Íslands auk fleiri stofnana, ýti þeirri þróun áfram. Á vegum hennar sé búið að fjárfesta í góðum skönnum sem söfn geti notað til að búa til fullkomnar stafrænar eftirmyndir af gripum og sé það jákvæð þróun.
Óteljandi leiðir til miðlunar
Gunnarsstofnun stóð fyrir skemmstu fyrir stórri ráðstefnu um stafræna miðlun og varðveislu menningararfs sem vakti athygli. Þá hefur stofnunin unnið með Norðmönnum, Skotum og Írum að því að búa til „safn án veggja“ með því að endurskapa fortíðina í sýndarveruleika. Eins hefur verið prófað að leikjavæða miðlun menningararfs.
„Nýjar tæknilausnir hafa á síðustu árum opnað óteljandi leiðir til að skrásetja og miðla menningararfinum með aðgengilegum hætti. Við eigum að vera órög við að nýta okkur þær til að varðveita söguna og deila henni með nýjum kynslóðum.“