Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Gríðarlega öflugir í veiði en líka þægilegir heimilishundar
Líf og starf 11. nóvember 2021

Gríðarlega öflugir í veiði en líka þægilegir heimilishundar

Höfundur: Margrét Þóra Þórsdótttir

„Þetta er gríðarlega öflugir veiðihundar og eru að auki afskaplega góðir og meðfærilegir,“ segir Unnsteinn Guðmundsson um nýja veiðihundategund, German hunting Terrier, sem hann og eiginkonan, Mandy Nachbar, fluttu inn frá Ítalíu. Unnsteinn hefur mikið notað hundana til minkaveiða í nágrenni við Grundarfjörð þar sem hann býr og hafa þeir reynst einkar vel. Minkalaust er á svæðinu umhverfis hans heimabyggð.

„Ég kynntist þessari hundategund fyrst þegar ég var á villisvínaveiðum í Þýskalandi fyrir þremur árum,“ segir Unnsteinn um fyrstu kynni sín af hundunum. „Ég hreifst strax af þessum hundum, þeir eru mjög duglegir og sérlega þefvísir.“

Í kjölfarið fór Unnsteinn, sem er mikill veiðimaður, bæði  á fiska og fugla að kanna möguleika á að flytja hunda af þessari tegund til landsins en hér hafa þeir ekki verið áður. Hann er einnig mjög liðtækur í minkaveiðum og hefur stundað hana frá unglingsaldri. Oft kemur fyrir þegar Unnsteinn er á fuglaveiðum að minkar veiðist í sömu ferð. Minkaveiðihundar sem hér eru segir hann einkum vera ýmiss konar blendinga og misjafna að gæðum, sumir reynist ágætlega en aðrir síður.

German hunting Terrier-hundar búa yfir mörgum kostum, auk þess að vera öflugir veiðihundar eru þeir líka ljúfir og þægilegir heimilishundar.

Ekki sátt fyrr en góðir ræktendur fundust á Ítalíu

„Við fórum að leita að ræktendum þessarar hundategundar í Evrópu en sú leit tók langan tíma, eða um tvö ár, við fundum ekki góða ræktendur, við leituðum víða en vorum aldrei fyllilega sátt. Ekki fyrr en við duttum niður á þessa sem við höfum átt samskipti við og eru á Norður-Ítalíu, þar á bæ er allt til fyrirmyndar að okkar mati,“ segir hann en þau hjónin fluttu inn hunda úr þeirri ræktun. Nefnir hann sem dæmi um hversu öflugir veiðihundar þetta kyn er að tík sem þau fengu hefði veitt minka sama dag og hún var laus úr sóttkví.   

Mandy með þrjú af fimm börnum sínum. Þau Ara, Tinnu og Lydíu Rós.

Halda svæðinu minkalausu

„Þetta eru magnaðir hundar, einstaklega öflugir í veiði, mjög orkumiklir og þefvísir en  þeir eru líka þægilegir heimilishundar, barngóðir og ljúfir. Þeir búa yfir mörgum kostum,“ segir Unnsteinn sem notið hefur liðsinnis hunda við minkaveiðar í námunda við Grundarfjörð með þeim árangri að svæðið er svo til minkalaust. „Það þýðir ekki neitt að fara eina ferð á ári til að halda mink í skefjum, það þarf að fara mun oftar,“ segir hann og nefnir að hann og fjölskyldan hafi að líkindum farið þetta 80 og upp í 100 ferðir á ári til minkaveiða. „Þetta er fjölskyldusport, það hafa allir gaman af þessu. Útiveran er mikil og hreyfingin og svo er smá spenna í bland,“ segir hann.  Unnsteinn segir að þó minkur sé lítill og lágfóta sé yfirferðin gríðarleg, þeir komist auðveldlega yfir 30 til 50 kílómetra á sólarhring og þeir eru alltaf á ferðinni. Hann hefur séð mörg dæmi um það mikla tjón sem minkar geta valdið í lífríkinu og nefnir að hann hafi eitt sinn verið of seinn að ná læðu sem hann vissi um í varplandi. Eftir hana lágu um 500 egg og fjöldinn allur af æðarungum. „Minkurinn er skaðræðisskepna og ég hef oft séð hvað hann getur valdið miklum skaða í æðarvörpum þannig að það er mikilvægt, finnst mér, að halda stofninum í skefjum,“ segir hann.

Unnsteinn og Mandy eiga nú þrjá hunda, Kolku, Ask og Grimmu, og fá einn til viðbótar úr ræktuninni á Ítalíu í janúar næstkomandi. Þau hafa fengið nokkra hvolpa liðin misseri og eru nokkrir German Hunting Terrier til hér og hvar á landinu. 

Skylt efni: Hundar | hundarækt

Staða harmonikunnar sterk
Líf og starf 30. desember 2024

Staða harmonikunnar sterk

Félag harmonikuunnenda í Reykjavík heldur úti starfi fyrir harmonikuunnendur, sa...

Nýr heimsmeistari í skák
Líf og starf 30. desember 2024

Nýr heimsmeistari í skák

Nýr heimsmeistari í skák var krýndur 12. desember síðastliðinn. Hann heitir Domm...

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu
Líf og starf 27. desember 2024

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu

Á seinni hluta nítjándu aldar hófu kvenfélög að stinga upp kolllinum hérlendis, ...

Jólin komu snemma fyrir norðan
Líf og starf 27. desember 2024

Jólin komu snemma fyrir norðan

Það mátti greina spennu og tilhlökkun í augum Þingeyings sem óðamála sagði umsjó...

Sinn er siður í landi hverju
Líf og starf 27. desember 2024

Sinn er siður í landi hverju

Líkt og Íslendingar eiga Grænlendingar og Færeyingar sér sterkar jólahefðir sem ...

Ár umbreytinga og innsæis
Líf og starf 27. desember 2024

Ár umbreytinga og innsæis

Eins og siður er kastaði völva Bændablaðsins beinum sínum og opnaði fyrir flæði ...

Hvað er í jólamatinn og af hverju?
Líf og starf 23. desember 2024

Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Spurning dagsins: Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...